Um RÍA

Image
Rannsóknastofa í atferlisgreiningu - orðaský 1

Um RÍA

Rannsóknastofa í atferlisgreiningu er vettvangur rannsókna- og þróunarstarfs á fræðasviðum atferlisgreiningar. Stofan heyrir undir Sálfræðistofnun Háskóla Íslands og hefur það að markmiði að auka rannsóknir á atferlisgreiningu og gera þær sýnilegar.

Helstu hlutverk stofunnar eru m.a. að stuðla að fræðslu, sinna rannsóknum og þjónustuverkefnum, hafa samstarf við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir og fræðimenn, veita nemum í rannsóknanámi aðstöðu og búnað til rannsóknastarfa, sem og þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum. 

Stofan skipuleggur ýmsa viðburði til að miðla niðurstöðum rannsókna taka þátt í almennri umræðu. Má þar nefna fræðileg námskeið, fyrirlestra, málþing og ráðstefnur. 

Rannsóknastofa í atferlisgreiningu var stofnuð árið 2012. Forstöðumaður er Dr. Zuilma Gabriela Sigurðardóttir, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands.
 

Rannsóknir í atferlisgreiningu

Dr. Zuilma Gabríela Sigurðardóttir hefur kennt sálfræði við Háskóla Íslands síðan 1994. Frá þeim tíma hefur hún leiðbeint fjölda nemenda við lokaverkefni til BS-, MS-, Cand. psych.- og Phd-gráðu í sálfræði við Háskóla Íslands, einkum á sviði atferlisgreiningar.

Mörg þessara verkefna eru aðgengileg í Skemmunni. Hér má komast á Skemmuna.

Dr. Zuilma Gabríela Sigurðardóttir á Wikipedia.

Atferlisstefnan

Aferlisstefnan gerir ráð fyrir að hegðun fari að lögmálum þar sem aðdragandi hegðunar auki eða minnki líkur á að hún eigi sér stað vegna fyrri tengsla hegðunar við afleiðingu sem hefur fylgt henni. Afleiðing hegðunarinnar eykur tíðni hennar eða minnkar eftir því hvort afleiðingin er hagstæð eða óhagstæð. Styrking kallast hver sá umhverfisþáttur sem fylgir hegðun og eykur hana. Refsing kallast sá umhverfisþáttur  sem fylgir hegðun og minnkar hana. Þegar afleiðing hegðunar hefur þau áhrif að hegðunin eykst eða minnkar er talað um virka skilyrðingu. 

Mögulegt er að auka tíðni æskilegrar hegðunar með því að láta hagstæða afleiðingu, þ.e. styrkingu, koma á eftir henni en minnka tíðni óæskilegrar hegðunar með því að láta refsingu koma fram að henni lokinni eða með því að fjarlægja styrkingu sem hefur verið fyrir hendi, kallast það slokknun hegðunar. Við slokknun, þ.e. fjarlæging styrkis sem hefur fylgt hegðun, verður fyrst aukning hegðunar áður en hún minnkar og verður oftast að gera ráðstafanir til að takast á við aukninguna sem verður fyrst. Notkun virkrar skilyrðingar á hegðunarvanda hefur verið mjög áhrifarík leið til  að minnka tíðni óæskilegrar hegðunar en auka tíðni æskilegrar hegðunar. Rannsóknir hafa verið stundaðar í hagnýtri atferlisgreiningu í yfir 60 ár og ekki leikur nokkur vafi á áhrifamátt aðferðanna sem hafa verið þróuð til að fást við hegðunarvanda.

Það sem er mikilvægt við sjónarhól atferlisgreiningunnar er að ekki aðeins er gert ráð fyrir að þeir umhverfisþættir sem eigi sér stað rétt á undan og á eftir hegðuninni og spili saman við hegðunina hafi áhrif á hana heldur er einnig gert ráð fyrir að þeir umhverfisþættir sem hafa spilað saman við hegðun lífverunnar fyrr á lífsleiðinni hafi áhrif á líkurnar á að hún eigi sér stað. Gengið er út frá því að samspil hegðunar og umhverfis hafi áhrif á líkurnar á að hegðun eigi sér stað og þess vegna sé hægt að breyta hegðun með því að hafa áhrif á umhverfið sem hefur spilað saman við hegðunina. Markvisst inngrip af þessu tagi hefur mikil áhrif en endurtekning þarf til að ná árangri og þess vegna má ekki dæma árangur út frá örfáum skiptum. Inngrip verður að vera veitt í mörg skipti í röð áður en hægt er að sjá breytingar á hegðun.

