Autism Spectrum Screening Questionnaire (ASSQ)

Efnisorð

  • Börn
  • Einhverfa
  • Skimun

Stutt lýsing

  • Tegund: Mat foreldra eða kennara barna á aldrinum 6 til 16 ára
  • Fjöldi atriða: 27
  • Metur: Skimun einkenna einhverfu. Atriði taka m.a. til félagslegs samspils (11 atriði), samskipta (6), stegldrar / áráttukenndrar hegðunar (5) og annarra fylgieinkenni eins og hreyfi-og hljóðkippa (5). Listinn var upprunalega ætlaður fyrir skimun við Asperger en hefur síðar verið notaður við almenna skimun einhverfueinkenna
  • Svarkostir: Þriggja punkta raðkvarði þar sem 0 = á ekki við, 1 = á stundum við og 2 = á mjög vel við
  • Heildarskor: Heildarskor eru á bilinu 0–54 þar sem hærra skor vitnar um sterkari einkenni einhverfu. Í klínískum leiðbeiningum RGR um verklag við greiningu einhverfu segir: Fari stigafjöldi hvers svaranda um og yfir 20 er mögulega um vanda á einhverfurófi að ræða og ef til vill ástæða til að meta nánar. Nánari upplýsingar um möguleg þröskuldsgildi við skimun má einnig finna í umfjöllun Guðmundur Ágústs Skarphéðinssonar (2008)

Íslensk þýðing

  • Íslensk staðfæring var gerð af Kolbrúnu Gunnarsdóttur, Kristínu Kristmundsdóttur, Páli Ásgeirssyni, Páli Magnússyni og Sigríði Lóu Jónsdóttur
  • Engar frekari upplýsingar fundust

 

Próffræðilegir eiginleikar

Áreiðanleiki: Í úrtaki barna sem greinir frá að neðan var áreiðanleiki reiknaður fyrir þætti sem spruttu út úr þáttagreiningu.4  Meðal foreldra var niðurstaðan þessi: Félagslegir erfiðleikar hafði α = 0,82, Einhverfulík hegðun hafði α = 0,81 og Árátta-þráhyggja/Tourette hafði α = 0,78. Meðal kennara var niðurstaðan þessi: Félagslegir erfiðleikar hafði α = 0,86, Einhverfulík hegðun hafði α = 0,81 og Árátta-þráhyggja/Tourette hafði α = 0,85. Samræmi mats foreldra og kennara var metið með því að reikna fylgni á milli stigagjafar hópanna. Fylgnin reyndist hófleg, eða r = 0,47. 

Í öðru úrtaki barna á aldrinum 6 til 13 ára var innri áreiðanleiki meðal foreldra metinn fyrir þætti með sama hætti.5 Félagslegir erfiðleikar hafði α = 0,94, Einhverfulík hegðun hafði α = 0,84 og undirkvarði sem nefndur var Prófessor (sjá umfjöllun undir Réttmæti) hafði α = 0,73.

Réttmæti: Þáttabygging ASSQ var upphaflega könnuð af þeim Guðmundi B. Arnkelssyni og Páli Magnússyni í úrtaki rúmlega 100 barna með frávik á sviði náms, máls, hegðunar eða félagslegra tengsla.1 Þar bentu skriðupróf og samhliðagreining til fimm þátta: Prófessor (3 atriði, hleðslur á bilinu 0,71 til 0,88), Félagshæfni (7 atriði, hleðslur á bilinu 0,40 til 0,60), Kippir (7 atriði, hleðslur á bilinu 0,47 til 0,73), Félagslegt innsæi (5 atriði, hleðslur 0,43 til 0,70) og Áráttukennd hegðun (6 atriði, hleðslur). Þrjú tilvik voru um krosshleðslu atriða en þáttalausn að öðru leyti talin skýr.

