
Samspil tilfinninga og sjálflægra hugsana í daglegu lífi getur ýtt af stað þunglyndislotum hjá þeim sem þjást af þunglyndi. Eftir því sem grynnra er á sjálflægar hugsanir sem koma fram án ætlunar, vitundar eða hugrænnar úrvinnslu, er líklegra að vanlíðan magnist og það getur bæði komið af stað þunglyndislotu og viðhaldið henni.
„Sú spurning kviknar hvort sálræn meðferð, í þessu tilfelli atferlismeðferð (e. behavioral activation), hafi áhrif á þetta samspil tilfinninga og daglegra hugsana og geti mögulega útskýrt hversu vel, eða illa, meðferðin gagnast fólki sem þjáist af yfirstandandi þunglyndi,“ segir Ragnar Pétur Ólafsson, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Hann leiðir nú rannsókn á hugrænum næmisþáttum fyrir þunglyndi. Um er að ræða þriggja ára rannsóknarverkefni sem styrkt er af Rannís og ber heitið Atferlismeðferð við yfirstandandi þunglyndi: Samspil næmisþátta og meðferðarárangurs.
Áfallasaga fólks fyrir 17 ára aldur hefur áhrif
Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvort hugrænir næmisþættir fyrir þunglyndi hafi vanabundna eiginleika og hvort þeir spái fyrir um eða geti tekið breytingum í atferlismeðferð í yfirstandandi þunglyndislotu. Aðspurður um kveikjuna að rannsókninni segir Ragnar verkefnið vera framhald af fyrra rannsóknarverkefni sem lauk fyrir um tveimur árum og naut einnig stuðnings frá Rannís. „Í því verkefni skoðuðum við þetta samspil daglegra tilfinningasveiflna og sjálflægra hugsana, meðal annars í hópi fólks sem hafði jafnað sig eftir endurteknar þunglyndislotur, og könnuðum hvort forvarnarmeðferð hefði áhrif á þetta samspil,“ segir Ragnar. Það verkefni leiddi í ljós að áfallasaga fólks fyrir 17 ára aldur hefði áhrif á tilfinningasveiflur og sjálflægar hugsanir, en aðrar rannsóknir sem Ragnar hefur unnið að benda til þess að stýrifærni hugans hafi líka áhrif. Þessir þættir eru því einnig metnir og mældir í rannsóknarverkefninu sem Ragnar stýrir núna.
Bjóða allt að 130 manns meðferð
Rannsóknin fer þannig fram að fólki sem þjáist af þunglyndi verður boðið í atferlismeðferð og stefnir rannsóknarhópurinn að því að bjóða allt að 130 einstaklingum meðferðarúrræði. Mælingar verða teknar fyrir, á meðan og eftir meðferð til að skoða áhrif hennar á líðan og hugræna þætti. Jafnframt verður fjölbreyttum mæliaðferðum beitt; tekin verða viðtöl og lagðir fyrir þátttakendur spurningalistar, taugasálfræðileg próf og önnur verkefni en einnig fara fram daglegar símælingar í gegnum snjallsíma þátttakenda til að safna upplýsingum sem nýtast rannsókninni. „Þannig getum við reynt að nálgast upplýsingar um bæði stöðugri þætti en líka sveiflur sem eiga sér stað dag frá degi eða jafnvel frá einni stund til annarrar sama daginn,“ útskýrir Ragnar, en hann gerir ráð fyrir að meðferðin muni skila árangri fyrir marga sem taka þátt í henni. „Það verður fróðlegt að fá upplýsingar um hvernig meðferðin hefur sín áhrif og hvers vegna hún virkar betur fyrir suma en aðra.“