Multidimensional Anxiety Scale for Children (MASC)
Efnisorð
- Kvíði
- Börn
- Unglingar
- Skimun
Stutt lýsing
- Tegund: Sjálfmat – börn á aldrinum 9–18 ára. Athuga að foreldraútgáfa er einnig til erlendis
- Fjöldi atriða: 39
- Metur: Kvíðaeinkenni hjá börnum á fjórum sviðum – líkamleg einkenni (12 atriði á tveimur undirsviðum), forðun og flóttahegðun (9 atriði, 2 undirsvið), félagskvíði (9 atriði, 2 undirsvið) og aðskilnaðarkvíði / felmtur (9 atriði)
- Svarkostir: Fjögurra punkta fullmerktur raðkvarði frá 0 (á aldrei við um mig) til 3 (á oft við um mig)
- Heildarskor: Samkvæmt upplýsingum útgefenda um 2.útgáfu MASC getur kvarðinn gefið 11 talnagildi: Heildarskor, þrjú skor fyrir líkamleg einkenni (2 undirsvið + heildarskor), þrjú fyrir félagskvíða (2 undirsvið + heildarskor), eitt fyrir forðun og flóttahegðun, eitt fyrir aðskilnaðarkvíða / fælni, eitt fyrir atriði sem veita vísbendingu um almenna kvíðaröskun, og eitt fyrir atriði sem veita vísbendingu um OCD. Skorum er í öllum tilvikum umbreytt í T-skor með M = 50 og SF = 10, en athuga að þar er byggt á erlendu stöðlunarúrtaki. Sjá nánar í tengli að ofan
Íslensk þýðing
- Magnús Blöndahl Sighvatsson og Jakob Smári þýddu og staðfærðu á íslensku, löggildur skjalaþýðandi bakþýddi
- Engar nánari upplýsingar fundust um þýðingarferli / hvernig staðið var að þýðingu
Próffræðilegir eiginleikar
Áreiðanleiki: Í úrtaki barna og ungmenna á aldrinum 10–15 ára reyndist innri áreiðanleiki heildarskors vera α = 0,89 (0,86–0,91 eftir kyni og aldri).1 Alfastuðull undirkvarða var á bilinu 0,61 fyrir aðskilnaðarkvíða í hópi eldri drengja til 0,84 fyrir félagskvíða stúlkna og yngri drengja. Í öðru almennu úrtaki 10–15 ára barna1 var innri áreiðanleiki heildarskors α = 0,91, en undirkvarða á bilinu 0,70 (forðun og flóttahegðun) til 0,89 (félagskvíði). Í klínísku úrtaki barna á BUGL (athuga n = 42) var α = 0,93 fyrir heildarskor, og áreiðanleiki undirkvarða á bilinu 0,60 (forðun og flóttahegðun) til 0,94 (félagskvíði).2 Í úrtaki 8–12 ára matvondra barna reyndist áreiðanleiki heildarskors α = 0,90 og undirkvarða á bilinu 0,54 (forðun og flóttahegðun) til 0,85 (ekki ljóst hvaða undirkvarði).6
Réttmæti: Staðfestandi þáttagreining með "parcel" aðferð (knippi skyldra atriða greind saman í stað stakra atriða) var framkvæmd í sama úrtaki 10–15 ára barna.1 Þriggja-þátta líkan þar sem undirkvarðarnir líkamleg einkenni og aðskilnaðarkvíði / felmtur voru felldir saman (sjá fræðileg rök í grein Ólasonar o.fl.) hafði ekki fullnægjandi mátgæði, né heldur líkan sem tilgreindi einn þátt. Mátgæði fjögurra-þátta líkans (þess upprunalega, sem samræmist sviðunum fjórum) voru marktækt betri, einnig þegar tekið var tillit til aldurs og kyns. Fylgni var könnuð milli heildarskora á MASC, Revised Children's Manifest Anxiety Scale (RCMAS) og Children's Depression Inventory (CDI) í öðru almennu úrtaki 10–15 ára barna.1 Líkt og búist var við reynist hún sterkari við RCMAS (r = 0,59) heldur en við CDI (r = 0,40), en fylgnistuðlar voru í báðum tilvikum hærri meðal stúlkna. Innbyrðis fylgni undirkvarða MASC var sömuleiðis í samræmi við upphaflega rannsókn höfunda þar sem undirkvarðinn forðun og flóttahegðun hafði ívið veikari tengsl við aðra undirþætti (r = 0,21–0,28 meðal drengja en 0,30–0,48 meðal stúlkna). Fyrir fylgni undirkvarða MASC og RCMAS, sjá grein Ólasonar o.fl.
Samanburður barna á BUGL (athuga n = 42) og barna í almennu þýði sýndi að hin fyrrnefndu skoruðu að jafnaði hærra á undikvarða líkamlegra einkenna en lægra á undirkvarða forðunar / flótta.2 Þetta gilti líka um samanburð þeirra innan úrtaksins sem greindir voru með kvíðaröskun og barna í almennu þýði. Innan úrtaksins skoruðu þeir sem greindir voru með kvíðaröskun aftur á móti að meðaltali hærra á forðun / flótta, auk heildarkvarða, félagskvíða og aðskilnaðarkvíða / felmtri, heldur en þeir í úrtakinu sem ekki höfðu slíka greiningu. Sjá fleiri dæmi í grein Skarphéðinssonar o.fl. Í sama úrtaki var skimunarhæfni MASC metin með kvíðagreiningar K-SADS-PL sem viðmið. Lítill eða enginn munur reyndist vera á skori einstaklinga með og án tiltekinna greininga, en þegar greiningar voru felldar saman reyndust þeir sem höfðu einhverja greiningu skora marktækt hærra en þeir sem höfðu enga slíka greiningu á öllum undirkvörðum nema þeim sem metur líkamleg einkenni. ROC greining sýndi að heildarskor MASC auðkenndi einstaklinga með einhverja kvíðagreiningu og með almenna kvíðaröskun (GAD) af mestri nákvæmni (AUC = 0,74 og 0,75). Undirkvarði líkamlegra einkenna spáði fyrir um GAD (AUC = 0,71), forðun / flótti um ótilgreinda kvíðaröskun (greiningar felldar saman - AUC = 0,80) og félagskvíði um hvort tveggja (AUC = 0,73 og 0,75). Aftur á móti reyndist undirkvarði félagskvíða ekki auðkenna einstaklinga með greinda félagsfælni og undirkvarði aðskilnaðarkvíða / felmturs auðkenndi ekki þá sem greindir voru með aðskilnaðarkvíðaröskun.