Í samanburði á skorum kvarða í heild og undirkvarða barnanna sem greinir frá að ofan1, sex barna með einhverfu og sjö barna með Asperger heilkenni kom í ljós að börn með einhverfu skoruðu marktækt hærra en börnin með frávik á sviði náms, máls, hegðunar eða félagslegra tengsla og börnin sem greind voru með Asperger á kvarða í heild og fjórum undirkvörðum af fimm.2 Að sama skapi kom í ljós að börn með Asperger skoðuðu hærra á undirkvarðanum Prófessor heldur en börn með almenn einhverfu, sem er í samræmi við það sem búast má við.

Í annarri rannsókn var listinn lagður fyrir börn með einhverfu, börn með ódæmigerða einhverfu samkvæmt DSM-IV, börn með Asperger heilkenni, börn með ADHD og börn með kvíða- eða þunglyndisröskun.3 Listinn greindi ekki á milli barna með ADHD og barna með röskun á einhverfurófi.

Þáttabygging hefur líka verið könnuð í nemendaverkefnum. Í úrtaki barna á aldrinum 4 til 17 ára sem komu til göngudeildar Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans var framkvæmd meginásagreining (principal axis factoring) með hornskökkum snúningi.4  Meðal foreldra benti skriðupróf til 5 þátta, samhliðagreining 3 eða 4. Þriggja þátta lausn (Félagslegir erfiðleikar, Einhverfulík hegðun og Árátta-þráhyggja/Tourette) þótti skýrust með skýringargildi tæplega 42%. Þáttahleðslur þess sem kallað var Félagslegir erfiðleikar voru á bilinu 0,31 til 0,75; Einhverfulík hegðun á bilinu 0,31 til 0,85; Árátta-þráhyggja/Tourette á bilinu 0,36 til 0,88. A.m.k. tvö tilvik voru um krosshleðslu (atriði 5 og 10) og 3 atriði hlóðu ekki á neinn þátt með sérlega afgerandi hætti (atriði 14, 20 og 27). Skýrð dreifing atriða var frá því að vera mjög lág (atriði 10, 10%) upp í fremur há (atriði 21, 61%). Innbyrðis fylgni þátta reyndist vera a bilinu 0,45 til 0,54. Athuga að höfundur talar um að 4 þátta lausn hafi einnig verið möguleg. Meðal kennara benti skriðupróf benti til 7 þátta, samhliðagreining 4 eða 5. Hins vegar var ákveðið að draga 3 þætti, líkt og í foreldraútgáfu en með ívið hærra skýringargildi upp á tæplega 47%. Þáttahleðslur í þættinum Félagslegir erfiðleikar voru á bilinu 0,42 til 0,83; Einhverfulík hegðun á bilinu 0,33 til 0,68; Árátta-þráhyggja/Tourette á bilinu 0,30 til 0,90.  A.m.k. tvö tilvik voru um krosshleðslu (atriði 8 og 24) og 3 atriði hlóðu ekki á neinn þátt með sérlega afgerandi hætti (atriði 23 og 25).  Skýrð dreifing atriða var frá því að vera mjög lág (atriði 25, 13%) upp í nokkuð há (atriði 26, 64%). Innbyrðis fylgni þátta reyndist vera á bilinu 0,40 til 0,58. Athuga að höfundur talar um að 4 þátta lausn hafi ekki verið síður skynsamleg en 3 þátta hafi verið valin til samræmis við foreldraútgáfu. Fylgni þátta við undirkvarða SDQ var könnuð.Skor á Félagslegir erfiðleikar höfðu hæsta fylgni við Samskiptavanda á SDQ, r = 0,67 meðal foreldra og 0,60 meðal kennara. Einhverfulík hegðun og Árátta-þráhyggja/Tourette höfðu líka hæsta fylgni við Samskiptavanda, r = 0,36 og 0,39 annars vegar og r = 0,35 og 0,32 hins vegar. 

