Irrational Beliefs Inventory (IBI)

Efnisorð

  • Hugsanaskekkjur
  • Geðraskanir
  • Rational Emotive Behavior Therapy (REBT)

Stutt lýsing

  • Tegund: Sjálfsmat
  • Fjöldi atriða: 50
  • Metur: Órökréttar eða óhjálplegar hugmyndir (hugsanaskekkjur) sem oft koma við sögu í geðrænum vandamálum. Undirsvið eru Áhyggjur (12 atriði), Ósveigjanleiki (14), Þörf fyrir viðurkenningu (7), Forðun frá vandamálum (10) og Tilfinningalegt raunsæi (7). Byggir á hugmyndafræði Rational Emotive Behavior Therapy (REBT)
  • Svarkostir: Fimm punkta fullmerktur raðkvarði frá 1 (mjög ósammála) til 5 (mjög sammála)
  • Heildarskor: Heildarskor má reikna fyrir undirsvið og fyrir listann í heild. Spönn skora á undirkvörðum er breytileg eftir fjölda atriða, en í öllum tilvikum vitna hærri skor um fleiri óhjálplegar hugmyndir (umfangsmeiri hugsanaskekkjur). Skor á listanum í heild eru á bilinu 50 til 250, túlkuð með sama hætti

Íslensk þýðing

  • Guðmundur T. Heimisson o.fl. (2011)
  • Listinn var þýddur af tveimur aðilum auk Guðmundar í doktorsverkefni þess síðarnefnda. Þrjár þýðingar voru sameinaðar í eina sem svo var bakþýdd af tveimur óháðum þýðendum. Þrír aðilar mátu málfar, læsileika og menningarlegan viðeiganleika bakþýðingarinnar, og var aðlagað i samræmi. Að endingu voru fjögur ítarviðtöl framkvæmd þar sem háskólanemar mátu skiljanleika og komu með athugasemdir sem brugðist var við eins og við átti. Sjá nánar í doktorsverkefni Guðmundar

 

Próffræðilegir eiginleikar

Áreiðanleiki: Innri áreiðanleiki undirsviða var kannaður samhliða staðfestandi þáttagreiningu í úrtaki íslenskra háskólanema.Undirkvarðinn Áhyggjur hafði α = 0,83, Ósveigjanleiki hafði 0,67, Þörf fyrir viðurkenningu hafði 0,82, Forðun frá vandamálum hafði 0,87 og Tilfinningalegt raunsæi hafði 0,72. Fyrir samanburð við niðurstöður í viðmiðunarúrtökum erlendis, sjá grein Guðmundar og Robert í töflu 1.

Réttmæti: Ítarviðtöl voru fyrst notuð til að meta gæði þýðingar IBI.Fjórir íslenskir háskólanemar lásu atriði listans upphátt og rannsakandi færði athugasemdir, hik og annað sem benti til vandkvæða með skilning til bókar. Ítarspurningar voru lagðar fyrir í kjölfarið varðandi þau atriði þar sem athugasemdir höfðu komið fram. Athugasemdir þátttakenda voru að því búnu þemagreindar – sjá nánar í grein Guðmundar og Robert undir Cognitive interviews. 

Staðfestandi þáttagreining var framkvæmd í úrtaki íslenskra háskólanema.Mát ætlaðs fimm þátta líkans (sjá undirsvið undir lýsingu að ofan) var um það bil ásættanlegt m.t.t. RMSEA (0,049, 90% ÖB = [0,047;0,051] og SRMR (0,06). Staðlaðar þáttahleðslur voru kannaðar. 38 atriði af 50 höfðu hleðslur ≥ 0,40, en 27 atriði höfðu hleðslur ≥ 0,50. Aðeins 3 atriði höfðu staðlaða hleðslu hærri en ströngustu viðmið Hair o.fl (2014) – 0,70, og þar með tæplega 50% skýrða dreifingu. Þetta voru atriði af undirsviðinu Þörf fyrir viðurkenningu. Heilt yfir voru staðlaðar þáttahleðslur því lágar samkvæmt viðmiðum rannsakenda – lægstar fyrir undirsviðið Ósveigjanleiki. Þetta var áþekkt því sem fékkst í bandarísku viðmiðunarúrtaki, nema m.t.t. Ósveigjanleika sem kom verr út hérlendis. Nánara mat á máti fimm þátta líkans leiddi í ljós að fylgni villuliða atriða varumtalsverð, rétt eins og í bandarísku úrtaki. Meðal annars kom hún fram milli atriða með svipað orðalag á undirkvarðanum Þörf fyrir viðurkenningu (Það er mér mikilvægt að aðrir viðurkenni mig og Álit annarra á mér er mjög mikilvægt). Krosshleðslur komu einnig fram, t.d. hjá atriðinu Ég þoli alls ekki að mistakast eitthvað sem hlóð ekki aðeins á Þörf fyrir viðurkenningu heldur einnig Áhyggjur.

Mynstur í innbyrðis fylgni undirsviða var áþekkt hérlendis og í Bandaríkjunum.Mest var fylgni milli undirsviðanna Áhyggjur og Þörf fyrir viðurkenningu (= 0,56) en lægst milli Þörf fyrir samþykki og Tilfinningalegt raunsæi og Forðun frá vandamálum og Tilfinningalegt raunsæi (í báðum tilvikum = 0,06).

Óbreytni mælinga (e. measurement invariance) var athuguð með því að kanna mát líkana á Íslandi og í Bandaríkjunum sem tilgreindu síauknar kröfur um jafngildi atriða (jafngildi þáttahleðsla, meðaltala og villudreifinga). Sú athugun benti til þess að ganga mætti út frá jöfnum þáttahleðslum milli landa (ΔRMSEA = 0,001, ΔSRMR = 0,008) en að meðaltöl atriða væru marktækt ólík á meirihluta atriða (ΔRMSEA = 0,020, ΔSRMR = 0,019). Mestur jöfnuður á meðaltölum atriða var á undirkvarða Tilfinningalegs raunsæis þar sem 4 af 7 meðaltölum voru áþekk. Minnstur var jöfuður meðaltala á undirkvarðanum Ósveigjanleiki (3 atriði af 14 með svipuð meðaltöl). Af þessari greiningu ályktuðu höfundar að varlega ætti að fara í millilandasamanburð með IBI listanum þar sem vísbendingar væru um ólíka virkni atriða. 

 

Heimildir

Upprunaleg heimild:

  • Koopmans, P. C., Sanderman, R., Timmerman, I., & Emmelkamp, P. M. (1994). The Irrational Beliefs Inventory (IBI): Development and psychometric evaluation. European Journal of Psychological Assessment, 10(1), 15-27. 
    https://pure.rug.nl/ws/portalfiles/portal/3297082/Koopmans_1994_IBI.pdf

Próffræðigreinar:

  • Heimisson, G. T., & Dedrick, R. F. (2022). Factor Structure and Measurement Invariance of the Irrational Beliefs Inventory for University Students in the United States and Iceland. Psychological Reports, 125(1), 5-28. https://doi.org/10.1177/0033294120971773

Dæmi um birtar greinar:

  • Ekkert fannst utan greinar að ofan

Nemendaverkefni:

  • Ekkert fannst

 

Reglur um notkun

  • Í opnum aðgangi – sjá hér
  • Ekki eru gerðar kröfur um sérstaka þjálfun fyrir fyrirlögn, en listinn er eftir sem áður ætlaður fagfólki (klíníkerum)

Aðrar útgáfur

  •  Ekkert fannst

Síðast uppfært

  • 12/2023