Kennsla í bæklunarskurðlæknisfræði

Image

Kennslan í bæklunarskurðlæknisfræði er bæði fræðileg (á fyrirlestrarformi) og klínísk (verklegt). Vegna skörunar við aðrar sérgreinar er fræðilega kennslan mikið til samkennd með skurð-, lyflæknis- og myndgreiningarsviðunum og fer fram ýmist á haust-, vormisseri eða hvort tveggja.

Fyrirlestrakennsla

Við fyrirlestrarkennsluna er lögð sérstök áhersla á greiningu, rannsóknir og skurðaðgerðir. Kennarar eru sérfræðingar í viðkomandi sjúkdómum á Landspítala og á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og eru ýmist fast- eða lausráðnir við Læknadeildina. Námsmat er krossa- og/eða skriflegt próf að loknum öllum fyrirlestrum.

Verkleg kennsla

Verklega kennslan eru námskeið á haust- og/eða vormisseri sem fara oftast samtímis fram og fyrirlestrar á bæði á Landspítala og á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Stúdentar innskrifa sjúklinga í innskriftarmiðstöð, fylgja þeim eftir í aðgerð og á legudeild. Þeir ganga hefðbundinn stofugang á legudeildum og kennslustofugang í vikulok með kennara. Þeir fylgjast einnig með og taka þátt í starfi í göngu- og endurkomudeildum. Æfingaklínikur og fræðslufundir eru í hverri viku. Stúdentar eru til skiptis á bráðavöktum og mætingaskylda er 100%. Námsmat á 4. ári er samsett úr 75% frammistöðu á vitjunarprófi í lok námskeiðs og 25% frammistöðu í námsbók (afrekaskrá).

Í lok námskeiðsins (á vitjunarprófinu) á nemandi að: kunna taka sjúkrasögu, skoða sjúklinga og leggja mat á þær upplýsingar sem þeir fá fram; hafa öðlast færni við skoðun sem tengist bæklunarskurðlækningum, sérstaklega hrygg-, útlima- og handaskoðun, fá æfingu í að undirbúa sjúklinga fyrir aðgerðir og kynnast meðferð eftir aðgerðir m.t.t. hugsanlegra fylgikvilla. Einnig hafa náð ákveðinni færni í ýmsum bæklunarhandverkum, kunna sauma sár, kunna einfalda sárameðferð og hafa tileinkað sér góð samskipti við sjúklinga og starfsfólk.