Doktorsnám

Image
""

Doktorsnám

Markmið doktorsnámsins við Háskóla Íslands er að veita nemum vísindalega þjálfun og búa þá undir vísindastörf, meðal annars háskólakennslu eða sérfræðingsstörf við rannsóknastofnanir, og önnur ábyrgðarmikil störf í samfélaginu.

Á Heilbrigðisvísindasviði er hægt að stunda fjölbreytt doktorsnám við allar deildir sviðsins. Þar er fyrsta flokks aðstaða til vísindastarfa og leiðbeinendur eru margir hverjir helstu sérfræðingar þjóðarinnar í heilbrigðisvísindum. Sviðið á náið samstarf um kennslu og rannsóknir við margar innlendar og erlendar stofnanir á heimsmælikvarða. Þá njóta doktorsnemar þjónustu Heilbrigðisvísindastofnunar, sem styður við rannsóknir doktorsnema með fjölbreyttum hætti og má kynna sér nánar hér.

Hægt er að hefja doktorsnám að loknu meistaraprófi frá háskóla og tekur námið þá að jafnaði 3-5 ár. Auk þess er heimilt að innritast í samþætt doktorsnám og meistaranám að loknu BS/BA-námi, námstími að jafnaði 5-7 ár, eða samþætt doktorsnám og kandídatsnám í læknisfræði að loknu BS-prófi í læknisfræði, námstími að jafnaði 6-8 ár.

 

Nánari upplýsingar um doktorsnám

Til að innritast í doktorsnám á Heilbrigðisvísindasviði þarf nemandi að hafa lokið MS-/MA-prófi frá Háskóla Íslands með lágmarkseinkunn 7,25 (á kvarðanum 0 til 10), eða öðru prófi sem doktorsnámsnefnd metur að sé samsvarandi.

Deildir geta sett skilyrði um forkröfur eða sérstakan undirbúning.

Heimilt er að innrita nemanda í doktorsnám við Læknadeild samhliða kandídatsnámi í læknisfræði eða meistaranámi í líf- og læknisfræði, hafi hann sýnt góða námshæfni og reynslu af rannsóknarstörfum með góðum vitnisburði leiðbeinanda.

Þeir sem hyggja á doktorsnám ættu að hafa fundið sér áhugasvið.

Algengast er að innlendir nemendur finni verkefni eftir að hafa rætt við kennara, sérfræðinga og vísindamenn. Þetta geta verið kennarar við Háskóla Íslands eða jafnvel aðrar stofnanir. Ef verkefnið er leitt af sérfræðingi utan HÍ er iðulega skipaður umsjónarmaður sem starfar við HÍ.

Einnig eru fordæmi fyrir því að meistaraverkefni loknu haldi viðkomandi áfram í doktorsnám í sama eða skyldu verkefni.

Starfandi vísindamenn fá oft styrki til ákveðinna verkefna og auglýsa eftir nemendum til að leysa þau. Fólk áhugasamt um framhaldsnám ætti að fylgjast með yfir slíkum auglýsingum, ræða við vísindamennina og sækja um.

Mikilvægast er að finna leiðbeinanda með áhugavert og heppilegt verkefni, með vel skilgreindar rannsóknarspurningar.

Umsókn um doktorsnám við Heilbrigðisvísindasvið er tvíþætt. Fylla skal út eftirfarandi:

  1. Rafræn umsókn með grunnupplýsingum (vinsamlegast hafið samband við viðkomandi deildarskrifstofu ef rafræna umsóknin er ekki virk).
  2. Umsóknareyðublað með ítarlegri rannsóknaráætlun eða án ítarlegrar rannsóknaráætlunar.

Eftirfarandi gögn skulu fylgja með umsókn í tölvupósti til viðkomandi deildar:

  • Náms- og starfsferill nemanda ásamt afriti af prófskírteini (B.S. og M.S. eða sambærilegu prófi). 
  • Starfsferill og ritverkaskrá umsjónarkennara/leiðbeinanda.
  • Starfsferill og ritverkaskrá doktorsnefndar (ef um er að ræða umsókn með ítarlegri rannsóknaráætlun).
  • Afritum af leyfum (ef við á).

Vinsamlega athugið að ekki er hægt að afgreiða umsóknina nema ofangreind gögn fylgi. Sjá einnig: Kröfur til fylgigagna með umsókn. 

Ef umsóknin er samþykkt er gerður samningur um doktorsnám á milli nemanda og leiðbeinanda/umsjónarkennara.

