Children's Depression Inventory (CDI)

Efnisorð

  • Þunglyndi
  • Börn

Stutt lýsing

  • Tegund: Sjálfsmat – börn 7 til 17 ára
  • Fjöldi atriða: 27
  • Metur: Einkenni þunglyndis meðal barna á fimm sviðum: Anhedonia (gleðileysi), skortur á hvatningu / erfiðleikar með að klára verkefni, vandamál með félagstengsl, slæmt skap (pirringur / reiði) og neikvæð sjálfsmynd. Miðað er við síðustu tvær vikur
  • Svarkostir: Þrír svarkostir, 0 (engin einkenni til staðar), 1 ([ekki vitað]) og 2 (skýr einkenni til staðar)
  • Heildarskor: Fæst með því að leggja saman stig allra atriðanna og liggur á bilinu 0–54 þar sem hærra skor vitnar um aukin þunglyndiseinkenni

Íslensk þýðing

  • Eiríkur Örn Arnarson o.fl.– nánar má lesa um þýðingarferlið í grein þeirra

 

Próffræðilegir eiginleikar

Áreiðanleiki: Í úrtaki 5.–6., 7. og 8.–9. bekkinga mældist α heildarskors 0,80 meðal drengja og 0,85 meðal stúlkna, en stuðullinn var lægstur 0,75 fyrir yngstu drengina og hæstur 0,88 fyrir stúlkur í 7.bekk.1 Fylgni atriða við heildarskor var á bilinu r = 0,16–0,48 meðal drengja og 0,22–0,52 meðal stúlkna – ekkert augljóst mynstur var í breytileika þessa eftir aldri nema fyrir atriði 25 (enginn elskar mig) sem hafði nánast enga fylgni við heildarskor í yngsta hópnum en meiri í þeim eldri. Í almennu úrtaki barna á aldrinum 10 til 15 ára hefur áreiðanleiki heildarskors mælst α = 0,84.2  Í úrtaki ungmenna með langvinna verki í nemendaverkefni hefur innri áreiðanleiki heildarskors mælst α = 0,89 (athuga þó n = 45).3  

Í nemendaverkefni Lindu og Guðrúnar4 hefur verið gerð samantekt á próffræðilegum eiginleikum CDI. Þar er innra samræmi heildartölu CDI (sem gengið er út frá að sé alfa stuðull heildarskors) sagt fremur hátt, bæði í almennum og klínískum úrtökum. Engar rannsóknir voru sagðar hafa fundist sem reiknuðu endurprófunaráreiðanleika.

Athuga að þar sem atriði listans hafa aðeins þrjá svarkosti er alfastuðullinn (sem gerir ráð fyrir samfelldum breytum) strangt til tekið ekki við hæfi. Vera má að áreiðanleiki CDI sé ívið hærri en fyrrnefndar niðurstöður benda til.  

Réttmæti: Meginhlutagreining í sama úrtaki 5.–6., 7. og 8.–9. bekkinga var framkvæmd, annars vegar með athugun á skriðuriti og hins vegar með því að þvinga fram fimm vídda lausn (þá sem samræmist kenningalegum bakgrunni).1 Skriðurit benti til tveggja vídda í yngsta hóp og miðjuhóp en þriggja í þeim elsta – fyrir úrtakið í heild sinni fengust líka þrír þættir. Fimm-vídda lausnir hópanna þriggja og úrtaksins í heild voru ekki í samræmi við það sem búist var við, hvorki með hornréttum né hornskökkum snúningi. Þriggja-vídda lausn fyrir heildarúrtak var trúverðugri, en höfundar vildu ekki draga ályktanir af því vegna ósamfellu í fyrri rannsóknum hvað formgerð CDI varðar. Vegna þessa mæltu höfundar gegn notkun summuskora annarra en heildarskors í íslenskri útgáfu.

Í nemendaverkefninu sem minnst er á að ofan4 var sagt að vísbendingar um samleitni CDI væru fyrir hendi, en að aðgreining væri síður afgerandi. Í innlagnarúrtaki barna á BUGL var forspárréttmæti CDI gagnvart þunglyndisgreiningu DSM-IV sagt hafa verið gott, en síður þegar miðað var við ICD-10. Tvær rannsóknir voru sagðar hafa kannað formgerð listans með leitandi þáttagreiningu (í báðum tilvikum fengust þrír þættir í stað fimm), en engin rannsókn fannst með staðfestandi þáttagreiningu.

 

Heimildir

Upprunaleg heimild:

  • Kovacs M. (1985). The Children's Depression, Inventory (CDI). Psychopharmacology Bulletin, 21(4), 995–998.
  • Kovacs M. (1992). The Children's Depression Inventory (CDI) Manual. North Tonawanda, NY: Multi-Health Systems, Inc.

Próffræðigreinar:

  • 1. Arnarson, E. Ö., Smári, J., Einarsdóttir, H., & Jónasdóttir, E. (1994). The prevalence of depressive symptoms in pre-adolescent school children in Iceland. Scandinavian Journal of Behaviour Therapy, 23(3-4), 121–130. https://doi.org/10.1080/16506079409455969

Dæmi um birtar greinar:

  • 2. Olason, D. T., Sighvatsson, M. B., & Smári, J. (2004). Psychometric properties of the Multidimensional Anxiety Scale for Children (MASC) among Icelandic schoolchildren. Scandinavian Journal of Psychology, 45(5), 429–436. https://doi.org/10.1111/j.1467-9450.2004.00424.x
  • Gunnarsdottir, T., Njardvik, U., Olafsdottir, A. S., Craighead, L., & Bjarnason, R. (2012). Childhood obesity and co-morbid problems: effects of Epstein's family-based behavioural treatment in an Icelandic sample. Journal of Evaluation in Clinical Practice, 18(2), 465–472. https://doi.org/10.1111/j.1365-2753.2010.01603.x
  • Gudmundsdottir, D. B., Brynjolfsdottir, B., Halldorsdottir, S. B., Halldórsdóttir, H. R., Thorsteinsdottir, S., & Valdimarsdottir, H. (2023). Psychometric evaluation of an Icelandic translation of the adolescent and parent report versions of the BATH pain questionnaires and investigation of the psychosocial impact of pain on adolescents with chronic disease. Scandinavian Journal of Psychology. https://doi.org/10.1111/sjop.12910

Nemendaverkefni:

  • 3. Silja Björg Halldórsdóttir. (2016). The Icelandic translation of the Bath Adolescent Pain Questionnaires (BAPQ and BAPQ-P): Preliminary psychometric properties of multidimensional measures for adolescents with chronic pain and their parents to assess the impact of chronic pain on the adolescents [óútgefin MSc ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/25733
  • 4. Linda Rut Jónsdóttir & Guðrún Margrét Jóhannesdóttir. (2020). Þunglyndiskvarði fyrir börn (Children's Depression Inventory): Kerfisbundið yfirlit á próffræðilegum eiginleikum íslenskrar útgáfu [óútgefin BS ritgerð]. Skemman.  http://hdl.handle.net/1946/35997

 

Reglur um notkun

  • Leyfisskylt – sjá hér upplýsingar útgefenda um nýrri 28 atriða útgáfu 
  • Sjá einnig upplýsingabækling hér 
  • Athuga að gengið er út frá því að sá / sú sem notar listann hafi viðeigandi bakgrunn / menntun, sjá hér

Aðrar útgáfur

  • CDI-2
  • CDI-2 Short
  • CDI-2 Teacher
  • CDI-2 Parent

Síðast uppfært

  • 7/2023