Þáttabygging var könnuð í öðru nemendaverkefni í úrtaki barna á ívið þrengra aldursbili, eða 6 til 13 ára (börn með ADHD greiningu, klínískur hópur barna með greiningar frá BUGL og/eða Þroska- og Hegðunarstöðinni aðrar en ADHD og börn í samanburðarhópi).5 Líkt og í nemendaverkefni sem greinir frá að ofan var notast við meginásagreiningu – athuga að talað er um að snúningur hafi verið hornréttur en síðan greint frá fylgni milli þátta svo ekki er ljóst hvort snúningur hafi í raun verið hornréttur. Meðal foreldra benti skriðupróf benti til 4 þátta með skýringargildi upp á 53% en þar sem fjórði þátturinn var mjög veikur var þriggja þátta lausn einnig prófuð. Hún hafði tæplega 50% skýringargildi (með þættina Félagslegir erfiðleikar, Einhverfulík hegðun og Prófessor, síðastnefndi hliðstæður þeim sem sást hjá Guðmundi og Páli). Atriðaskipan var töluvert frábrugðin því sem greinir frá í fyrra nemendaverkefni – t.d. hlóðu öll 4 atriði þess þáttar sem nefndur er Prófessor á þátt Einhverfulíkrar hegðunar í fyrra verkefni. Fyrir samanburð, sjá töflu 3 bls.27 í verkefni Katrínar og töflu 7 bls. 42 í verkefni Guðríðar og Vöku.  

 

Heimildir

Upprunaleg heimild:

  • Ehlers, S., Gillberg, C., & Wing, L. (1999). A screening questionnaire for Asperger syndrome and other high-functioning autism spectrum disorders in school age children. Journal of Autism and Developmental Disorders, 29(2), 129–141. https://doi.org/10.1023/A:1023040610384
  • Kopp, S. og Gillberg, C. (2011). The Autism Screening Questionnaire (ASSQ)-Revised Extended Version (ASSQ-REV): An instrument for better capturing autism phenotype in girls? A preliminary study involving 191 clinical cases and community controls. Research in Developmental Disabilities, 32, 2875-2888. http://doi: 10.1016/j.ridd.2011.05.017

Próffræðigreinar:

  • 1. Guðmundur B. Arnkelsson og Páll Magnússon. (Febrúar, 2003). Autism Spectrum Screening Questionnaire: Validity and factor structure [Veggspjaldakynning]. Rannsóknir í félagsvísindum IV, Reykjavík, Ísland.
  • 2. Urður Njarðvík, Guðmundur B. Arnkelsson og Páll Magnússon. (e.d.). ADHD and PDD: Distinct but related diagnostic categories? [Óútgefin efni]. 
  • 3. Páll Magnússon og Guðmundur Arnkelsson. (e.d.). Autism Spectrum Screening Questionnaire: Validity and factor structure. [Óútgefin efni]. 

Dæmi um birtar greinar:

  • Georgsdottir, I., Haraldsson, A., & Dagbjartsson, A. (2013). Behavior and well-being of extremely low birth weight teenagers in Iceland. Early human development, 89(12), 999-1003.
    https://doi.org/10.1016/j.earlhumdev.2013.08.018
  • Lorange, M., Kristmundsdóttir, K., Skarphédinsson, G., Hermannsdóttir, B. S., Oddsdóttir, L. B., & Sigurdardóttir, D. B. (2012). Relationship between pre-adoptive risk factors and psychopathological difficulties of internationally adopted children in Iceland. Laeknabladid, 98(1), 19-23. 
    https://doi.org/10.17992/lbl.2012.01.408
  • Ragnarsdottir, B., Hannesdottir, D. K., Halldorsson, F., & Njardvik, U. (2018). Gender and age differences in social skills among children with ADHD: peer problems and prosocial behavior. Child & Family Behavior Therapy, 40(4), 263-278. https://doi.org/10.1080/07317107.2018.1522152

Nemendaverkefni:

  • 4. Katrín Björk Bjarnadóttir & Linda Huld Loftsdóttir. (2009). Þáttagreining Skimunarlista einhverfurófs: Klínískt úrtak [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/4948
  • 5. Guðríður Þóra Gísladóttir & Vaka Ágústsdóttir. (2010). Þáttagreining Skimunarlista einhverfurófs og samanburður við Ofvirknikvarðann [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/4948

 

Reglur um notkun

  • Ekki ljóst

Aðrar útgáfur

  • ASSQ-REV

Síðast uppfært

  • 9/2023