Beck Anxiety Inventory (BAI)

Efnisorð

  • Kvíði

Stutt lýsing

  • Tegund: Sjálfsmat – fullorðnir frá 17 ára. Má einnig leggja fyrir á viðtalsformi
  • Fjöldi atriða: 21
  • Metur: Einkenni kvíða síðustu viku, að miklu leyti líkamleg
  • Svarkostir: Fullmerktur raðkvarði frá 0 (alls ekki) til 3 (mjög mikið)
  • Heildarskor: Fæst með því að leggja saman stig allra atriðanna og liggur á bilinu 0–63 þar sem hærra skor vitnar um alvarlegri kvíðaeinkenni. Skor hafa verið flokkuð með eftirfarandi hætti: 0–9 = eðlilegur eða enginn kvíði, 10–18 = vægur / miðlungs, 19–29 = miðlungs / alvarlegur og 30–63 = alvarlegur

Íslensk þýðing

  • Eiríkur Örn Arnarson þýddi BAI fyrstur á íslensku árið 1989. Önnur útgáfa og nýrri var í höndum Jóns Friðriks Sigurðssonar og Gísla Guðjónssonar
  • Engar nánari upplýsingar fundust um þýðingarferli / hvernig staðið var að þýðingu

 

Próffræðilegir eiginleikar

Áreiðanleiki: Áreiðanleiki í úrtaki kvenkyns háskólanema hefur mælst α = 0,89.Í nemendaverkefni var fylgni atriða við heildarskor í úrtaki nema á bilinu r = 0,58–0,80 en á bilinu 0,39–0,68 í blönduðu úrtaki sjúklinga (einkum kvíða- og lyndisraskanir).2 α mældist 0,96 og endurprófunaráreiðanleiki r = 0,81 í úrtaki nema, en í úrtaki sjúklinga var α = 0,92. Vísbendingar voru um lítillega lægri áreiðanleika meðal kvenna en karla.

Réttmæti: Í sama úrtaki nema mældist fylgni við kvíðahluta DASS r = 0,69 en 0,39 við BDI-II.2 Fylgni við kvíða og þunglyndishluta Cognition Checklist var þó jöfn.

Leitandi þáttagreining meðal nema gaf til kynna tvo þætti þar sem annar var þó mjög ráðandi (skýringarhlutfall = 57%).2 Umtalsverð krosshleðsla kom fram í fimm atriðum, þar af var eitt atriði sem hafði lága þáttahleðslu á báða þætti (meltingartruflanir eða óþægindi í maga). Svipaðar niðurstöður fengust í úrtaki sjúklinga nema þar voru vísbendingar um þriðja þátt og skýringargildi ríkjandi þáttar var lakara (40%). Krosshleðsla kom fram í einu atriði (mikill eða hraður hjartsláttur).

Staðfestandi þáttagreining var framkvæmd í úrtaki nema til þess að kanna mátgæði fjögurra þekktra formgerða sem lagðar höfðu verið til í eldri rannsóknum.2 Fjögurra þátta líkan (hugræn einkenni, taugafræðileg einkenni, sjálfvirk einkenni og einkenni felmturs) gaf bestar tölulegar niðurstöður hvað varðar mátgæði (CFI, RMSEA, AIC), og svipuð niðurstaða fékkst í úrtaki sjúklinga með því að leyfa fylgni milli valinna atriða (köfnunartilfinning og erfiðleikar við að anda annars vegar, titringur í höndum og skjálfti hins vegar). Heilt yfir kom þáttagreining verr út meðal sjúklinga.

