Header Paragraph

Yfir 400 þreyta inntökupróf við Læknadeild og Tannlæknadeild

Image
Yfir 400 þreyta inntökupróf við Læknadeild og Tannlæknadeild

Ríflega 400 manns hafa skráð sig í inntökupróf í læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði við Háskóla Íslands sem fara fram dagana 6. og 7. júní næstkomandi. Nemendum sem teknir verða inn í læknisfræði fjölgar um 15 milli ára.

Inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði hafa verið haldin um langt árabil og frá því á síðasta ári hafa umsækjendur um nám í tannlæknisfræði þreytt sama próf. Að þessu sinni hafa 274 skráð sig til prófs með inntöku í læknisfræði í huga og 89 í sjúkraþjálfun. Enn fremur þreyta 53 inntökuprófið með það fyrir augum að hefja nám í tannlæknisfræði. Samanlagður fjöldi í inntökuprófinu er því 416. Til samanburðar voru 343 skráð í prófið í fyrra og fjölgun þátttakenda milli ára nemur því rúmlega 20 prósentum.

Líkt og undanfarin ár miðast fjöldi þeirra sem fá inngöngu í námsleiðirnar við afkastagetu bæði deilda og sjúkrahúsa við þjálfun nemenda. Samkvæmt samkomulagi sem gert var við stjórnvöld í fyrra um fjölgun heilbrigðismenntaðra og bætt aðgengi að heilbrigðisþjónstu verður þeim sem tekin eru inn í læknisfræði fjölgað í tveimur skrefum á næstu árum. Fyrra skrefið verður stigið í ár og í stað 60 nema verða nú 75 teknir inn í læknanám. Í sjúkraþjálfunarfræði verða 35 nemendur teknir inn og þá verður allt að 40 nemendum boðið að hefja nám í tannlæknisfræði í haust. Í desember fara svo fram samkeppnispróf í tannlæknisfræði eins og lengi hefur tíðkast og átta nemendum verður boðið að halda áfram námi á vorönn 2025.

Inntökuprófið fer fram í nokkrum byggingum Háskólans og þreyta allir þátttakendur prófið í prófakerfinu Inspera og geta ýmist nýtt eigin tölvur eða tölvur sem Háskóli Íslands lánar þeim til próftöku. Inntökuprófið tekur tvo daga líkt og áður og í því eru sex tveggja tíma próflotur. 

Eins og fyrri ár geta þau sem fara í inntökuprófið en fá ekki inngöngu skráð sig í aðrar deildir Háskóla Íslands eftir að niðurstöður hafa verið birtar.
 

Image
Yfir 400 þreyta inntökupróf við Læknadeild og Tannlæknadeild

Ríflega 400 manns hafa skráð sig í inntökupróf í læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði við Háskóla Íslands sem fara fram dagana 6. og 7. júní næstkomandi. Nemendum sem teknir verða inn í læknisfræði fjölgar um 15 milli ára. MYND/Kristinn Ingvarson