Supports Intensity Scale - Adult version (Staðlað mat á umfangi stuðningsþarfa fullorðinna) (SIS-A)

Efnisorð

  • Stuðningsþörf
  • Fatlaðir

Stutt lýsing

  • Tegund: Viðtal – matið er framkvæmt af sérfræðingi í SIS-matskerfinu og nær til fullorðinna fatlaðra 18 til 67 ára
  • Fjöldi atriða: Ekki ljóst
  • Metur: Stig og magn þess hagnýta stuðnings sem einstaklingar með fötlun þarfnast til að lifa sem eðlilegustu lífi með fullri þátttöku í samfélaginu. Matið skiptist í þrjá hluta
    • 1. Stuðningsþörf, sem skiptist í sex undirkvarða; Á heimili, Utan heimilis, Símenntun, Starf, Heilsa og öryggi og Félagsleg virkni
    • 2. Vernd og hagsmunagæsla - Viðbótarmat sem ekki kemur til útreikninga í endanlegri stuðningsþörf
    • 3. Þörf fyrir stuðning vegna vanda tengdum heilsu (Þörf tengd heilsu) og hegðun (Þörf tengd hegðun)
  • Svarkostir: Hvert atriði er metið út frá þremur víddum
    • 1. Tíðni, þ.e. hve oft sé þörf fyrir stuðning, metin á fullmerktum raðkvarða frá 0 (aldrei eða sjaldnar en mánaðarlega) til 4 (á klukkustundarfresti eða oftar
    • 2. Tími í daglegan stuðning, þ.e. hve mikil þörf sé fyrir stuðning á dæmigerðum degi, metinn á fullmerktum raðkvarða frá 0 (enginn) til 4 (4 klst. eða lengur)
    • 3. Tegund stuðnings, þ.e. hvers konar stuðning ætti að veita, metin með fullmerktum raðkvarða frá 0 (enginn) til 4 (fullur líkamlegur stuðningur) 
  • Heildarskor: Stuðningsvísitala (support needs index, SNI) endurspeglar heildar stuðningsþörf og liggur á bilinu 55–145 þar sem hærri skor vitna um meiri stuðningsþörf. Einnig fást upplýsingar um stuðningsflokk (1 til 18) sem byggir á stuðningsvísitölu og stigum fyrir stuðningsþörf vegna heilsu og / eða hegðun

Íslensk þýðing

  • Upplýsingar um þýðingu og staðfærslu má finna á bls. 2 í skýrslu um innleiðingu matstækisins hér á landi

 

Próffræðilegir eiginleikar

Áreiðanleiki: Innri áreiðanleiki í úrtaki einstaklinga í búsetutengdri þjónustu var fyrst kannaður árið 2010. Niðurstöður leiddu í ljós að allir undirkvarðar í fyrsta hluta matstækisins uppfylltu viðmið um æskilegan áreiðanleika (α = 0,85–0,93). Sama átti við um Vernd og hagsmunagæslu (α = 0,90) og stuðningsvísitölu (α = 0,98). Áreiðanleikinn var lægri í þriðja hluta matstækisins (Þörf tengd heilsu, α = 0,67 / Þörf tengd hegðun, α = 0,76) en var þó eðlilegur með tilliti til misleitni atriðanna. Hluti þátttakendanna (um 7%) voru endurmetnir af öðrum matsmanni til að kanna áreiðanleika matsmanna. Niðurstöður voru í flestum tilvikum yfir viðmiðum um ásættanlegan áreiðanleika (helst > 0,75 og ekki lægri en 0,60) en áreiðanleiki var fremur lágur fyrir undirkvarða Utan heimilis (r = 0,57) og Heilsa og öryggi (r = 0,60). Ýtarlegri upplýsingar um niðurstöðurnar má finna á bls. 11–12 í skýrslu verkefnisins.

Árið 2014 fór fram endurmat á stuðningsþörf þeirra fatlaðra sem upphaflega fengu slíkt mat á árinu 2010. Niðurstöður leiddu m.a. í ljós að stöðuleiki matsins á milli 2010 og 2014 væri almennt mjög mikill.

