
Fræðimenn hafa bent á að líklega sé það þrennt sem hafi breytt mestu um heilsufar manna á öldinni sem leið, almennt hreinlæti, tilkoma sýklalyfja og bóluefna. Vegna gagnsemis sýklalyfja hefur notkun þeirra verið gríðarlega útbreidd en ekki alltaf í samræmi við ráðgjöf og þá þekkingu sem síðar hefur orðið til við rannsóknir á áhrifum lyfjanna. Nú er enda svo komið að fjöldi baktería er orðinn fjölónæmur og búist er við miklum vanda í samfélögum í nánustu framtíð vegna þess, bæði hjá mönnum og í landbúnaði, takist ekki að þróa nýjar leiðir eða lyf til að meðhöndla sýkla framtíðarinnar.
Vitað er að sýklalyfjanotkun hefur ýmsar hliðarverkanir strax eða fljótlega en hún getur einnig haft ýmsar afleiðingar sem ekki blasa alveg við meðan á töku lyfjanna stendur en kunna að koma fram síðar. Jafnvel er hugsanlegt að inntaka á sýklalyfjum snemma í barnæsku geti haft áhrif á svörun við bólusetningum hjá sömu börnum síðar meir. Þetta er einmitt til rannsóknar núna í læknavísindum í Háskóla Íslands.
Hver eru hin neikvæðu áhrif sýklalyfja á heilsu?
„Rannsóknin mín snýst um að skoða möguleg áhrif sem sýklalyfjanotkun snemma á ævinni getur haft á heilsufar barna síðar meir,“ segir Birta Bæringsdóttir um doktorsverkefnið sitt. Birta er læknir að mennt og starfar sem sérnámslæknir á Barnaspítalanum. Birta hefur verið afkastamikil í rannsóknum þrátt fyrir ungan aldur en hún hlaut t.d. styrk til klínískra rannsókna úr Vísindasjóði Landspítala bæði í fyrra og árið þar á undan.
Það kemur ekki á óvart að Birta hafi tekist á við doktorsnám í framhaldi af brautskráningu frá Læknadeild HÍ en hún varð dúx Menntaskólans í Reykjavík árið 2013 og hlaut sama vor sérstakan styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði HÍ.
Birta segir að um þessar mundir sé víða um lönd verið að horfa á möguleg neikvæð áhrif sýklalyfja á heilsu. „Sýklalyf geta haft áhrif á þarmaflóruna í meltingarveginum sem er mikilvæg fyrir þroska ónæmiskerfisins og gæti sýklalyfjanotkun þess vegna valdið því að einstaklingar séu útsettari fyrir sýkingum.“
Birta segir að fyrri hluti rannsóknarinnar sé unninn upp úr gagnagrunni þar sem markmiðið sé að skoða hvort tengsl séu á milli sýklalyfjanotkunar snemma á ævinni og sýkinga, sýklalyfjanotkunar og ýmissa sjálfsnæmissjúkdóma, s.s. astma, síðar í barnæsku. „Í seinni hluta rannsóknarinnar er stefnt á að skoða alls um 200 börn sem hafa ýmist fengið sýklalyf snemma á ævinni eða ekki og kanna hvort munur sé á hvernig ónæmiskerfi barnanna þroskast með því að meta hvernig þessi börn svara bólusetningum.“