Smábarnalistinn
Efnisorð
- Hreyfiþroski
- Málþroski
- Börn
Stutt lýsing
- Tegund: Mat mæðra barna að þriggja ára
- Fjöldi atriða: 144
- Metur: Hreyfi og málþroski barna á fimm sviðum sem mynda tvo prófþætti: Grófhreyfingar, Fínhreyfingar, Sjálfsbjörg mynda Hreyfiþátt, og Hlustun og Tal mynda Málþátt
- Svarkostir: Þriggja punkta raðkvarði með Nei (á aldrei við), Á stundum við og Já (á oft eða alltaf við)
- Heildarskor: Reikna má skor fyrir undirsviðin fimm sem svo er breytt í staðalskor (mælitölur) með M = 50 og SF = 10. Skor Hreyfiþáttar, Málþáttar og heildarskor alls listans má reikna með sama hætti, en þar er M = 100 og SF = 15
Íslensk þýðing
- Frumsaminn af Einari Guðmundssyni og Sigurði J. Grétarssyni (2005)
- Tekið var mið af útbreiddum og þekktum þroskaprófum við samningu staðhæfinga og skilgreiningu hinna fimm undirsviða
- Listinn var staðlaður í úrtaki rúmlega 1.100 íslenskra mæðra
Próffræðilegir eiginleikar
Áreiðanleiki: Innri áreiðanleiki undirsviða, hreyfiþáttar, málþáttar og heildarskors var kannaður m.t.t. kynja og aldurshópa.1 Alfastuðlar undirsviða voru yfirleitt yfir 0,80, og stuðlar þátta og heildarskors var í flestum tilvikum yfir 0,90 og lægstur 0,83.
Réttmæti: Í úrtaki 50 leikskólabarna á aldrinum 35 til 38 mánaða var samræmi í svörum mæðra og feðra kannað, einkum til að meta hvort réttlætanlegt væri að nota fyrirliggjandi norm fyrir feður þó þau byggðu á svörum mæðra.2 Fylgni svara var á bilinu r = 0,53 fyrir Fínhreyfingar og Hlustun til r = 0,64 fyrir Grófhreyfingar – í öllum tilvikum marktæk. Marktækur munur reyndist á meðalskorum mæðra og feðra á undirprófi Tals, og marktekt var næstum náð á Fínhreyfingum og heildarskori (p = 0,07). Almennt mátu mæður börn sín engra komin í þroska en feður, sem sagt var í samræmi við fyrri rannsóknir.
Í sama úrtaki var Smábarnalistinn borinn saman við átta undirpróf WPPSI-R-IS greindarprófsins og eitt undirpróf McCarthy þroskaprófsins (hreyfipróf).2 Undirsviðin Fínhreyfingar og Sjálfsbjörg höfðu fylgni við Litafleti WPPSI hjá mæðrum og feðrum, en ekki við önnur verkleg próf WPPSI. Fylgni Fínhreyfinga við Hlutaröðun og Myndleti var r = 0,28 og 0,23 hjá feðrum, ómarktæk. Sjálfsbjörg hafði neikvæða ómarktæka fylgni við Hlutaröðun og Myndfleti meðal feðra, sem kom á óvart.
Undirsvið Grófhreyfinga hafði ekki (marktæka) fylgni við hreyfipróf McCarthy, hvorki hjá mæðrum né feðrum.2 Þetta var sagt í samræmi við niðurstöður eldri rannsóknar Sólveigar Norðfjörð (2003). Undirsvið Fínhreyfinga hafði þó marktæka fylgni við hreyfiprófið meðal mæðra.
Málþáttur Smábarnalistans hafði marktæka fylgni við munnlega greindartölu WPPSI bæði hjá mæðrum og feðrum.2 Einnig kom fram fylgni meðal feðra milli málþáttar og Reikning, Líkinga og munnlegrar greindartölu á WPPSI.
Hreyfiþáttur hafði marktæka fylgni við Litafleti meðal mæðra og feðra, og við verklega greindartölu og hreyfipróf McCarthy meðal mæðra.2
Fyrir samantekt, sjá umræður í nemendaverkefni Silju Rutar.2
Heimildir
Upprunaleg heimild:
- 1. Einar Guðmundsson og Sigurður J. Grétarsson (2005). Smábarnalistinn. Handbók. Reykjavík: Námsmatsstofnun
Próffræðigreinar:
- Ekkert fannst, sjá þó nemendaverkefni að neðan
Dæmi um birtar greinar:
- Ekkert fannst
Nemendaverkefni:
- 2. Silja Rut Jónsdóttir. (2014). Réttmætisathugun á Smábarnalistanum með samanburði við WPPSI-R-IS [óútgefin cand. psych. ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/18506
Reglur um notkun
- Leyfisskyldur og höfundarréttarvarinn
- Notendur þurfa að sækja námskeið fyrir notkun listans
- Sjá heimasíðu hér
Aðrar útgáfur
- Íslenski þroskalistinn, fyrir börn þriggja til sex ára
Síðast uppfært
- 10/2024