Hagnýt atferlisgreining

Hagnýt atferlisgreining er vísindagrein runnin undan rifjum atferlisstefnu B. F. Skinners, eða róttækri atferlishyggju og tilraunalegri atferlisgreiningu. Í hagnýtri atferlisgreiningu er unnið að því að finna hvort samband er á milli hegðunar og umhverfisþáttar. Ef svo reynist vera, þá er unnið að breytingu á samspili hegðunar­innar við umhverfið til að hafa áhrif á hegðunina, þ.e.a.s. umhverfisþáttum er breytt til að stjórna sambandinu milli markhegðunar og umhverfisþátta. Inngrip er þá hannað á grunni þeirra lögmála sem hafa verið uppgötvuð að gilda um samspil hegðunar og umhverfis og rannsakað hefur verið í tilraunalegri atferlisgreiningu. Hægt er að hanna mjög áhrifarík inngrip þegar þau byggjast á því að brjóta upp samband á milli hegðunarinnar sem um ræðir (kallað markhegðun) og styrkingarinnar sem hefur viðhaldið henni.

Sambandið milli hegðunar og umhverfis er fundið með því að taka saman upplýsingar sem hægt er að fá í viðtölum við þá sem koma að máli skjólstæðings sem sýnir markhegðunina, með því að fylgjast með hegðuninni eiga sér stað þar sem hún á sér stað og skrá upplýsingar um hana og með virknigreiningu. Leitað er þá að upplýs­ingum um þá umhverfisþætti sem:

•    hugsanlega stjórna hegðuninni sem um ræðir
•    breyta áhrifum afleiðinga og aðdraganda hegðunar
•    auka líkurnar á að hegðunin eigi sér stað
•    viðhalda tíðni hegðunarinnar

Hægt er að fá þessar upplýsingar með því að greina í hvaða aðstæðum mark­hegðunin á sér helst stað, klukkan hvað, hvað gerist rétt á undan markhegðuninni, hvað gerist rétt á eftir markhegðuninni, hversu lengi varir hún, hvað hefur verið gert til að hafa áhrif á hana, hverju hafa þær aðgerðir skilað, hvenær á hegðunin sér ekki stað, hverjir eru viðstaddir þegar hún á sér stað og fleira. Með því að afla sem mest af upplýsingum um þessa þætti er hægt að hanna áhrifaríkt inngrip sem byggist á því að umhverfisþáttum er breytt og athugað hvort hegðunin breytist með breyttu samspili hegðunar og umhverfis. Nauðsynlegt er að afla upplýsinga um þessa þætti ekki eingöngu með viðtölum heldur með því að nýta sér mismunandi upplýsingaöflunarleiðir til að fá sem gleggsta mynd af samspili hegðunar og umhverfis.

Inngrip gengur oft út á, að skjólstæðingur sem sýnir markhegðunina fær tækifæri til þess eða er kennt að komast í færi við hagstæðar afleiðingar sem viðhaldið hafa hegðuninni með því að sýna einhverja aðra hegðun, t.d. æskilega hegðun. Að auki fær barnið ekki lengur styrkingu fyrir óæskilegu hegðunina, þ.e. aldrei. Þannig er sambandið á milli markhegðunarinnar og styrkingarinnar rofið og erfiða hegðunin minnkar í tíðni eða hættir að birtast og önnur hegðun kemur í staðinn, sú sem hefur verið kennd eða og er sú sem fær styrkingu eftir að inngrip hefst.

