Um stofnunina

Image
""

Um stofnunina

 

Heilbrigðisvísindastofnun Háskóla Íslands tilheyrir Heilbrigðisvísindasviði og er vettvangur rannsókna- og þróunar á sviðinu. Að stofnuninni standa allir vísindamenn Heilbrigðisvísindasviðs, deildir og rannsóknareiningar. Undir hatti Heilbrigðisvísindastofnunar eru rúmlega 20 rannsóknarstofnanir. Stofnunin byggir á vot- og þurrrannsóknum ásamt stoðþjónustu.

 

Markmið Heilbrigðisvísindastofnunar er að auka gæði og samlegðaráhrif í rannsóknum með því að efla samstarf og byggja upp sameiginlega innviði og þjónustu. Þar má nefna rannsóknastofur og aðstöðu, stuðning við styrkjasókn í erlenda og innlenda sjóði og umsjón með bókhaldi og skýrslum til rannsóknasjóða.

Hjá Heilbrigðisvísindastofnun getur starfsfólk fengið upplýsingar um styrkjamöguleika og aðstoð við styrkumsóknir, fengið aðstoð við tölfræðivinnslu rannsókna og ráðgjöf við gerð og fyrirlögn spurningalista. Hjá stofnuninni er unnið að eflingu framhaldsnáms í heilbrigðisvísindum. Þar er starfrækt ný móttaka fyrir klínískar rannsóknir og viðtöl. Að auki er gott samstarf við Landspítala um Klínískt rannsóknasetur og Heilbrigðisvísindabókasafn.

Heilbrigðisvísindastofnun stefnir að aukinni þjónustu, til dæmis að veita aðstoð við uppsetningu og vistun rannsóknargagna fyrir úrvinnslu.

Aukin þjónusta Heilsubrunns er einnig á stefnuskránni. Markmiðið er að nýta bestu fáanlegu heilbrigðisupplýsingatækni og sérfræðiþekkingu sem völ er á til að vinna með heilbrigðisstofnunum að gæðum heilbrigðisupplýsinga og þar með möguleikum til rannsókna.

Í framtíðinni er mikilvægt að stefnt verði að aukinni aðstoð við nýsköpun og samfélagslega þjónustu.

Hluti af framtíðarsýn Heilbrigðisvísindastofnunar er að fræðileg þekking og niðurstöður rannsókna verði betur nýttar til hagsbóta fyrir samfélagið.