Emotion Regulation Checklist (ERC)

Efnisorð

  • Tilfinningastjórnun

Stutt lýsing

  • Tegund: Mat annarra – foreldri, kennari eða annar aðstandandi metur barn
  • Fjöldi atriða: 23 
  • Metur: Tilfinningastjórnun og tengda hegðun á tveimur sviðum tilfinningastjórnunar (8 atriði) og óstöðugleika / neikvæðni tilfinninga (15 atriði)
  • Svarkostir: Fjögurra punkta fullmerktur raðkvarði frá 1 (aldrei) til 4 (næstum alltaf)
  • Heildarskor: Heildarskor eru reiknuð á hvorum undirkvarða um sig og fást með samlagningu – fyrir tilfinningastjórnun eru þau á bilinu 8–32 þar sem hærra skor vitnar um aukna tilfinningastjórnun, fyrir óstöðugleika / neikvæði eru skor á bilinu 15–60 þar sem hærra skor vitnar um aukinn óstöðugleika í skapi / aukna tilhneigingu til neikvæðra tilfinninga

Íslensk þýðing

  • Guðlaug M. Mitchison
  • Matstækið var þýtt af Guðlaugu og bakþýddur af öðrum aðila – frekari upplýsingar eru ekki tiltækar

 

Próffræðilegir eiginleikar

Áreiðanleiki: Í úrtaki foreldra leikskólabarna á 6. ári var innri áreiðanleiki α = 0,70 fyrir tilfinningastjórnun (fylgni atriða við heildarskor á bilinu r = 0,25–0,57) og α = 0,89 fyrir óstöðugleika / neikvæðni tilfinninga (fylgni atriða við heildarskor á bilinu r = 0,38–0,72).1 Fylgni milli undirkvarðanna reyndist r = -0,22. 

Í úrtaki foreldra og kennara 5-6 ára barna reyndist innri áreiðanleiki α = 0,70 fyrir tilfinningastjórnun og α = 0,86 fyrir óstöðugleika / neikvæðni.Í blönduðu úrtaki mæðra og kennara barna á aldrinum 5-7 ára hafa fengist sömu niðurstöður.3

Réttmæti: Í sama úrtaki foreldra leikskólabarna benti leitandi þáttagreining (þ.e. skriðupróf) til tveggja til þriggja þátta.1 Tveggja þátta lausn (sú sem samræmist upprunalegri kenningu) hafði skýringargildi upp á rúm 38% með þátt óstöðugleika / neikvæðni tilfinninga ríkjandi, en lausnin var óskýr þar sem 10 atriði höfðu þáttahleðslur undir viðmiði rannsakenda (< 0,57 – sjá útskýringu í grein) og töldust þannig hvorki vega með afgerandi hætti á þátt tilfinningastjórnunar né óstöðugleika / neikvæðni. Aðeins eitt atriði hafði þáttaskýringu yfir h2 = 0,60. Á þátt tilfinningastjórnunar vógu tvö atriði sem samkvæmt kenningu eiga að vega á þátt óstöðugleika / neikvæðni, og á þann síðarnefnda vógu sömuleiðis tvö atriði sem fræðilega ættu að vega á þátt tilfinningastjórnunar – hvort tveggja vitnar um frávik íslenskrar þýðingar listans frá upprunalegri þáttabyggingu. ATH þó –höfundar benda á að sökum smæðar úrtaks (n = 79) beri að túlka niðurstöður með varkárkni.

 

Heimildir

Upprunaleg heimild:

  • Shields, A., & Cicchetti, D. (1997). Emotion regulation among school-age children: the development and validation of a new criterion Q-sort scale. Developmental Psychology, 33(6), 906–916. https://doi.org/10.1037//0012-1649.33.6.906

Próffræðigreinar:

  • Ekkert fannst – sjá þó nemendaverkefni að neðan

Dæmi um birtar greinar:

  • 2. Mitchison, G.M., Liber, J.M., Hannesdottir, D.K., & Njardvik, U. (2019). Emotion dysregulation, ODD and conduct problems in a sample of five and six-year-old children. Child Psychiatry & Human Development, 51, 71–79. https://doi.org/10.1007/s10578-019-00911-7
  • 3. Mitchison, G.M., Liber, J.M., & Njardvik, U. (2022). Parent and teacher ratings of ODD dimensions and emotion regulation: Informant discrepancies in a two-phase study. Journal of Child and Family Studies, 31, 496–506. https://doi.org/10.1007/s10826-021-02168-y

Nemendaverkefni:

  • 1. Anna Vala Hansen. (2015). Próffræðilegir eiginleikar íslenskrar útgáfu Emotion Regulation Checklist (ERC) [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/21702

 

Reglur um notkun

  • Leyfisskylt og höfundarréttarvarið – rannsakendum er bent á að hafa samband við höfund á cicchett@umn.edu
  • Ekki er ljóst hvort notkun krefst sérstakrar hæfni eða menntunar

Aðrar útgáfur

  • Ekkert fannst

Síðast uppfært

  • 9/2024