SOS - Hjálp fyrir foreldra

Image
SOS auglýsingaplakat

SOS - Hjálp fyrir foreldra

Hvað er SOS - Hjálp fyrir foreldra?

SOS - Hjálp fyrir foreldra er uppeldisnámskeið fyrir foreldra sem hannað er af sálfræðingnum Dr. Lynn Clark. Námskeiðið er fyrir foreldra en því er ætlað að hjálpa foreldrum að bæta hegðun barna sinna og stuðla að félagslegri og tilfinningalegri aðlögun þeirra.

Hvernig er námskeiðið uppbyggt?
Hvert námskeið stendur yfir í 6 vikur. Kennt er einu sinni í viku, 2,5 klst í senn. Allir þátttakendur fá bókina SOS! Hjálp fyrir foreldra, ýmsa einblöðunga, eggjaklukku (til að nota við  hlé) og viðurkenningarskjal eftir námskeiðið. 

Fyrirkomulag kennslu:
Stutt sjálfspróf í byrjun hvers tíma úr heimalesefni vikunnar. Fyrirlestur um efni vikunnar. Umræður um hvernig þátttakendum gengur að beita nýju tækninni heima. Þáttakendur fá tækifæri til að fá persónulegar leiðbeiningar. Sýnt myndband sem sýnir samskipti barna og foreldra í ólíkum aðstæðum. Eftir hverja senu eru umræður þar sem spjallað er um hvaða viðbrögð foreldra voru óheppileg/heppileg og hvers konar viðbrögð eru líkleg til árangurs, í mismunandi aðstæðum.
 
Á námskeiðinu er m.a. fjallað um:
•    hvernig skýr skilaboð efla foreldrahlutverkið
•    aðferðir til að styrkja æskilega hegðun og draga úr óæskilegri hegðun
•    grundvallaratriði í notkun hlés

Leiðbeinendur á SOS - Hjálp fyrir foreldra námskeiðunum eru sálfræðingar eða hegðunarfræðingar sem hafa lokið námskeiði fyrir leiðbeinendur hjá dr. Zuilmu Gabríelu Sigurðardóttur.

Verð:  35.000 kr. fyrir eitt foreldri/forráðamann, 50.000 kr. fyrir báða foreldra/forráðamenn, 50.000 kr. fyrir fagfólk (t.d. starfsfólk stofnana) á leiðbeinendanámskeið. Námskeiðshald er háð eftirspurn.

Nánari upplýsingar og skráning: saldeild@hi.is eða í síma 698-7450.

Skráning á námskeiðið SOS - Hjálp fyrir foreldra

Ath. Rannsóknastofa í atferlisgreiningu er með höfundarétt á öllu íslenska efni námskeiðsins.

Markmið 
Meginmarkmið námskeiðsins er að hjálpa foreldrum að bæta hegðun barna sinna og veita árangursrík fyrirmæli. Kenndar eru margvíslegar aðferðir til þess, sem allar byggja á lögmálum náms. Það má segja að grunnlögmálið sé að sýna barninu athygli þegar það sýnir góða hegðun, styrkja þannig æskilegu hegðunina og auka líkurnar á að tíðni jákvæðrar hegðunar aukist og á sama tíma að tíðni óæskilegrar hegðunar minnki.

Auk þess að styrkja æskilega hegðun, er óæskileg hegðun hunsuð og notaðar  mildar refsingar þegar barnið brýtur af sér og sýnir hegðun sem er hættuleg eða andfélagsleg. Það er gert með því að fjarlægja eitthvað sem barninu þykir eftirsóknarvert, t.d. leikfang eða tölvu, eða neita því um athygli og samveru með foreldrum í  afmarkaðan tíma (hlé, time-out), t.d. 2 mínútur.

SOS - Hjálp fyrir foreldra leggja áherslu á jákvæða styrkingu hegðunar með því að kenna foreldrum mikilvægi þess að fylgjast vel með börnum sínum, sýna þeim athygli, verja með þeim tíma í leik, spjalli, hvíld og almenna samveru, tjá þeim ást og hrifningu reglulega og vera góðar fyrirmyndir fyrir börnin sín. Námskeiðin kenna foreldum hvers vegna þetta allt er mikilvægt og hver verður útkoman af því að „grípa börnin þegar þau eru góð“.
 

Text

Bakgrunnur

Uppeldisnámskeiðið SOS - Hjálp fyrir foreldra er eftir bandaríska sálfræðinginn dr. Lynn Clark. Aðferðin byggir á yfir 40 ára rannsóknum í atferlisgreiningu og sálfræði. 

Dr. Zuilma Gabríela Sigurðardóttir, sálfræðingur og námsfræðingur, stóð fyrir því að námskeiðið var þýtt yfir á íslensku og hóf hún að kenna það hérlendis árið 1998, í samvinnu Ágústu Ingvarsdóttur, núverandi sálfræðing en þáverandi eiganda fyrirtækisins Vitund ehf. 

Árið 2000 keypti Sálfræðideild Háskóla Íslands íslenska réttinn að námskeiðinu og voru námskeiðin hýst hjá Félagsvísindastofnun. Fjölmörg námskeið hafa verið haldin um allt land undir stjórn Zuilmu Gabrielu Sigurðardóttur. Mörg sveitarfélög hafa styrkt foreldra til þátttöku á námskeiðunum, svo sem Reykjanesbær, Sveitarfélagið Garður, Grundarfjörður, Garðabær, Fjarðabyggð, Sveitarfélagið Vogar, Sandgerðisbær og Vestmannaeyjabær.Námskeiðin hafa einnig verið haldin á Akureyri, Akranesi, Höfn, í Borgarnesi, Kópavogi og í Reykjavík. Námskeiðin hafa verið hýst hjá Sálfræðistofnun eða Rannsóknastofu í atferlisgreiningu, síðan haustið 2012 og er stofan með einkarétt á íslenska efninu.

Image
Image
SOS help for parents

Rannsóknir

Fjölmargar rannsóknir sem gerðar hafa verið erlendis á aðferðunum sem námskeiðið byggir á hafa sýnt fram á góðan árangur aðferðanna. Í því sambandi má nefna að bandaríska rannsóknatímaritið Journal of Clinical Psychology hefur mælt með bókinni sem notuð er í námskeiðinu.

Nokkrar lokaritgerðir við Háskóla Íslands hafa fjallað um SOS - Hjálp fyrir foreldra námskeiðin: 

•    Reynsla af námskeiðinu SOS! Hjálp fyrir foreldra á árunum 2002-2011: 11 ára eftirfylgni
•    Mat á áhrifum námskeiðsins SOS! Hjálp fyrir foreldra á færni einstæðra mæðra í hegðunarstjórnun
•    SOS! Hjálp fyrir foreldra: Samantekt á niðurstöðum TOPI A og TOPI B árin 2007-2011 og heildaryfirlit fyrir árin 1998-2011
•    SOS! Hjálp fyrir foreldra: Samanburður á frammistöðu þátttakenda TOPI A og TOPI B árin 2003-2007 og heildaryfirlit fyrir árin 1998-2007