Skimunarhæfni MASC í stærra úrtaki barna og unglinga sem sóttu BUGL og Litlu Kvíðameðferðarstöðina var sömuleiðis metinn með ROC–greiningu í nemendaverkefni.3 Skimunarhæfni heildarkvarða gagnvart ótilgreindum kvíðaröskunum reyndist vera AUC = 0,75, samræmi milli bestu þröskuldsgilda skv. ROC og greiningarviðtals var í meðallagi (κ = 0,42–0,45). Öfugt við niðurstöður í grein Skarphéðinssonar o.fl reyndist greiningarhæfni undirkvarða félagskvíða gagnvart félagskvíðaröskun í nokkuð há, AUC = 0,82. Samræmi við greiningarviðtal var viðunandi / í meðallagi (κ = 0,34–0,53). Greiningarhæfni flótta / forðunar gagnvart almennri kvíðaröskun var minni, eða AUC = 0,64.
Fyrir þáttabyggingu MASC í hópi ungmenna – sjá nemendaverkefni Ragnheiðar Guðfinnu Guðnadóttur og Sveinbjörns Yngva Gestssonar.4
Fyrir fylgni MASC og Revised Children‘s Anxiety and Depression Scale (RCADS) – sjá nemendaverkefni Guðríðar Þóru Gísladóttur.5
Fyrir aðra samantekt um próffræðilega eiginleika – sjá nemendaverkefni Theodóru Þrastardóttur.
Heimildir
Upprunaleg heimild:
- March, J. S., Parker, J. D., Sullivan, K., Stallings, P., & Conners, C. K. (1997). The Multidimensional Anxiety Scale for Children (MASC): factor structure, reliability, and validity. Journal of the American Academy of Child and Adolescent Psychiatry, 36(4), 554–565. https://doi.org/10.1097/00004583-199704000-00019
Próffræðigreinar:
- 1. Olason, D. T., Sighvatsson, M. B., & Smári, J. (2004). Psychometric properties of the Multidimensional Anxiety Scale for Children (MASC) among Icelandic schoolchildren. Scandinavian Journal of Psychology, 45(5), 429–436. https://doi.org/10.1111/j.1467-9450.2004.00424.x
- 2. Skarphedinsson, G., Villabø, M. A., & Lauth, B. (2015). Screening efficiency of the self-report version of the Multidimensional Anxiety Scale for Children in a highly comorbid inpatient sample. Nordic Journal of Psychiatry, 69(8), 613–620. https://doi.org/10.3109/08039488.2015.1026841
Dæmi um birtar greinar:
- Mitchison, G. M., & Njardvik, U. (2019). Prevalence and gender differences of ODD, anxiety, and depression in a sample of children with ADHD. Journal of Attention Disorders, 23(11), 1339–1345. https://doi.org/10.1177/1087054715608442
- 6. Thorsteinsdottir, S., Olafsdottir, A. S., Traustadottir, O. U., & Njardvik, U. (2023). Changes in anxiety following taste education intervention: Fussy eating children with and without neurodevelopmental disorders. Nutrients, 15(22), 4783. https://doi.org/10.3390/nu15224783
- Gudmundsdottir, D. B., Brynjolfsdottir, B., Halldorsdottir, S. B., Halldórsdóttir, H. R., Thorsteinsdottir, S., & Valdimarsdottir, H. (2023). Psychometric evaluation of an Icelandic translation of the adolescent and parent report versions of the BATH pain questionnaires and investigation of the psychosocial impact of pain on adolescents with chronic disease. Scandinavian Journal of Psychology, 64(5), 609-617. https://doi.org/10.1111/sjop.12910
Nemendaverkefni:
- 4. Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir & Sveinbjörn Yngvi Gestsson. (2011). Þáttabygging MASC og CDI í úrtaki 14 og 15 ára unglinga [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/7153
- 5. Guðríður Þóra Gísladóttir. (2013). Tilfinningalistinn: Mat á próffræðilegum eiginleikum íslenskrar þýðingar Revised Children‘s Anxiety and Depression Scale (RCADS) [óútgefin cand.psych. ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/15304
- 3. Bergþóra Þórsdóttir. (2022). Skimunarhæfni fjölþáttakvíðakvarða fyrir börn (Multidimensional Anxiety Scale for Children) í klínísku úrtaki [óútgefin MS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/41559
Reglur um notkun
- Leyfisskylt og höfundarréttarvarið – sjá hér
- Notkun krefst viðeigandi menntunar – sjá hér
- Athuga að samkvæmt heimildum Próffræðistofu eru aðeins upprunaleg útgáfa MASC og sjálfsmatsútgáfa til á íslensku
Aðrar útgáfur
- MASC 2
- MASC-10
Síðast uppfært
- 9/2024