
Hækkandi lífaldur fólks og fjölgun í hópi aldraðra hefur í för með sér ýmsar áskoranir, ekki aðeins fyrir kerfi samfélagsins heldur einnig fyrir þau sem næst standa öldruðum einstaklingum. Innan Háskóla Íslands vinnur þverfræðilegur hópur fólks í heilbrigðis- og félagsvísindum að rannsókn sem miðar að því að greina þá þætti sem valda hvað mestu álagi á aðstandendur sem sinna umönnun með öldruðum skyldmennum sem jafnframt þiggja heimahjúkrun, allt í því augnamiði að auka stuðning við þennan vaxandi hóp.
„Í flestum löndum er nú hvatt til þess að fólk haldi áfram að búa á heimilum sínum þrátt fyrir minnkaða færni til að sjá um sig og ýmis flókin heilsufarsvandamál og öldrunarbreytingar. Samfara þeirri stefnu hafa stjórnvöld áttað sig á að mikil vinna hefur færst til þessara einstaklinga og aðstandenda þeirra sem getur leitt til álags af ýmsum toga,“ segir Kristín Björnsdóttir, prófessor í hjúkrunarfræði og formaður stjórnar Rannsóknastofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum (RHLÖ), sem fer fyrir rannsóknarhópnum.
Umönnun fylgir oft mikið álag
Kristín bendir á að þessi nýi veruleiki kalli á að rannsakendur á sviði öldrunarfræði beini athyglinni í auknum mæli bæði að líðan og aðstæðum eldra fólks sem býr á heimilum sínum og aðstandenda sem sjá um umönnun. „Alþjóðlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að þrátt fyrir að umönnun sé á margan hátt gefandi búa umönnunaraðilar oft við mikið álag sem tengist líkamlega krefjandi störfum, tilfinningalegum erfiðleikum og fjárhagsáhyggjum. Við viljum því kortleggja stöðu umönnunaraðila til að auka þekkingu á þeim þáttum sem reynast kerfjandi svo hægt sé að bregðast við með auknum stuðningi,“ segir Kristín.
Aðspurð segir Kristín að rannsóknaráhugi hennar hafi um langt skeið beinst að því að þróa leiðir til að styðja fólk til að búa sem lengst á heimilum sínum. „Ég hef áhuga á að skoða leiðir til samþættingar og hef trú á að góð samvinna sé lykilatriði. Í því sambandi er nauðsynlegt að skoða skipulag þjónustunnar og hvernig nýta má tækni til að auðvelda og auðga líf notenda, umönnunaraðila og starfsmanna,“ útskýrir hún.