Innri áreiðanleiki var kannaður meðal geðfatlaðra í rannsókn Arnkelsson & Sigurdsson1 og var hann að mestu sambærilegur gildunum sem greint var frá hér fyrir ofan (undirkvarðar Stuðningsþarfar: α = 0,78–0,90 / Vernd og hagsmunagæsla: α =0,85 / Þörf tengd hegðun: α = 0,69 / stuðningsvísitala: α = 0,97). Þörf tengd heilsu mældist aftur á móti með mun lægri áreiðanleika (α = 0,29) sem skýrðist af skertu dreifisviði.

Í úrtaki hreyfihamlaðra2 hefur innri áreiðanleiki reynst afburða góður fyrir undirkvarða Stuðningsþarfar (α = 0,90–0,95), Vernd og hagsmunagæslu (α = 0,94) og stuðningsvísitölu (α = 0,98), en lægri fyrir Þörf tengd heilsu (α = 0,66 og Þörf tengd hegðun (α = 0,69) líkt og greint hefur verið frá hér að ofan.

Réttmæti: Í fyrrgreindri rannsókn Arnkelsson & Sigurdsson1 voru tengsl SIS-A við sjöflokkamat könnuð í hópi geðfatlaðra (Velferðarráðuneytið hafði á sínum tíma stuðst við sjöflokkamatið til að kanna umfang nauðsynlegrar þjónustu). Meðalsterk til nokkuð sterk fylgni mældist milli mismunandi hluta SIS-A og sjöflokkamatsins (r = 0,41–0,64). Fylgnin var hins vegar lág hjá Þörf tengd heilsu vegna skerts deifisviðs (r = 0,23). Ennfremur skýrði línulegt aðhvarfsgreiningarlíkan með stuðningsvísitölu, Þörf tengd heilsu og Þörf tengd hegðun sem forspárbreytum 48% (95% ÖB [34%,60%]) af dreifni sjöflokkamatsins. Líkan með undirkvöðum Stuðningsþarfar í stað stuðningsvísitölu skýrði aðeins hærra hlutfall eða 53% (95% ÖB [34%, 62%]).

Tengsl SIS-A við sjöflokkamatið hefur einnig verið kannað í hópi hreyfihamlaðra.2 Meðalsterk til sterk fylgni mældist milli mismunandi hluta SIS-A og sjöflokkamatsins (r = 0,53–0,80), fyrir utan hverfandi fylgni við Þörf tengd hegðun (r = 0,09). Aðhvarfslíkön líkt og í fyrri rannsókn1 skýrðu 62%–69% í dreifingu sjöflokkamatsins.

Niðurstöður ofangreindra rannsókna1,2 runnu því stoðum undir réttmæta notkun SIS-A meðal geðfatlaðra og hreyfihamlaðra.

 

Heimildir

Upprunaleg heimild:

  • Thompson, J. R., Bryant, B. R., Schalock, R. L., Shogren, K. A., Tassé, M. J., Wehmeyer, M., Campbell, E. M., Craig, E. M., Hughes, C., & Rotholtz, D. A. (2015). Supports Intensity Scale–Adult version. American Association on Intellectual and Developmental Disabilities.

Próffræðigreinar:

  • 1. Arnkelsson, G., & Sigurdsson, T. (2014). The validity of the Supports Intensity Scale for adults with psychiatric disabilities. Research in Developmental Disabilities35(12), 3665–3671. https://doi.org/10.1016/j.ridd.2014.09.006
  • 2. Arnkelsson, G., & Sigurdsson, T. (2016). The validity of the Supports Intensity Scale for adults with motor disability. American Journal on Intellectual and Developmental Disabilities121(2), 139–150. https://doi.org/10.1352/1944-7558-121.2.139

Dæmi um birtar greinar:

  • Ekkert fannst

Nemendaverkefni:

  • Ekkert fannst

 

Reglur um notkun

  • Leyfisskylt og höfundarréttarvarið – Ráðgjafar- og greiningarstöð hefur einkarétt á notkun SIS-A
  • Nánari upplýsingar má finna á vef RGR.

Aðrar útgáfur

  • SIS-C sem er staðlað mat á umfangi stuðningsþarfa barna

Síðast uppfært

  • 7/2024