Langvarandi líkamleg einkenni algengust hjá þeim sem veiktust mest af COVID-19
Niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem nær til um 65 þúsund fullorðinna einstaklinga á Íslandi, Svíþjóð, Danmörku og Noregi, benda til þess að alvarleiki veikinda af völdum COVID-19-sjúkdómsins sé ákvarðandi þáttur um hættuna á langvarandi líkamlegum einkennum þeirra sem sýkjast. Rannsóknin var unnin innan COVIDMENT-rannsóknarstarfsins og niðurstöðurnar birtust í dag í vísindatímaritinu The Lancet Regional Health - Europe.
Líkt og fram hefur komið er COVIDMENT samstarfsverkefni vísindamanna frá háskólum og stofnunum í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Eistlandi og Skotlandi auk Íslands en verkefnið leiðir rannsóknahópur Unnar Önnu Valdimarsdóttur og Thors Aspelund, prófessora við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Verkefnið hlaut nýlega styrk frá NordForsk til tveggja ára.
Í þessari rannsókn skoðuðu vísindamenn algengi þrálátra líkamlegra einkenna hjá einstaklingum sem veiktust af COVID-19 og báru þau saman við einstaklinga sem höfðu ekki fengið staðfesta COVID-19 greiningu frá apríl 2020 til ágúst 2022. Yfir 22.000 þátttakendur greindust með COVID-19 á tímabilinu og tæplega 10 prósent þeirra voru rúmliggjandi í að minnsta kosti sjö daga. Tíðni langvinnra líkamlegra einkenna eins og mæði, brjóstverks, svima, höfuðverks og orkuleysis/þreytu var 37% hærri hjá þeim sem höfðu greinst með COVID-19 en þeim sem höfðu ekki greinst.
Yfir 22.000 þátttakendur í rannsókninni greindust með COVID-19 á tímabilinu og tæplega 10 prósent þeirra voru rúmliggjandi í að minnsta kosti sjö daga.
MYND/Þorkell Þorkelsson
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu einnig að einstaklingar sem greindust með COVID-19 og voru rúmfastir í viku eða lengur voru tvöfalt líklegri til að finna fyrir langvarandi líkamlegum einkennum en einstaklingar án greiningar. Þeir voru sömuleiðis með þrálátustu einkennin allt að tveimur árum eftir greiningu. Tíðni slíkra einkenna hjá þátttakendum í rannsókninni, sem lögðust aldrei í rúmið á meðan á sýkingu stóð, reyndist hins vegar svipuð og hjá fólki sem ekki hafði greinst með COVID-19.
„Þessar niðurstöður gefa mikilvægar vísbendingar um tilurð langvinnra einkenni í kjölfar COVID-19 sýkingar, eða svokallaðs Long COVID, sem í dag er mikil lýðheilsuáskorun þar sem stór hluti jarðarbúa hefur verið smitaður,“ segir Unnur. „Niðurstöður rannsóknarinnar undirstrika enn fremur mikilvægi þess að fylgjast með líkamlegum einkennum til lengri tíma eftir greiningu, sérstaklega meðal einstaklinga sem veikst hafa alvarlega af COVID-19,“ bætir Thor við.
COVIDMENT er samstarfsverkefni vísindamanna frá háskólum og stofnunum í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Eistlandi og Skotlandi auk Íslands en verkefnið leiðir rannsóknahópur Unnar Önnu Valdimarsdóttur og Thors Aspelund, prófessora við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands.