Multidimensional Anxiety Scale for Children (MASC)

Efnisorð

  • Kvíði
  • Börn
  • Unglingar
  • Skimun

Stutt lýsing

  • Tegund: Sjálfmat – börn á aldrinum 9–18 ára. Athuga að foreldraútgáfa er einnig til erlendis
  • Fjöldi atriða: 39
  • Metur: Kvíðaeinkenni hjá börnum á fjórum sviðum – líkamleg einkenni (12 atriði á tveimur undirsviðum), forðun og flóttahegðun (9 atriði, 2 undirsvið), félagskvíði (9 atriði, 2 undirsvið) og aðskilnaðarkvíði / felmtur (9 atriði)
  • Svarkostir: Fjögurra punkta fullmerktur raðkvarði frá 0 (á aldrei við um mig) til 3 (á oft við um mig
  • Heildarskor: Samkvæmt upplýsingum útgefenda um 2.útgáfu MASC getur kvarðinn gefið 11 talnagildi: Heildarskor, þrjú skor fyrir líkamleg einkenni (2 undirsvið + heildarskor), þrjú fyrir félagskvíða (2 undirsvið + heildarskor), eitt fyrir forðun og flóttahegðun, eitt fyrir aðskilnaðarkvíða / fælni, eitt fyrir atriði sem veita vísbendingu um almenna kvíðaröskun, og eitt fyrir atriði sem veita vísbendingu um OCD. Skorum er í öllum tilvikum umbreytt í T-skor með M = 50 og SF = 10, en athuga að þar er byggt á erlendu stöðlunarúrtaki. Sjá nánar í tengli að ofan

Íslensk þýðing

  • Magnús Blöndahl Sighvatsson og Jakob Smári þýddu og staðfærðu á íslensku, löggildur skjalaþýðandi bakþýddi
  • Engar nánari upplýsingar fundust um þýðingarferli / hvernig staðið var að þýðingu

 

Próffræðilegir eiginleikar

Áreiðanleiki: Í úrtaki barna og ungmenna á aldrinum 10–15 ára reyndist innri áreiðanleiki heildarskors vera α = 0,89 (0,86–0,91 eftir kyni og aldri).1 Alfastuðull undirkvarða var á bilinu 0,61 fyrir aðskilnaðarkvíða í hópi eldri drengja til 0,84 fyrir félagskvíða stúlkna og yngri drengja. Í öðru almennu úrtaki 10–15 ára barna1 var innri áreiðanleiki heildarskors α = 0,91, en undirkvarða á bilinu 0,70 (forðun og flóttahegðun) til 0,89 (félagskvíði). Í klínísku úrtaki barna á BUGL (athuga n = 42) var α = 0,93 fyrir heildarskor, og áreiðanleiki undirkvarða á bilinu 0,60 (forðun og flóttahegðun) til 0,94 (félagskvíði).2 Í úrtaki 8–12 ára matvondra barna reyndist áreiðanleiki heildarskors α = 0,90 og undirkvarða á bilinu 0,54 (forðun og flóttahegðun) til 0,85 (ekki ljóst hvaða undirkvarði).6

Réttmæti: Staðfestandi þáttagreining með "parcel" aðferð (knippi skyldra atriða greind saman í stað stakra atriða) var framkvæmd í sama úrtaki 10–15 ára barna.1 Þriggja-þátta líkan þar sem undirkvarðarnir líkamleg einkenni og aðskilnaðarkvíði / felmtur voru felldir saman (sjá fræðileg rök í grein Ólasonar o.fl.) hafði ekki fullnægjandi mátgæði, né heldur líkan sem tilgreindi einn þátt. Mátgæði fjögurra-þátta líkans (þess upprunalega, sem samræmist sviðunum fjórum) voru marktækt betri, einnig þegar tekið var tillit til aldurs og kyns. Fylgni var könnuð milli heildarskora á MASC, Revised Children's Manifest Anxiety Scale (RCMAS) og Children's Depression Inventory (CDI) í öðru almennu úrtaki 10–15 ára barna.1 Líkt og búist var við reynist hún sterkari við RCMAS (r = 0,59) heldur en við CDI (r = 0,40), en fylgnistuðlar voru í báðum tilvikum hærri meðal stúlkna. Innbyrðis fylgni undirkvarða MASC var sömuleiðis í samræmi við upphaflega rannsókn höfunda þar sem undirkvarðinn forðun og flóttahegðun hafði ívið veikari tengsl við aðra undirþætti (r = 0,21–0,28 meðal drengja en 0,30–0,48 meðal stúlkna). Fyrir fylgni undirkvarða MASC og RCMAS, sjá grein Ólasonar o.fl.

