Lyfjafræðin í 30 ár í Haga
Um þessar mundir eru 30 ár liðin síðan farið var að kenna lyfjafræði í hinu sögufræga húsi Haga við Hofsvallagötu í Reykjavík. Sjö árum fyrr, árið 1987, höfðu fyrstu lyfjarfræðingarnir útskrifast með kandídatspróf frá Háskóla Íslands en áður höfðu nemendur þurft að taka hluta námsins erlendis, oftast í Danmörku. Húsakosturinn og rannsóknaraðstaðan sem lyfjafræðin hafði á 9. áratugnum var ekki upp á marga fiska, bæði vegna plássleysis og lélegra vinnuaðstæðna nemenda og kennara. Reynt var að þrýsta á um úrbætur við háskólarektor og menntamálaráðherra á þeim tíma með litlum árangri til að byrja með en baráttan fyrir bættu húsnæði bar árangur árið 1994 þegar lyfjafræðinni var úthlutað hinu sögufrægu húsi Haga við Hofsvallagötu.
Hagi var byggður 1910 af sjómönnum sem voru með hugmyndir um að starfrækja í húsinu fyrirtæki sem flytti út fisk en þær áætlanir gengu ekki eftir og stóð húsið að mestu autt þar til 1942 þegar Vífilfell hóf þar gosframleiðslu. Margir Reykvíkingar eiga góðar minningar tengdar þessu húsi frá þessum tíma þar sem fjölskyldur fóru gjarnan þangað til að sækja goskassa fyrir jólin og var stríður straumur fólks inn í portið síðustu dagana fyrir jól. Verksmiðjan sjálf var flutt upp í Árbæjarhverfið 1974 en skrifstofur Vífilfells voru áfram í Haga fram yfir 1990 þegar HÍ keypti húsið.
Flutningur lyfjafræðinnar í Haga var mikil lyftistöng fyrir námið og efldi til muna rannsóknarþáttinn - en akademískt starfsfólk Lyfjafræðideildarinnar hefur verið öflugt í lyfjafræðirannsóknum sem hafa m.a. leitt til þróunar nýrra lyfja.
En nú stefnir í tímamót. Hagi er barn síns tíma og þjónar ekki lengur þeim þörfum sem lyfjafræði nútímans þarf. Gerðar hafa verið nokkrar þarfagreiningar sem hafa ekki leitt til flutnings lyfjafræðideildar í varanlegt húsnæði. En nú glittir loksins í það að deildin muni loks flytja í endanlegt húsnæði með öðrum deildum og einingum Heilbrigðisvísindasviðs. Hafin er vinna við grunn nýs húss heilbrigðisvísinda sem verður tekin í notkun árið 2028.
Í tilefni tímamótanna bauð Lyfjafræðideildin til mannfagnaðar í Haga þar sem Berglind Eva Benediktsdóttir, forseti deildarinnar, fór m.a. yfir sögu lyfjafræðináms á Íslandi og þá byltingu sem flutningurinn í Haga var fyrir starfsemina á sínum tíma. Meðfylgjandi myndir voru teknar við það tilefni.