
Í upphaf árs var tilkynnt um veglegan styrk úr sjóðnum Samstarf háskóla til að efla færni- og hermikennslu í heilbrigðisvísindum, m.a. til að fjölga nemendum í klínísku námi í heilbrigðisvísindum hér á landi. Styrkfjárhæðin nam 165 milljónum kr. en við styrk úthlutunina var greint frá sambærilegu framlagi frá heilbrigðisráðuneytinu sem undirstrikar mikilvægi þessa verkefnis. Verkefnið hefur því úr 330 milljónum kr. að spila og er veitt til Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri, Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri.
Samningur um uppbyggingu færni- og hermikennslu í heilbrigðisvísindum var undirritaður um miðjan júní af ráðherrum háskóla og heilbrigðismála og forsvarsmönnum háskóla og heilbrigðisstofnana sem standa að verkefninu. Skömmu síðar hófust framkvæmdir í húsnæði Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar Háskóla Íslands í Eirbergi til að stækka færni og hermisetið sem þar er. Þar stýrir málum Þorsteinn Jónsson hjúkrunarfræðingur og aðjunkt við deildina en hann er líklega sá einstaklingur hér á landi sem hefur mesta reynslu af hermikennslu og uppbyggingu á færni- og hermisetrum. Í aðdraganda framkvæmdanna í Eirbergi hefur Þorsteinn ferðast víða til að sjá hvað fremstu háskólar á sviði heilbrigðisvísinda eru að gera á þessu sviði.