Munur á meðalskorum sjúklinga með og án kvíðagreiningar var kannaður.2 Sjúklingar greindir með kvíða samkvæmt MINI reyndust hafa marktækt hærra meðalskor á BAI, einnig þegar leiðrétt var fyrir skorum á BDI-II (19,61 v/s 11,71). Munur var einnig kannaður eftir tegund kvíðagreiningar. Mestur reyndist munurinn vera á þeim sem greindir voru með felmtursröskun með víðáttufælni og þeirra sem ekki höfðu kvíðagreiningu (29,50 v/s 18,33) – hinir fyrrnefndu skoruðu að meðaltali hæst allra á BAI. Þessi munur hélst einnig marktækur þegar leiðrétt var fyrir skorum á BDI-II.

Athugun á næmni í úrtaki sjúklinga benti til þess að BAI greindi þolanlega vel þá sem hlotið höfðu kvíðagreiningu með MINI frá þeim sem ekki höfðu slíka greiningu (AUC = 0,70).2 Bestar niðurstöður fengust fyrir þröskuldsskor upp á 11,8 stig, næmi = 0,71 og sértæki = 0,62. 

 

Heimildir

Upprunaleg heimild:

  • Beck, A. T., Epstein, N., Brown, G., & Steer, R. A. (1988). An inventory for measuring clinical anxiety: Psychometric properties. Journal of Consulting and Clinical Psychology, 56(6), 893–897. https://doi.org/10.1037//0022-006x.56.6.893

Próffræðigreinar:

  • Ekkert fannst - sjá þó nemendaverkefni að neðan

Dæmi um birtar greinar:

  • Leósdóttir, M., Sigurðsson, E., Reimarsdóttir, G., Gottskálksson, G., Torfason, B., Vigfusdottir, M., Eggertsson, S., & Arnar, D. O. (2006). Health-related quality of life of patients with implantable cardioverter defibrillators compared with that of pacemaker recipients. Europace, 8(3), 168–174. https://doi.org/10.1093/europace/euj052
  • 1. Bernhardsdottir, J., Vilhjalmsson, R., & Champion, J. D. (2013). Evaluation of a brief cognitive behavioral group therapy for psychological distress among female Icelandic University students. Issues in Mental Health Nursing, 34(7), 497–504. https://doi.org/10.3109/01612840.2013.773473
  • Guðmundsdóttir, H. B., Ólason, D. P., Guðmundsdóttir, D. G., & Sigurðsson, J. F. (2014). A psychometric evaluation of the Icelandic version of the WHO-5. Scandinavian Journal of Psychology, 55, 567–572. https://doi.org/10.1111/sjop.12156
  • Kristjánsdóttir, H., Sigurðsson, B. H., Salkovskis, P., Ólason, D., Sigurdsson, E., Evans, C., Gylfadóttir, E. D., & Sigurðsson, J. F. (2015). Evaluation of the psychometric properties of the Icelandic version of the Clinical Outcomes in Routine Evaluation–Outcome Measure, its transdiagnostic utility and cross‐cultural validation. Clinical Psychology & Psychotherapy, 22(1), 64–74. https://doi.org/10.1002/cpp.1874

Nemendaverkefni:

  • 2. Bragi Reynir Sæmundsson. (2009). Próffræðilegir eiginleikar íslenskrar þýðingar Becks Anxiety Inventory [óútgefin MA ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/4134
  • Kristín Lilja Jónsdóttir & Sólrún Alda Waldorff. (2021). Hugrænir næmisþættir fyrir þunglyndi: Tengsl þunglyndisþanka og vanabundna eiginleika neikvæðra hugsana við þunglyndiseinkenni yfir tíma í hópi fólks með endurtekið þunglyndi [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/3841
  • Þórdís Eva Þórsdóttir. (2023). Streita og kvíði hjá barnshafandi konum á tímum Covid-19 [óútgefin BA ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/44355

 

Reglur um notkun

  • Leyfisskylt – sjá nánar hér
  • Athuga að gengið er út frá því að sá / sú sem notar listann hafi viðeigandi bakgrunn / menntun, sjá hér. Athuga einnig að fyrirlögn á viðtalsformi krefst þjálfunar

Aðrar útgáfur

  • Ekkert fannst

Síðast uppfært

  • 7/2023