Út frá atferlislögmálum hafa verið hannaðar námskrár, kennsluaðferðir og hegðunarstjórn í kennslustundum, leikvöllum, á heimilum, vinnustöðum og öðrum aðstæðum. Einnig hafa verið þróaðar leiðir til þess að stuðla að alhæfingu og viðhaldi náms sem hefur áunnist með inngripinu. Rannsóknir á kennsluháttum hafa sýnt að námskrár og kennsluaðferðir sem byggja á lögmálum náms séu áhrifaríkar í kennslu allra barna. Í atferlisgreiningu er gengið út frá því að hægt sé að kenna öllum börnum, líka þeim sem hafa hlotið greiningu á röskun eða eru með einhverja fötlun enda hefur rannsóknagrunnurinn til þessa sýnt að þessar forsendur standast mjög vel. Það sama má segja um rannsóknir á uppeldisháttum, kennslu á háskólastigi, stjórnun fyrirtækja og stofnanna og beitingu hegðunar- og námslögmála í öðrum mjög fjölbreyttum aðstæðum.

Reglur um rannsóknastofu í atferlisgreiningu við Sálfræðistofnun Háskóla Íslands

1. gr. Almennt
Rannsóknastofa í atferlisgreiningu við Háskóla Íslands er hluti af Sálfræðistofnun Háskóla Íslands (Sálfræðistofnun) samkvæmt 3. tl. 4. mgr. 27. gr. reglna nr. 569/2009 um Háskóla Íslands og 4. gr. reglna um Sálfræðistofnun nr. 554/2010 um Sálfræðistofnun.

2. gr. Hlutverk
Hlutverk rannsóknastofu í atferlisgreiningu er að stuðla að eflingu atferlisgreiningar í því skyni að auka rannsóknastarf á sviðinu með því að:
a) vinna að fræðslu um atferlisgreiningu
b) eiga frumkvæði að og sinna rannsóknum 
c) sinna þjónustuverkefnum 
d) hafa samstarf innan Háskóla Íslands og við aðrar innlendar og erlendar rannsóknastofnanir og fræðimenn á rannsóknasviði stofunnar
e) veita nemum í rannsóknanámi aðstöðu og búnað til rannsóknastarfa og veita nemum þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum með því að gefa þeim kost á að vinna rannsóknarstörf á vegum stofunnar eftir því sem unnt er
f) kynna niðurstöður rannsókna m.a. með útgáfu fræðibóka og -greina, gangast fyrir fræðilegum námskeiðum, fyrirlestrum, málþingum og ráðstefnum
g) vera ráðgefandi og taka þátt í almennri umræðu 

3. gr. Aðstaða
Sálfræðistofnun lætur stofunni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað, eftir því sem kostur er.

4. gr. Stofustjórn
Stofustjóri er Zuilma Gabriela Sigurðardóttir við Sálfræðideild og ber hann jafnt almenna sem fjárhagslega ábyrgð á rekstri stofunnar gagnvart stjórn Sálfræðistofnunar, ber ábyrgð á daglegum rekstri, stýrir rannsóknarverkefnum og hefur eftirlit með störfum starfsmanna. 

5. gr. Verkefni stofustjórnar
Stofustjóri tekur allar stefnumarkandi ákvarðanir fyrir stofuna og setur henni frekari starfsreglur. Hann sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofunnar. Stofustjóri ber ábyrgð á fjármálum stofunnar gagnvart Sálfræðistofnun. Honum er heimilt að ráða forstöðumann eða aðra starfsmenn eftir því sem ástæður og efni gefa til. 
Skýrslur, álitsgerðir, viðhorf, skoðanir eða annað sambærilegt efni skulu auðkennd rannsóknastofu í atferlisgreinnigu og stofuna skal kenna við Sálfræðistofnun þegar það á við. Óheimilt er að kenna slíkt efni við Sálfræðistofnun beint nema stjórn Sálfræðistofnunar, forstöðumaður eða stjórnarformaður í umboði hennar samþykki.

6. gr. Fjármál
Stofan hefur sjálfstætt fjárhald en reikningshald hennar skal vera hluti af reikningshaldi Sálfræðistofnunar. Fjárhagsáætlanir og uppgjör skulu lagðar fyrir forstöðumann Sálfræðistofnunar til samþykktar eigi síðar en fyrir lok febrúarmánaðar. Uppgjör þarf að vera í jafnvægi eða með rekstrarafgangi nema stjórn Sálfræðistofnunar heimili annað.