Nánari upplýsingar um umsóknarferli

  1. Nemandi og leiðbeinandi senda inn sameiginlega umsókn með eða án ítarlegrar rannsóknaráætlunar til deildar ásamt fylgigögnum eins og við á (sjá umsóknareyðublöð og fylgigögn undir "Umsókn" hér að ofan).
  2. Fastanefnd deildar metur hvort nægileg þekking og aðstaða sé til staðar í deildinni og hvort gerð hafi verið fjárhagsáætlun og tilkynnir deildarskrifstofu um niðurstöðuna.
  3. Ef umsókn með ítarlegri rannsóknaráætlun (A-leið) uppfyllir öll skilyrði, m.a. inntökuskilyrði deilda, er rétt útfyllt og fastanefnd deildar hefur samþykkt umsókn er hún áframsend Doktorsnámsnefnd Heilbrigðisvísindasviðs (DNN). Ef umsókn án ítarlegrar rannsóknaráætlunar (B-leið) uppfyllir öll skilyrði tilkynnir deild Doktorsnámsnefnd að umsókn hafi verið samþykkt og nemi innritast í doktorsnám. Í þeim tilfellum skal nemi skila rannsóknaráætlun (nota eyðublaðið „Umsókn með ítarlegri rannsóknaráætlun“) innan 6 mánaða frá innritun sem fer þá í sama ferli og umsókn með rannsóknaráætlun skv. A-leið.
    Ath. að í Læknadeild er afgreiðsla umsókna alfarið í höndum Rannsóknarnámsnefndar.
  4. Rannsóknaráætlun er tekin fyrir á fundi DNN þar sem ræddar eru tillögur um yfirlesara. Eftir að yfirlesari hefur verið tilnefndur tekur mat á umsókn allajafna 2-4 vikur.
  5. Ef yfirlesari gerir ekki verulegar athugasemdir við rannsóknaráætlun boðar DNN umsækjanda í viðtal ásamt tilvonandi leiðbeinanda/umsjónarkennara og sendir þeim umsögn yfirlesara um rannsóknaráætlun. Ef yfirlesari gerir umtalsverðar athugasemdir við rannsóknaráætlun fær doktorsnemi fjórar vikur til að skila endurbættri áætlun.
  6. Í viðtalinu fær umsækjandi 10–15 mínútur til að gera grein fyrir verkefni sínu án þess að nota glærur. Að því loknu eru ætlaðar 15–20 mínútur í umræður. Viðstödd viðtalið eru auk umsækjandans leiðbeinandi/umsjónarkennari, formaður DNN, fulltrúi deildar í DNN og fulltrúi stjórnsýslu sviðsins.
  7. Umsækjandi fær sent innritunarbréf.
  8. Formleg innritun í doktorsnám og innheimta skráningargjalds.

Doktorsnemar greiða skráningargjald háskólans á hverju ári á meðan doktorsnámi stendur. Upplýsingar um skráningargjald HÍ.

Eftir að doktorsnámið hefst fer fram reglulegt mat á námsframvindunni. Það auðveldar nemanda og leiðbeinanda að ræða og skipuleggja framvindu doktorsverkefnisins. 

Mat á framvindu náms fer fram með framvinduskýrslum sem nemandi, leiðbeinandi og umsjónarkennari vinna í sameiningu. 

Þegar doktorsnámið er u.þ.b. hálfnað fer fram ítarlegt mat á stöðu doktorsverkefnisins, svokallað miðbiksmat.

Þegar doktorsnámi líkur fer fram doktorsvörn við háskólann. Vörnin er hátíðlegur viðburður og virðingarauki fyrir doktorsnemann, deildina og skólann allan.

Markmið doktorsvarnar er að fá fram faglegar umræður milli doktorsnema og andmælanda um doktorsverkefnið. Doktorsneminn þarf að sýna fram á þekkingu sína á viðfangsefninu og hæfni sína sem fyrirlesari.

Heilbrigðisvísindasvið á samstarf um kennslu og rannsóknir við margar innlendar og erlendar stofnanir á heimsmælikvarða. Á meðal innlendra stofnana eru:

Vísindafólk og leiðbeinendur doktorsnema starfa oft innan þessara stofnana og hjá Heilbrigðisvísindasviði. Rannsóknir doktorsnema fela því oft í sér náið samstarf við ofangreindar stofnanir. Doktorsnám í matvælafræði fer til dæmis að öllu leyti fram í samstarfi við Matís og nemendur hafa aðstöðu í höfuðstöðvum Matís að Vínlandsleið. 

Vísindafólk á sviðinu stundar einnig rannsóknir í alþjóðlegu samhengi og á samstarf við aðila um allan heim. Þar má til dæmis nefna virta háskóla eins og Harvard University í Bandaríkjunum og Karolinska Institutet í Svíþjóð, en jafnframt smærri rannsóknastofur og stofnanir sem standa framarlega á sínu sviði. Doktorsnemum gefast því oft tækifæri til samstarfs og að mynda tengsl við erlenda rannsóknahópa.

Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum lagt áherslu á að fjölga styrkjum til doktorsnema. Öflugt styrkjakerfi er mikilvæg forsenda þess að doktorsnemar geti helgað sig náminu og náð tilskildum árangri. Upplýsingar um fjármögnun og styrki í boði veitir rannsóknaþjónusta Heilbrigðisvísindasviðs eða Vísinda- og nýsköpunarsvið HÍ.

Á Heilbrigðisvísindasviði geta doktorsnemar sótt um ferðastyrki vegna þátttöku í ráðstefnu (sé umsækjandi með innlegg á ráðstefnunni), námskeiða, sumarskóla o.fl. sem styður við doktorsnámið. Upplýsingar um ferðastyrkina eru að finna í Uglu.

Á Heilbrigðisvísindasviði er mikil gróska í rannsóknum í doktorsnámi. Þar stunda á annað hundrað doktorsnemar rannsóknir í fjölbreyttum greinum heilbrigðisvísindasviða. Hér á síðunni má finna lista yfir rannsóknir doktorsnema sem eru í gangi á Heilbrigðisvísindasviði, raðað eftir viðfangsefnum og svo heiti doktorsnemans. Hér má fara inn á vefsíðu Heilbrigðisvísindastofnunar.

Gæðavottun doktorsnáms

Doktorsnám við Heilbrigðisvísindasvið hefur hlotið gæðavottun frá ORPHEUS (Organisation for PhD Education in Biomedicine and Health Sciences in the European System). Háskóli Íslands er fimmti háskólinn í Evrópu til þess að hljóta vottunina.