
Vísindamenn við Rannsóknastofu í næringarfræði og Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði vinna nú að rannsókn á mengunarefnum í Íslendingum. Rannsóknin er hluti af stærra verkefni innan Evrópuríkja þar sem ætlunin er að kanna hvort styrkur tiltekinna efna sé að aukast eða minnka í Evrópubúum.
Rannsóknin nefnist „Mengunarefni í Íslendungum – HBM2“ og hafa 200 Íslendingar á aldrinum 18-39 ára, sem valdir voru handahófskennt, fengið sendingu heim til sín með boði um þátttöku í rannsókninni.
„Við munum mæla ýmis mengunarefni í blóði og þvagi þátttakenda og spurningalistar verða notaðir til að rekja tilvist þeirra til fæðu, umhverfis eða lífstíls. Þátttakendum býðst að fá upplýsingar um sínar niðurstöður,“ segir Ása Valgerður Eiríksdóttir, sérfræðingur í umhverfis- og eiturefnamælingum við Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands, sem kemur að rannsókninni.
Mæla ýmis efni tengd matvælum og fatnaði sem erfitt er að forðast alveg
Ása bendir á að ætlunin sé að mæla efni sem ekki er hægt að fá mæld í venjulegu heilsufarseftirliti, m.a. svokölluð PFAS-efni, bisfenól og ýmis varnarefni, t.d. glyphosat og þungmálma. „PFAS-efni eru t.d. notuð til að gera vefnað vatnsheldan eða blettavarinn, til að koma í veg fyrir að umbúðir límist við matvöru og að matur festist á pottum, pönnum og kökuformum. Efnin eru stundum kölluð eilífðarefnin þar sem þau safnast upp í lífverum,“ útskýrir Ása.
Bisfenól-efni eru notuð í plastframleiðslu og glyphosat er illgresiseyðir og virka efnið í Roundup. Þungmálmar eins og arsenik, kadmíum, blý og kvikasilfur geta fundist í mat ef jarðvegurinn er mengaður af þeim. „Eins og gefur að skilja eru þessi efni alls staðar í kringum okkur og erfitt að forðast þau alveg. Það hjálpar að velja lífrænt, skola ávexti, grænmeti og hrísgrjón fyrir neyslu. Einnig hjálpar að nota ekki “non-stick” áhöld við matreiðslu og að hita ekki mat í plastílátum,“ bendir Ása á.