Clinical Outcomes in Routine Evaluation–Outcome Measure (CORE-OM)

Efnisorð

  • Klínísk útkoma

Stutt lýsing

  • Tegund: Sjálfsmat – fullorðnir
  • Fjöldi atriða: 34
  • Metur: Vellíðan (4 atriði), félagslega virkni (12), vandamál / einkenni (12) og hættu gagnvart sjálfum sér / öðrum (6) síðast liðna viku
  • Svarkostir: Fimm punkta fullmerktur raðkvarði frá 0 (alls ekki) til 4 (alltaf)
  • Heildarskor: Heildarstig og stig fyrir hvern þátt eru reiknuð með því að leggja skor á viðkomandi atriðum saman og deila með fjölda þeirra, þau eru því öll á bilinu 0–4. Hærri skor vitna í öllum tilvikum um lakari útkomu / aukinn vanda

Íslensk þýðing

  • Haukur Haraldsson, Agnes Agnarsdóttir og Hafrún Kristjánsdóttir
  • Engar upplýsingar fundust um þýðingarferli / hvernig staðið var að þýðingu

 

Próffræðilegir eiginleikar

Áreiðanleiki: Í úrtaki háskólanema hefur innri áreiðanleiki heildarskors mælst α = 0,95 en 0,94 í blönduðu klínísku úrtaki.1 Áreiðanleiki undirkvarða í sömu úrtökum var á bilinu α = 0,67–0,91 og 0,66–0,87, í báðum tilvikum lægstur fyrir undirkvarðann hætta gagnvart sjálfum sér / öðrum en hæstur fyrir undirkvarðann vandamál / einkenni. Endurprófunaráreiðanleiki í nemaúrtaki var rrho = 0,80 fyrir heildarskor en 0,48–0,77 fyrir undirkvarða, aftur lægstur fyrir undirkvarðann hætta gagnvart sjálfum sér / öðrum (nemar skoruðu langt flestir 0 á þeim undirkvarða á báðum tímapunktum – túlka ætti með varkárni) og hæstur fyrir vandamál / einkenni. Í samanburði við upprunalega útgáfu listans var endurprófunaráreiðanleiki sagður ívið lægri. 

Réttmæti: Í blönduðu klínísku úrtaki sýndi ROC greining á heildarskori á CORE-OM gagnvart MINI-greiningum AUC = 0,83 og 0,84 án atriða sem snúa að hættu gagnvart sjálfum sér / öðrum.1 Fylgni var reiknuð á milli BAI, BDI-II og skyldra vídda á CORE-OM. Fylgni vídda annarra en hættuvíddar við BDI-II var á bilinu 0,81–0,85 en 0,63–0,74 við BAI. Lagskipt aðhvarfsgreining sýndi þessu til stuðnings að skor á BDI-II skýrðu tæp 80% af breytileika í heildarskori CORE-OM. Skýringargildi heildarskors á BAI var hins vegar hverfandi. Meðaltöl og staðalfrávik á heildaskori og undirkvörðum voru í samræmi við væntingar hæst í þeim hluta klínísks úrtaks sem glímdi við mest veikindi (hlutu annarrar línu þjónustu). Tvíhliða dreifigreining sýndi jafnframt fram á marktækan mun á meðalskorum yfir meðferðartíma – sjá nánar í grein Hafrúnar o.fl.1

Heilt yfir voru próffræðilegir eiginleikar íslenskrar útgáfu metnir sambærilegir eiginleikum upprunalegrar útgáfu.

 

Heimildir

Upprunaleg heimild:

  • Evans, C., Mellor-Clark, J., Margison, F., Barkham, M., Audin, K., Connell, J., & McGrath, G. (2000). CORE: Clinical Outcomes in Routine Evaluation. Journal of Mental Health, 9(3), 247–255. https://doi.org/10.1080/713680250

Próffræðigreinar:

  • 1. Kristjánsdóttir, H., Sigurðsson, B. H., Salkovskis, P., Ólason, D., Sigurdsson, E., Evans, C., Gylfadóttir, E. D., & Sigurðsson, J. F. (2015). Evaluation of the psychometric properties of the Icelandic version of the Clinical Outcomes in Routine Evaluation-Outcome Measure, its transdiagnostic utility and cross-cultural validation. Clinical Psychology & Psychotherapy, 22(1), 64–74. https://doi.org/10.1002/cpp.1874

Dæmi um birtar greinar:

  • Héðinsson, H., Kristjánsdóttir, H., Ólason, D. Þ., & Sigurðsson, J. F. (2013). A validation and replication study of the patient-generated measure PSYCHLOPS on an Icelandic clinical population. European Journal of Psychological Assessment, 29(2), 89–95. https://doi.org/10.1027/1015-5759/a000136

Nemendaverkefni:

  • Bára Sif Ómarsdóttir. (2017). Adults referred to the ADHD clinic in Iceland : clinical characteristics [óútgefin MSc ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/28677
  • Unnur Samúelsdóttir. (2019). Efficacy of group psychoeducation for bipolar I patients : a pilot study [óútgefin MSc ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/32967

 

Reglur um notkun

Aðrar útgáfur

  • CORE-18A
  • CORE-18B
  • CORE-5
  • CORE-10

Síðast uppfært

  • 12/2023