
- Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson, prófessorar emeritus við HÍ, þróuðu nýja tækni í augnlyfjagerð sem meðal annars gerir kleift að nota augndropa til meðhöndlunar á sjúkdómum í sjónhimnu, til dæmis sjónhimnubjúg í sykursýki.
- Með tækninni má flytja lyf í formi augndropa í afturhluta augans í stað þess að nota sprautunálar.
Alþjóðsamtök sykursjúkra telja að tæplega 40 milljón manns í heiminum þjáist af sjónhimnubjúg í sykursýki og er það ein af helstu orsökum blindu. Sjónhimnubjúgur og fleiri sjónhimnusjúkdómar hafa hingað til verið meðhöndlaðir með því að sprauta lyfjum inn í augað. Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson þróuðu nýja tækni sem gerir kleift að flytja lyf til afturhluta augans í formi augndropa. Sjúklingum mun því bjóðast meðferð með augndropum sem valkostur við það að sprauta lyfjum inn í augað. Það gerir meðferðina þægilegri og aðgengilegri bæði fyrir sjúklinga í ríkum löndum en ekki síst í þróunarlöndum þar sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu er lakara. Fyrir þessa spennandi uppfinningu eru Þorsteinn og Einar komnir í úrslit sem uppfinningamenn Evrópu í flokknum rannsóknir. Þeir voru valdir úr hópi 600 uppfinningamanna sem voru tilnefndir í ár.
Bætt aðgengi að meðferð
Einar og Þorsteinn vonast til að þessi nýja tækni umbylti lyfjameðferð við sjónhimnusjúkdómnum sem eru meðal helstu orsaka blindu. Aðgengi að lyfjameðferð takmarkast við aðstöðu og mannafla til sprauta lyfjum inn í auga eða setja lyfjahylki inn í auga. Meðferð með augndropum bætir aðgengið bæði í ríkum löndum og þróunarlöndum þar sem fjöldi sykursjúkra er mikill og heilbrigðisþjónusta takmörkuð. Tæknin nýtist einnig til að bæta lyfjameðferð í framhluta auga.
Þorsteinn er bjartsýnn á möguleika uppfinningarinnar: „Hægt er að meðhöndla sjúklinga tafarlaust og í heimabyggð og með þessari tækni býðst sjúklingum valkostur við sprautunálar. Meðferðin verður aðgengilegri fyrir fjölda sjúklinga um allan heim.“