Mini Mental State Examination (MMSE)
Efnisorð
- Hugræn virkni
- Heilabilun
- Aldraðir
Stutt lýsing
- Tegund: Prófun framkvæmd á fullorðnum af fagaðila
- Fjöldi atriða: 11
- Metur: Hugræna getu á ólíkum sviðum, s.s. á sviði áttunar, athygli, minnis og rýmisskynjunar
- Svarkostir: Stigagjöf er 1 fyrir rétt svar / getur og 0 fyrir rangt svar / getur ekki
- Heildarskor: Heildarskor kvarðans í heild eru á bilinu 0–30 þar sem hærra skor vitnar um aukna hugræna færni. Fyrir umfjöllun um flokkun skora, sjá t.d. nemendaverkefni að neðan (undir heimildir)
Íslensk þýðing
- Kristinn Tómasson þýddi leiðbeiningarnar upphaflega. Sú útgáfa var síðar lagfærð af Jóni G. Snædal og fleirum eftir að í ljós kom að hún var erfiðari en upprunaleg útgáfa. Enn síðar voru leiðbeiningar betrumbættar af iðjuþjálfum á Landakoti undir stjórn Aðalheiðar Pálsdóttur
- ATH – íslensk útgáfa hefur ekki hlotið formlega viðurkenningu (eða athygli) rétthafa prófsins. Lagaleg staða hennar er óljós, en þegar þetta er ritað er gengið út frá því að útgáfunni sé heimilt að deila með rannsakendum endurgjaldslaust (sjá upplýsingar að neðan)
Próffræðilegir eiginleikar
Áreiðanleiki: Eiginleikar MMSE voru kannaðir í blönduðu úrtaki sjúklinga, heilbrigðra og aldraðra.1 Stöðugleiki undirkvarða var metinn í hópi aldraðra (1–2 vikur milli prófana) og sjúklinga á lyflækningadeild (um sólarhringur milli prófana) og reyndist á bilinu r = 0,44–0,82 í fyrri hópnum og r = 0,50–0,81 í þeim seinni (athuga þó að Pearson fylgnistuðull var notaður – hann gerir ráð fyrir samfelldum, normaldreifðum breytum, og ekki er ljóst hvort skor á undirkvörðum hafi þá eiginleika).
Í slembiúrtaki einstaklinga á aldrinum 65 til 88 ára sem búsettir voru heimavið mældist innri áreiðanleiki mjög lágur (α = 0,33), en athuga að stuðullinn kann að vera ómerkingarbær vegna þess að um ræðir margvítt fyrirbæri (hugræna getu á ólíkum sviðum sem þurfa ekki að fylgjast fyllilega að).2 Í hluta sama úrtaks reyndist endurprófunaráreiðanleiki ICC2,1 = 0,70 (staðalvilla = 1,64 stig). Hvoru tveggja var í samræmi við það sem sést hefur í rannsóknum erlendis.
Réttmæti: Samanburður á meðalskori aldraðra með og án heilaskemmda / heilarýrnunar leiddi í ljós marktækt hærra skor hinna síðarnefndu á undirkvörðunum áttun, minni og athygli.1 Áfengissjúklingar reyndust fá hærra skor á MMSE eftir meðferð heldur en fyrir, en jafnframt lægra skor en heilbrigðir einstaklingar. Í rannsókninni reyndist starfsfólk sammála því að hópur einstaklinga með meðalskor 9 stig væri sannarlega með skerðingu, en að hópur með meðalskor 24 væri óskertur. Athuga að norm hafa verið gerð fyrir endurbætta útgáfu listans sem gerð var af Hjartavernd, MMSE-HV4.
Fylgni skors á MMSE við önnur matstæki var könnuð í sama úrtaki 65 til 88 ára einstaklinga.2 Væg fylgni reyndist vera við skor á MFF-tíðni þátttöku (rrho = 0,34), sem er rökrétt þegar litið er til þess að sá hluti MFF matstækisins tilgreinir (tíðni) hegðunar sem reynir á vitræna færni, s.s. umsjón fjármála og rekstur heimilis. Minni fylgni var við MFF-athafnir og MFF-takmarkanir á þátttöku. Fylgni við TUG, MLA og A-Ö Jafnvægiskvarðann var hófleg, eða í kringum rrho +/- 0,30. Samanburður á skorum aldurshópa sýndi að einstaklingar 74 til 88 ára skoruðu marktækt lægra á MMSE heldur en einstaklinga 65 til 74 ára, þó munurinn hafi verið hóflegur (26,29 stig v/s 27,7 stig).
