HEXACO-60

Efnisorð

  • Persónuleiki

Stutt lýsing

  • Tegund: Sjálfsmat – fullorðnir
  • Fjöldi atriða: 60
  • Metur: Persónueinkennin úthverfa, samviskusemi, samvinnuþýði, tilfinningasemi, víðsýni og heiðarleiki / auðmýkt (sex yfirþættir, 24 undirþættir). Athuga að síðasti þátturinn (heiðarleiki / auðmýk) er meðal þess sem greinir HEXACO frá BFI. Viðmiðunartími er ótilgreindur
  • Svarkostir: Fimm punkta Likert kvarði frá 1 (mjög ósammála) til 5 (mjög sammála)
  • Heildarskor: Heildarskor eru reiknuð fyrir hvern þátt um sig með því að taka meðaltal þeirra atriða sem tilheyra þætti. Heildarskor liggja því í öllum tilvikum á bilinu 1–5 þar sem hærri skor vitna um ríkari persónueinkenni

Íslensk þýðing

  • Rakel Jónsdóttir Guðmann, Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, Freyr Halldórsson og Daníel Þór Ólason
  • Sjá lýsingu á þýðingarferli í verkefni Rakelar bls. 321

 

Próffræðilegir eiginleikar

Áreiðanleiki: Í almennum úrtökum hefur innri áreiðanleiki undirkvarða verið α = 0,81 / 0,82 fyrir úthverfu, 0,67 / 0,74 fyrir samviskusemi, 0,66 / 0,70 fyrir samvinnuþýði, 0,70 / 0,74 fyrir tilfinningasemi, 0,76 / 0,78 fyrir víðsýni og 0,70 / 0,73 fyrir heiðarleiki / auðmýkt.1,2  

Samhliða staðfestandi þáttagreiningu í annarri rannsókn voru omegastuðlar yfirþátta reiknaðir.5 Þeir reyndust vera á bilinu ω = 0,65 fyrir samvinnuþýði til ω = 0,80 fyrir úthverfu. 

Réttmæti: Í almennum úrtökum hafa meðaltöl og staðalfrávik yfirþátta reynst áþekk því sem sést hefur í enskum útgáfum, sjá verkefni Rakelar bls. 33 og töflur 1 og 3 í verkefni Tinnu bls.14 og 31. Innbyrðis fylgni yfirþátta hefur mælst undir r  = 0,30, í samræmi við erlendar viðmiðunarrannsóknir.1,2  

Tengsl undirþáttanna úthverfu og tilfinningasemi við tengdar hugsmíðar voru könnuð.Úthverfa hafði meðalsterka fylgni við LOT-R, PANAS-IS og SWLS í þá átt sem búist var við og að því er sagt er í samræmi við erlendar rannsóknir. Tilfinningasemi hafði veikari tengsl við sömu matstæki, sem sagt var í nokkru ósamræmi við erlendar rannsóknir (sjá fylgnistuðla bls.43). Athugun á tengslum heiðarleika / auðmýktar við kvarða sem meta Machiavellianisma (MACH-IV), efnishyggju (Materialistic Value Scale) og efnishyggju sem markmið (Aspirations Index) sýndi tengsl í þá átt sem búist var við og sem fyrri rannsóknir hafa sýnt (sjá fylgnistuðla á bls. 41).2 

Leitandi þáttagreining á atriðum yfirþátta í almennum úrtökum hefur sýnt fram á 37 og 34% skýringargildi sex-þátta lausnar.1,2 Einhver dæmi voru um lágar þáttahleðslur.1 Jafnframt sáust frávik frá væntri formgerð þáttanna heiðarleiki / auðmýkt og samviskusemi þar sem of mörg atriði hlóðu á hinn fyrri, of fá á þann seinni og þrjú dæmi voru um krosshleðslu.2 Samskonar greining á tengslum yfirþátta og undirþátta sýndi skýringargildi sex-þátta lausnar 53 og 52%, sjá hleðslur undirþátta bls. 41 í verkefni Rakelar og bls.39 í verkefni Tinnu.

