Header Paragraph

Vel heppnuð Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna

Image
21. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands fór fram á Háskólatorgi dagana 23. og 24. maí 2023.

21. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands fór fram á Háskólatorgi dagana 23. og 24. maí 2023. Ráðstefnan er vettvangur fyrir virkt samtal við samfélagið utan veggja háskólanna og veitir fræðafólki, sérfræðingum og öðrum tækifæri til að deila þekkingu, læra hvert af öðru, efla fagleg tengsl og samstarf á sviði líf- og heilbrigðisvísinda. 

Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands setti ráðstefnuna en síðan flutti m.a. Hilma Holm, vísindamaður hjá deCODE, gestafyrirlestur sem bar heitið Meaningful use of genetic information in the management of cardiovascular diseases - insights from research at deCODE genetics. Unnur Anna Valdimarsdóttir prófessor í faraldsfræði hélt opin fyrirlestur fyrir almenning um áföll og streitu. Á meðal annarra dagskrárliða má nefna gestafyrirlestur Jóns Snædal um nýja þekkingu um Alzheimer-sjúkdóminn og opin hádegisfyrirlestur fyrir almenning um líftæknilyf, sem fluttur var af Páli Þór Ingvarssyni, lektor við Lyfjafræðideild HÍ. 
 

Text

Á seinni degi ráðstefnunnar afhendi m.a. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, viðurkenningu og verðlaun heilbrigðisráðuneytisins á 21. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu. Viðurkenning ráðuneytisins hlýtur efnilegur vísindamaður sem flytur erindi á ráðstefnunni og er hann valinn af sérskipaðri valnefnd úr öllum erindum ráðstefnunnar. Að þessu sinni hlaut Yue Wang viðurkenninguna. Í umsögn dómnefndar sagði að verkefni Yue sé sérlaga frumlegt og metnaðarfullt og það var kynnt skipulega og á faglegan máta. Niðurstöðurnar eru góðar fréttir fyrir íslenskt samfélag þar sem geðheilsa þjóðarinnar virðist ekki hafa komið eins illa út úr Covid-faraldrinum og víða annars staðar.

Image
Image
Yue Wang og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra

Text

Árni Ásbjarnarson hlaut verðlaun úr Þorkelssjóði en þau eru veitt efnilegum vísindamanni á sviði lyfja- og eiturefnafræði, svo sem grunnrannsóknum eða klínískum rannsóknum sem aukið geta skilning á lyfjaverkun, aukaverkunum, nýjum lyfjamörkum eða lyfjaþróun. Verkefni Árna ber heitið Comparative analysis of macrolide antibiotics effects on bronchial epithelial cell differentiation in vitro. Í rökstuðningi dómnefndar segir: Ransóknarverkefni Árna lýsir mjög áhugaverðu líkani til að varpa ljósi á verkun sýklalyfsins azithromycin á öndunarveg. Það hefur lengi verið þekkt að sýklalyfið azithromycin virðist hafa jákvæð áhrif á varnamátt líkamans og þessi áhrif eru óháð áhrifum sýklalyfsins á sýkla. Með því að nota frumuræktunarlíkan af öndunarvegi sjást áhugaverð áhrif sem varpa hugsanlegu ljósi á þessi mikilvægu áhrif sýklalyfsins og gætu varðað veginn fyrir nýja lyfjaþróun.
Það var Magnús Karl Magnússon prófessor sem afhendi Árna verðlaunin.
 

Image
Image
Árni Ásbjarnarson hlaut verðlaun úr Þorkelssjóði, Magnús Karl Magnússon prófessor afhendi Árna verðlaunin

Að síðustu voru afhend Hvatningarverðlaun Jóhanns Axelssonar prófessors. Þau hlaut að þessu sinni Ebb Mohr Vang, meistaranemi í lífeðlisfræði fyrir verkefnið: How Does Aging Affect Microglia and OPCs (Oligodentrocite precursor cells)? undir leiðsögn prófessors Ragnhildar Þóru Káradóttur og er verkefnið unnið í samvinnu við Háskólann í Cambridge á Englandi. Verkefnið er á sviði taugalífeðlisfræði og snýst um áhrif öldrunar á myndun myelínslíðurs í miðtaugakerfi. Mýelínslíður er nauðsynlegt fyrir eðlilega starfsemi taugakerfisins en verður fyrir skakkaföllum í ýmsum taugasjúkdómum (svo sem MS, heila-og mænusigg). Ebb Mohr Vang var ekki á landinu til að veita verðlaununum viðtöku.

Alls voru 150 erindi flutt á þessari 21. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands en næsta ráðstefna verður haldin 2025.

Meðfylgjandi myndir tók Kristinn Ingvarsson, ljósmyndari HÍ, á fyrri degi ráðstefnunnar á Háskólatorgi. Myndir af verðlaunaafhendingu tók starfsfólk HVS.