Heimildir
Upprunaleg heimild:
- Folstein, M. F., Folstein, S. E., & McHugh, P. R. (1975). "Mini-mental state". A practical method for grading the cognitive state of patients for the clinician. Journal of Psychiatric Research, 12(3), 189–198. https://doi.org/10.1016/0022-3956(75)90026-6
Próffræðigreinar:
- 1. Kristinn Tómasson. (1986). Athugun á glöpum hjá öldruðum og áfengissjúklingum með auðveldu stöðluðu prófi borin saman við mat starfsfólks. Læknablaðið, 72, 246-259.
- María K. Jónsdóttir, Pálmi V. Jónsson, Bylgja Valtýsdóttir, Vilmundur Guðnason & Lenore, J. Launer. (2009). Öldrunarrannsókn Hjartaverndar: Íslensk viðmið fyrir MMSE skimunarprófið. Veggspjald á vísindadegi Sálfræðingafélagsins Íslands, Reykjavík.
- 2. Bergljót Pétursdóttir, Elín Díanna Gunnarsdóttir og Sólveig Ása Árnadóttir. (2022). Próffræðilegir eiginleikar íslenskra þýðinga á alþjóðlegum mælitækjum fyrir eldra fólk sem býr heima. Tímarit hjúkrunafræðinga, 3(98), 86–93.
Dæmi um birtar greinar:
- Sigurðardóttir, A. K., Kristófersson, G. K., Gústafsdóttir, S. S., Sigurðsson, S. B., Árnadottir, S. A., Steingrímsson, J. A., & Gunnarsdóttir, E. D. (2019). Self-rated health and socio-economic status among older adults in Northern Iceland. International Journal of Circumpolar Health, 78(1), 1697476. https://doi.org/10.1080/22423982.2019.1697476
- Chang, M., Ramel, A., Jonsson, P. V., Thorsdottir, I., & Geirsdottir, O. G. (2020). The effect of cognitive function on mobility improvement among community-living older adults: A 12-week resistance exercise intervention study. Aging, Neuropsychology, and Cognition, 27(3), 385–396. https://doi.org/10.1080/13825585.2019.1623167
- Blöndal, B. S., Geirsdóttir, O. G., Halldórsson, T. I. , Beck, A. M., Jónsson, P. V., & Ramel, A. (2022). HOMEFOOD randomised trial – Six-month nutrition therapy improves quality of life, self-rated health, cognitive function, and depression in older adults after hospital discharge. Clinical Nutrition ESPEN, 48, 74–81. https://doi.org/10.1016/j.clnesp.2022.01.010
- Valsdóttir, V., Magnúsdóttir, B. B., Gylfason, H. F., Chang, M., Aspelund, T., Gudnason, V., Launer, L. J., & Jónsdóttir, M. K. (2023). Exposure factors associated with dementia among older adults in Iceland: the AGES-Reykjavik study. GeroScience, 1–13. https://doi.org/10.1007/s11357-023-00804-7
Nemendaverkefni:
- Sigrún Vilborg Heimisdóttir. (2009). Viðmið fyrir íslenska gerð Mattis heilabilunarkvarðans (MDRS-2) [óútgefin cand.psych. ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/2923
- Berglind Ólafsdóttir & Berglind Sölvadóttir. (2014). Forathugun á IQCODE: Skimunareiginleikar og fylgni við MMSE og taugasálfræðileg próf [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/18573
- Dagur Darri Sveinsson. (2021). Erfðir Alzheimer-sjúkdóms [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/39780
- Thelma Rán Gylfadóttir. (2021). The mini-mental status exam scores at the time of dementia diagnosis in an Icelandic memory clinic [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/39318
Reglur um notkun
- Ensk útgáfa prófsins er leyfisskyld, sjá hér á vefsíðu þeirra sem virðast vera útgefendur
- Samkvæmt heimildum Próffræðistofu hlaut íslensk útgáfa MMSE aldrei formlega viðurkenningu höfundarréttarhafa / útgefenda svo ekki er ljóst hvort leyfisskylda eigi við um hana. Þar til annað kemur í ljós er rannsakendum bent á að nálgast MMSE á íslensku hjá Minnismóttöku Landspítalans, sími 543-9900
- Fyrir forvitna, sjá umræðu hér um lagalegt réttmæti höfundarréttar MMSE og vendingar í sögu prófsins
Aðrar útgáfur
- MMSE-HV
Síðast uppfært
- 9/2024