Staðfestandi þáttagreining var framkvæmd í öðru almennu úrtaki úr Þjóðskrá, en niðurstöður þess nemendaverkefnis eru ekki aðgengilegar.3 Þó var talað um að athugunin hefði sýnt hærri fylgni yfirþátta heldur en búist var við og gefið vísbendingar um að þýðingu nokkurra atriða þyrfti að endurskoða. Þetta er í samræmi við niðurstöður ítarviðtala í öðru nemendaverkefni sem enn er ekki aðgengilegt.4

Önnur staðfestandi þáttagreining var framkvæmd samhliða ítarviðtölum annarri rannsókn.5 Hefðbundin sex-þátta lausn þar sem skoðuð voru tengsl undirþáttanna 24 við yfirþættina 6 sýndi ekki ásættanlegt mát þegar litið var til CFI og TLI (0,71; 0,70). Hleðslur undirþátta á yfirþætti voru þó almennt háar eða ásættanlegar, að undanskildri fyrirgefningu á samvinnuþýði. Heilt yfir voru 15 staðlaðar þáttahleðslur af 24 yfir 0,70. Samskonar greining var gerð á atriðunum 60. Næstum öll atriði höfðu staðlaðar þáttahleðslur yfir 0,40, en 30% yfir 0,70. Leitandi þáttagreining var framkvæmd til að leggja mat á mögulegar krosshleðslur undirþátta á yfirþætti. Engin slík fannst yfir 0,40. Mögulegar krosshleðslur atriða voru kannaðar með athugun á breytistuðlum í staðfestandi líkani (e. modification index). Rúm 20 möguleg tilvik voru auðkennd. 

Fylgni yfirþáttanna sex var sögð áþekk því sem sést hefur í fyrri rannsóknum – lág eða hverfandi. 

Fyrir umræðu um ítarviðtöl, sjá nánar í grein.5

 

Heimildir

Upprunaleg heimild:

  • Ashton, M. C., & Lee, K. (2009). The HEXACO-60: a short measure of the major dimensions of personality. Journal of Personality Assessment, 91(4), 340–345. https://doi.org/10.1080/00223890902935878

Próffræðigreinar:

  • 5. Evudottir, E. E., & Heimisson, G. T. (2024). Using Confirmatory Factor Analysis and Qualitative Methods to Translate, Adapt, and Revise Personality Inventories. Psychological Test Adaptation and Development. https://doi.org/10.1027/2698-1866/a000077 

Dæmi um birtar greinar:

  • Ekkert fannst

Nemendaverkefni:

  • 1. Rakel Jónsdóttir Guðmann. (2015). Próffræðilegir eiginleikar íslenskrar útgáfu HEXACO-60 persónuleikaprófsins [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/21535
  • 2. Tinna Hallsdóttir. (2016). Próffræðilegir eiginleikar persónuleikaprófsins HEXACO-60-IS fyrir eldri aldurshópa [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/24737
  • 3. Ester Ósk Pálsdóttir. (2018). Próffræðilegir eiginleikar og mátgæði íslensku útgáfu HEXACO-60 [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/30431 
  • 4. Ragnhildur Katla Jónsdóttir, Þula Sonja Davíðsdóttir, Sandra Ósk Jóhannsdóttir & Ásta Dagmar Melsted. (2023). Skilningur fólks á orðalagi spurninga í íslenskri þýðingu á HEXACO-60, Ítarviðtöl [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/43444 
  • Aðalheiður Magnúsdóttir. (2024). Psychometric properties of the Icelandic version of HEXACO-60: Cognitive interviews and confirmatory factor analysis [óútgefin MS ritgerð]. Skemman. https://hdl.handle.net/1946/47317 

 

Reglur um notkun

  • Höfundarréttarvarinn en í opnum aðgangi fyrir óhagnaðardrifnar rannsóknir – hér á vefsíðu höfunda má hlaða íslenskri þýðingu niður
  • ATH – höfundar óska þess að rannsakendur láti vita af fyrirhugaðri notkun, og taka fram að gagnasöfnun gegnum spurningakannanaforrit sé aðeins heimil að því gefnu að forritið sem notað er sé varið með lykilorði
  • Notkun matstækisins krefst ekki sértækrar menntunar / hæfni

Aðrar útgáfur

  • HEXACO-PI (eldri útgáfa, lengri)
  • HEXACO-PI-R (nýrri útgáfa, lengri)

Síðast uppfært

  • 8/2024