Behavior Rating Inventory of Executive Function (BRIEF)
Efnisorð
- Stýrifærni
Stutt lýsing
- Tegund: Mat annarra – foreldri metur barn (5 til 18 ára). Athuga að einnig er til útgáfa fyrir mat kennara, en hún hefur ekki verið þýdd á íslensku enn sem komið er
- Fjöldi atriða: 86
- Metur: Stýrifærni barna og erfiðleika þar að lútandi. Matstækið samanstendur af tveimur yfirþáttum, hegðunarstjórn og hugrænni færni. Undirkvarðar hegðunarstjórnar eru hömlun viðbragðs (e. inhibit), fastheldni (e. shift) og tilfinningastjórn (e. emotional control), en undirkvarðar hugrænnar færni eru frumkvæði (e. initiate), vinnsluminni (e. working memory), skipulagshæfni (e. plan/organize), skipulag á gögnum (e. organization of materials) og yfirsýn (e. monitor). Miðað er við síðastliðna sex mánuði. Listinn inniheldur auk þessara átta undirkvarða, tvo kvarða sem eiga að meta réttmæti / trúverðugleika svörunar. Annar kvarðinn metur ósamræmi í svörun, hinn metur neikvæðan svörunarstíl
- Svarkostir: Þriggja punkta fullmerktur raðkvarði frá 1 (aldrei) til 3 (oft)
- Heildarskor: Heildarskor má reikna fyrir öll atriði í heild (global executive composite), en einnig fyrir hvorn yfirþátt um sig. Í báðum tilvikum vitnar hærra skor um aukinn vanda með stýrifærni
Íslensk þýðing
- Dagmar Kristín Hannesdóttir, Bettý Ragnarsdóttir, Gyða Haraldsdóttir og Drífa Jenný Helgadóttir sálfræðingar þýddu eftir stöðluðu ferli PAR Inc. Bakþýðing var gerð og samþykkt af höfundum
Próffræðilegir eiginleikar
Áreiðanleiki: Í stóru almennu úrtaki foreldra barna í 4.–10.bekk hefur innri áreiðanleiki heildarskor mælst α = 0,97 en undirkvarða á bilinu 0,81 (yfirsýn) til 0,93 (vinnsluminni).1 Endurprófunaráreiðanleiki heildarskors reyndist hár, eða r = 0,96.
Réttmæti: Í sama almenna úrtaki foreldra barna í 4.–10.bekk voru meðaltöl og staðalfrávik undirkvarða reiknuð.1 Þau voru sögð áþekk þeim sem fengist hafa í rannsóknum höfunda listans erlendis. Þá var samleitni metin með fylgni við Ofvirknikvarðann og SDQ-listann. Fylgni hömlunar viðbragðs við þátt ofvirkni / hvatvísi á Ofvirknikvarðanum reyndist r = 0,83, fylgni vinnsluminnis, skipulagshæfni og yfirsýnar við þátt athyglisbrests var r = 0,90, 0,85 og 0,82. Fylgni heildarskora á BRIEF og SDQ reyndist r = 0,81 – sjá nánar í grein Dagmarar og félaga. Staðfestandi þáttagreining var framkvæmd til að meta formgerð íslensku þýðingarinnar. Átta þátta líkan, það sem tilgreindi ætlaða formgerð, hafði ekki viðundandi mátgæði (CFI = 0,87, TLI = 0,86, RMSEA = 0,05, SRMR = 0,07). Annað líkan, níu þátta líkan með þremur yfirþáttum, var prófað. Níundi undirþátturinn í því líkani er yfirsýn brotinn upp í yfirsýn varðandi verkefni (e. task monitor) og yfirsýn varðandi eigin hegðun (e. selfmonitor). Yfirþættirnir þrír eru tilfinningatemprun (e. emotion regulation), hegðunarstjórn (e. behavior regulation) og hugræn færni (e. metacognition). Þetta líkan reyndist ívið betra, en þó enn undir almennum viðmiðum um mátstuðla (CFI = 0,88, TLI = 0,87, RMSEA = 0,05, SRMR = 0,06). Höfundar taka fram að niðurstöður þáttagreiningar gætu hafa listast af því að notast var við Pearson fylgni í útreikningum í stað polychoric fylgni, en hin síðari er betur fallin að greiningu á raðbreytum eins og þeim sem skipa BRIEF listann (samanber aðeins 3 svarkostir).
Heimildir
Upprunaleg heimild:
- Gioia, G. A., Isquith, P. K., Guy, S. C., & Kenworthy, L. (2000). Behavior Rating Inventory of Executive Function. Child Neuropsychology, 6, 235–238. http://dx.doi.org/10.1076/chin.6.3.235.3152
Próffræðigreinar:
- 1. Dagmar Kr. Hannesdóttir, Freyr Halldórsson, Drífa Jenný Helgadóttir og Sigrún Þórisdóttir. (2018). Próffræðilegir eiginleikar BRIEF-listans og mat á stýrifærni barna með ADHD á Snillinganámskeiði. Sálfræðiritið, 23, 53–66. https://www.salfraediritid.is/sal1/timarit/salfraediritid2018.pdf
Dæmi um birtar greinar:
- Ekkert fannst
Nemendaverkefni:
- Rakel Kristinsdóttir. (2012). Próffræðilegir eiginleikar íslenskrar útgáfu BRIEF matslistans [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/12255
- Steinunn Birgisdóttir. (2012). Próffræðilegir eiginleikar BRIEF listans í íslenskri þýðingu [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/11705
- Hugrún Erna Erlingsdóttir & Anna Alexandra Helgadóttir. (2024). Birtingarmynd stýrifærni barna: Tengsl BRIEF listans við aldur, kyn og ADHD einkenni [óútgefin BS ritgerð]. Skemman. https://skemman.is/handle/1946/47195
Reglur um notkun
- Leyfisskylt, sjá upplýsingar á vef útgefanda
- Athuga að Geðheilsumiðstöð barna hefur útbúið Excel skjal til innsláttar sem má nálgast hjá einum þýðanda listans á dagmar.kristin.hannesdottir@heilsugaeslan.is
Aðrar útgáfur
- Ekkert fannst
Síðast uppfært
- 6/2024