
Ný rannsókn alþjóðlegs hóps vísindafólks, þar á meðal við Háskóla Íslands, sýnir að mataræði sem einkennist af neyslu mikillar fitu, sykurs og unnins matar á meðgöngu getur aukið hættu á taugaþroskaröskunum eins og ADHD og einhverfu hjá börnum þeirra. Greint var frá niðurstöðum rannsóknarinnar í vísindatímaritinu Nature Metabolism á dögunum. Rannsóknin skapar tækifæri til að bæta og fylgja betur eftir ráðleggingum um mataræði til barnshafandi kvenna að sögn vísindahópsins.
Rannsóknin byggðist á greiningu gagna úr fjórum dönskum og bandarískum gagnabönkum sem hafa að geyma m.a. upplýsingar um neyslumynstur yfir 60 þúsund kvenna á meðgöngu og ADHD-greiningar í hópi barna þeirra. Jafnframt rannsakaði hópurinn blóðsýni úr bæði mæðrum og börnum og nýttu svokallaða umbrotsefnamengjafræði (e. metabolomics), sem snýst um að mæla styrk tilekinna efna í líkamanum, til þess að varpa skýrara ljósi á samband mataræðis við taugaþroskaraskanir. Þessu til viðbótar var í rannsókninni tekið tillit til fjölmargra þátta sem hafa áhrif á taugaþroskaraskanir, eins og erfða, en rannsóknir hafa sýnt að þær eiga stóran þátt í þróun slíkra raskana.
Í rannsókninni fundust skýr tengsl tengsl á milli vestræns mataræðis hjá mæðrunum og ADHD og einhverfu hjá börnum þeirra, en vestrænt mataræði einkennist af mikilli neyslu á feitum, sykruðum og unnum mat en lítilli fisk-, grænmetis- og ávaxtaneyslu. Því frekar sem barnshafandi konur fylgdu hinu vestræna mataræði því meiri hætta var á því að barnið sem þær báru undir belti yrði greint með ADHD eða einhverfu.
Vísindamennirnir benda á að jafnvel tiltölulega lítil breyting á mataræði móður í átt að því vestræna jók líkur á að barn greindist með ADHD um 66% og að það greindist með einhverfu um 122%. Að sama skapi geti sömu breytingar á mataræði í átt frá því vestræna mögulega dregið úr hættunni á taugaþroskaröskunum hjá börnum. Vísindamennirnir undirstrika að rannsóknin sýni fram á sterk tengsl milli mataræðis og taugaþroskaraskana en sanni ekki að vestrænt mataræði á meðgöngu valdi ADHD og einhverfu hjá börnum.