
Markmið doktorsnámsins við Háskóla Íslands er að veita nemum vísindalega þjálfun og búa þá undir vísindastörf, meðal annars háskólakennslu eða sérfræðingsstörf við rannsóknastofnanir, og önnur ábyrgðarmikil störf í samfélaginu.
Á Heilbrigðisvísindasviði er hægt að stunda fjölbreytt doktorsnám við allar deildir sviðsins. Þar er fyrsta flokks aðstaða til vísindastarfa og leiðbeinendur eru margir hverjir helstu sérfræðingar þjóðarinnar í heilbrigðisvísindum. Sviðið á náið samstarf um kennslu og rannsóknir við margar innlendar og erlendar stofnanir á heimsmælikvarða. Þá njóta doktorsnemar þjónustu Heilbrigðisvísindastofnunar, sem styður við rannsóknir doktorsnema með fjölbreyttum hætti og má kynna sér nánar hér.
Hægt er að hefja doktorsnám að loknu meistaraprófi frá háskóla og tekur námið þá að jafnaði 3-5 ár. Auk þess er heimilt að innritast í samþætt doktorsnám og meistaranám að loknu BS/BA-námi, námstími að jafnaði 5-7 ár, eða samþætt doktorsnám og kandídatsnám í læknisfræði að loknu BS-prófi í læknisfræði, námstími að jafnaði 6-8 ár.