
Niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem nær til um 65 þúsund fullorðinna einstaklinga á Íslandi, Svíþjóð, Danmörku og Noregi, benda til þess að alvarleiki veikinda af völdum COVID-19-sjúkdómsins sé ákvarðandi þáttur um hættuna á langvarandi líkamlegum einkennum þeirra sem sýkjast. Rannsóknin var unnin innan COVIDMENT-rannsóknarstarfsins og niðurstöðurnar birtust í dag í vísindatímaritinu The Lancet Regional Health - Europe.
Líkt og fram hefur komið er COVIDMENT samstarfsverkefni vísindamanna frá háskólum og stofnunum í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Eistlandi og Skotlandi auk Íslands en verkefnið leiðir rannsóknahópur Unnar Önnu Valdimarsdóttur og Thors Aspelund, prófessora við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Verkefnið hlaut nýlega styrk frá NordForsk til tveggja ára.
Í þessari rannsókn skoðuðu vísindamenn algengi þrálátra líkamlegra einkenna hjá einstaklingum sem veiktust af COVID-19 og báru þau saman við einstaklinga sem höfðu ekki fengið staðfesta COVID-19 greiningu frá apríl 2020 til ágúst 2022. Yfir 22.000 þátttakendur greindust með COVID-19 á tímabilinu og tæplega 10 prósent þeirra voru rúmliggjandi í að minnsta kosti sjö daga. Tíðni langvinnra líkamlegra einkenna eins og mæði, brjóstverks, svima, höfuðverks og orkuleysis/þreytu var 37% hærri hjá þeim sem höfðu greinst með COVID-19 en þeim sem höfðu ekki greinst.