Samanburður barna á BUGL (athuga n = 42) og barna í almennu þýði sýndi að hin fyrrnefndu skoruðu að jafnaði hærra á undikvarða líkamlegra einkenna en lægra á undirkvarða forðunar / flótta.2 Þetta gilti líka um samanburð þeirra innan úrtaksins sem greindir voru með kvíðaröskun og barna í almennu þýði. Innan úrtaksins skoruðu þeir sem greindir voru með kvíðaröskun aftur á móti að meðaltali hærra á forðun / flótta, auk heildarkvarða, félagskvíða og aðskilnaðarkvíða / felmtri, heldur en þeir í úrtakinu sem ekki höfðu slíka greiningu. Sjá fleiri dæmi í grein Skarphéðinssonar o.fl. Í sama úrtaki var skimunarhæfni MASC metin með kvíðagreiningar K-SADS-PL sem viðmið. Lítill eða enginn munur reyndist vera á skori einstaklinga með og án tiltekinna greininga, en þegar greiningar voru felldar saman reyndust þeir sem höfðu einhverja greiningu skora marktækt hærra en þeir sem höfðu enga slíka greiningu á öllum undirkvörðum nema þeim sem metur líkamleg einkenni. ROC greining sýndi að heildarskor MASC auðkenndi einstaklinga með einhverja kvíðagreiningu og með almenna kvíðaröskun (GAD) af mestri nákvæmni (AUC = 0,74 og 0,75). Undirkvarði líkamlegra einkenna spáði fyrir um GAD (AUC = 0,71), forðun / flótti um ótilgreinda kvíðaröskun (greiningar felldar saman - AUC = 0,80) og félagskvíði um hvort tveggja (AUC = 0,73 og 0,75). Aftur á móti reyndist undirkvarði félagskvíða ekki auðkenna einstaklinga með greinda félagsfælni og undirkvarði aðskilnaðarkvíða / felmturs auðkenndi ekki þá sem greindir voru með aðskilnaðarkvíðaröskun.

Skimunarhæfni MASC í stærra úrtaki barna og unglinga sem sóttu BUGL og Litlu Kvíðameðferðarstöðina var sömuleiðis metinn með ROC–greiningu í nemendaverkefni.3 Skimunarhæfni heildarkvarða gagnvart ótilgreindum kvíðaröskunum reyndist vera AUC = 0,75, samræmi milli bestu þröskuldsgilda skv. ROC og greiningarviðtals var í meðallagi (κ = 0,42–0,45). Öfugt við niðurstöður í grein Skarphéðinssonar o.fl reyndist greiningarhæfni undirkvarða félagskvíða gagnvart félagskvíðaröskun í nokkuð há, AUC = 0,82. Samræmi við greiningarviðtal var viðunandi / í meðallagi (κ = 0,34–0,53). Greiningarhæfni flótta / forðunar gagnvart almennri kvíðaröskun var minni, eða AUC = 0,64.

Fyrir þáttabyggingu MASC í hópi ungmenna – sjá nemendaverkefni Ragnheiðar Guðfinnu Guðnadóttur og Sveinbjörns Yngva Gestssonar.4
Fyrir fylgni MASC og Revised Children‘s Anxiety and Depression Scale (RCADS) – sjá nemendaverkefni Guðríðar Þóru Gísladóttur.5
Fyrir aðra samantekt um próffræðilega eiginleika – sjá nemendaverkefni Theodóru Þrastardóttur.

 

Heimildir

Upprunaleg heimild:

  • March, J. S., Parker, J. D., Sullivan, K., Stallings, P., & Conners, C. K. (1997). The Multidimensional Anxiety Scale for Children (MASC): factor structure, reliability, and validity. Journal of the American Academy of Child and Adolescent Psychiatry, 36(4), 554–565. https://doi.org/10.1097/00004583-199704000-00019

Próffræðigreinar:

  • 1. Olason, D. T., Sighvatsson, M. B., & Smári, J. (2004). Psychometric properties of the Multidimensional Anxiety Scale for Children (MASC) among Icelandic schoolchildren. Scandinavian Journal of Psychology, 45(5), 429–436. https://doi.org/10.1111/j.1467-9450.2004.00424.x
  • 2. Skarphedinsson, G., Villabø, M. A., & Lauth, B. (2015). Screening efficiency of the self-report version of the Multidimensional Anxiety Scale for Children in a highly comorbid inpatient sample. Nordic Journal of Psychiatry, 69(8), 613–620. https://doi.org/10.3109/08039488.2015.1026841

Dæmi um birtar greinar:

  • Mitchison, G. M., & Njardvik, U. (2019). Prevalence and gender differences of ODD, anxiety, and depression in a sample of children with ADHD. Journal of Attention Disorders, 23(11), 1339–1345. https://doi.org/10.1177/1087054715608442
  • 6. Thorsteinsdottir, S., Olafsdottir, A. S., Traustadottir, O. U., & Njardvik, U. (2023). Changes in anxiety following taste education intervention: Fussy eating children with and without neurodevelopmental disorders. Nutrients15(22), 4783. https://doi.org/10.3390/nu15224783

Nemendaverkefni:

  • 4. Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir & Sveinbjörn Yngvi Gestsson. (2011). Þáttabygging MASC og CDI í úrtaki 14 og 15 ára unglinga [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/7153
  • 5. Guðríður Þóra Gísladóttir. (2013). Tilfinningalistinn: Mat á próffræðilegum eiginleikum íslenskrar þýðingar Revised Children‘s Anxiety and Depression Scale (RCADS) [óútgefin cand.psych. ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/15304
  • 3. Bergþóra Þórsdóttir. (2022). Skimunarhæfni fjölþáttakvíðakvarða fyrir börn (Multidimensional Anxiety Scale for Children) í klínísku úrtaki [óútgefin MS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/41559

 

Reglur um notkun

  • Leyfisskylt og höfundarréttarvarið – sjá hér
  • Notkun krefst viðeigandi menntunar – sjá hér
  • Athuga að samkvæmt heimildum Próffræðistofu eru aðeins upprunaleg útgáfa MASC og sjálfsmatsútgáfa til á íslensku

Aðrar útgáfur

  • MASC 2
  • MASC-10

Síðast uppfært

  • 12/2023