WHO Disability Assessment Schedule 2.0 (WHODAS 2.0)

Efnisorð

  • Færni
  • Fötlun
  • Heilsa

Stutt lýsing

  • Tegund: Sjálfsmat fullorðinna eða viðtal. Athuga að einnig er til útgáfa sem leggja má fyrir aðstandanda / umönnunaraðila
  • Fjöldi atriða: 36 
  • Metur: Fötlun og færni fólks sem býr heimavið, óháð hvort og þá hvaða sjúkdóma það hefur. Byggir á hugmyndafræði Alþjóðlega flokkunarkerfisins um færni, fötlun og heilsu (ICF). Inniheldur 6 svið: (1) skilningur og boðskipti (e. understanding and communicating, 6 atriði), (2) að komast um (e. getting around, 5), (3) eigin umsjá (e. self-care, 4), (4) samskipti (e. getting along with people, 5), (5) dagleg störf (e. life activities, 8 atriði, má skipta í heimilisstörf og vinna og nám) og (6) þátttaka í samfélaginu (e. participation in society, 8). Miðað er við síðustu 30 daga
  • Svarkostir: Fimm punkta fullmerktur raðkvarði frá 1 (ekkert / engin) til 5 (mjög erfitt / get ekki, eða mikinn / mikill)
  • Heildarskor: Skor má reikna fyrir listann í heild og hvert svið. Skorun má gera með tvennum hætti. Í fyrsta lagi: Einfalt summuskor allra atriða án vigtunar þar sem ekki er tekið tillit til erfiðleikastigs atriða (spönn 36–180). Þetta skor kann að vera ónámkvæmt. Í öðru lagi: Skor sem byggir á svarferlagreiningu (IRT) þar sem tekið er tillit til erfiðleikastigs (spönn 0–100). Þetta skor gefur réttmætara mat. Fyrir síðari skorunina þarf að notast við hugbúnað á vefsíðu WHO. Hærri skor vitna í öllum tilvikum um aukna fötlun, og minni þátttöku og virkni (verri útkomu). Sjá nánar í handbók listans

Íslensk þýðing

  • Hafdís Hrönn Pétursdóttir, Ragnheiður Harpa Arnardóttir og Guðrún Pálmadóttir 
  • Þýtt með leyfi WHO og í samræmi við leiðbeiningar stofnunarinnar: Listinn var fyrst þýddur af tveimur þeirra höfunda sem nefndir eru að ofan, svo forprófaður í litlu úrtaki einstaklinga í endurhæfingu til að leggja mat á skiljanleika og orðalag. Eftir lagfæringar var listinn lagður fyrir tvo aðra einstaklinga, án athugasemda. Þá var listinn bakþýddur af fagaðila í endurhæfingu með gott vald á ensku og borinn saman við frumútgáfu, aftur án athugasemda

 

Próffræðilegir eiginleikar

Áreiðanleiki: [IRT skorun] Í úrtaki fólks sem var að hefja endurhæfingu og fólks með hjarta- og lungnasjúkdóma sem sótti viðhaldsþjálfun mældist innri áreiðanleiki fyrir listann í heild α = 0,94 og 0,95 (athuga þó fremur smá úrtök).Alfastuðull undirsviða var lægstur 0,77 (Samskipti í hópi hjarta- og lungnasjúklinga) en hæstur 0,98 (Dagleg störf–vinna og nám meðal hjarta- og lungnasjúklinga og í úrtaki í heild). Þetta var sagt á pari við bestu útkomur annarra þýðinga erlendis. Endurprófunaráreiðanleiki í hluta úrtaks  hjarta- og lungnasjúklinga (= 55) var á bilinu ICC = 0,77 (Samskipti) til 0,94 (Dagleg störf–vinna og nám). Þetta var sagt í samræmi við aðrar rannsóknir.

Réttmæti: [IRT skorun] Fylgni á milli undirsviða WHODAS 2.0 og SF-36v2 var könnuð í sama úrtaki og greinir frá að ofan.Fylgnin reyndist í flestum tilvikum marktæk – undirkvarði Þátttöku hafði að jafnaði hæstu fylgnina við SF-36v2 eða á bilinu rrho = |0,28| (almennt heilsufar) til 0,63 (félagsleg virkni). Undirkvarði Eigin umsjár hafði einna veikust tengsl við SF-36v2, frá rrho = |0,17|–|0,32|. Í heildina voru tengslin sögð í samræmi við það sem vænta mátti, nema fyrir undirkvarða Eigin umsjár. Fyrir nánari umræðu, sjá grein þýðenda.1

Geta WHODAS 2.0 til að nema breytingar á færni / árangur af inngripi var metin í úrtaki þeirra sem hófu endurhæfingu í heimahúsi.2 Marktæk lækkun varð á heildarskori og skori allra undirsviða nema Dagleg störf. Að sama skapi var martækur munur á skori þeirra sem útskrifuðust sjálfbjarga úr endurhæfingu og þeirra sem þurftu áframhaldandi þjónustu, bæði á heildarskori og á þremur af sex undirsviðum. Sjá nánar í nemendaverkefni Ásbjargar.

 

Heimildir

Upprunaleg heimild:

  • Gold, L. H. (2014). DSM-5 and the assessment of functioning: The World Health Organization Disability Assessment Schedule 2.0 (WHODAS 2.0). Journal of the American Academy of Psychiatry and the Law, 42(2), 173–181.

Próffræðigreinar:

  • 1. Hafdís Hrönn Pétursdóttir, Ragnheiður Harpa Arnardóttir & Guðrún Pálmadóttir. (2020). Íslensk þýðing WHODAS 2.0 og próffræðilegir eiginleikar hennar. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 2(96), 80–87. https://hjukrun.cdn.prismic.io/hjukrun/05d85352-95dd-42ae-8a3c-1d1786732af4_IslenskThydingWHODAS.pdf

Dæmi um birtar greinar:

  • Jónsdóttir, S. L., Brynjarsdóttir, B., Saemundsen, E., & Sigurdsson, J. F. (2018). Long-term outcome of children with autism who received different forms of early intervention during their preschool years: a pilot study of 15 young adults. Scandinavian Journal of Child and Adolescent Psychiatry and Psychology, 6(1), 28-39. https://doi.org/10.21307/sjcapp-2018-006

Nemendaverkefni:

  • Hafdís Hrönn Pétursdóttir. (2019). WHODAS 2.0 : íslensk þýðing og prófun á mælifræðilegum eiginleikum [óútgefin meistararitgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/33245
  • 2. Ásbjörg Magnúsdóttir. (2021). Endurhæfing í heimahúsi : árangur og árangursmat með mælitækinu WHODAS 2.0 [óútgefin meistararitgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/38985

 

Reglur um notkun

  • Í opnum aðgangi, rannsakendum er bent á að hafa samband við Hafdísi Hrönn Pétursdóttur á hafdisp@unak.is

Aðrar útgáfur

  • 12 atriða útgáfa

Síðast uppfært

  • 8/2024