
Tíðni heilablóðfalls í kjölfar ósæðarlokuskiptaaðgerða á nærri tveggja áratuga tímabili á Landspítala reyndist innan við 2% sem telst lágt og áþekkt því sem gengur og gerist á stærri hjartaskurðdeildum erlendis. Þetta sýnir ný rannsókn vísindamanna og nemenda við Háskóla Íslands og Landspítala sem greint er frá í maíblaði Læknablaðsins.
Kransæðahjáveita og ósæðarlokuskipti eru langalgengustu opnu hjartaaðgerðirnar á Vesturlöndum, m.a. á Íslandi. Í 90% tilfella er lokunni skipt út vegna kölkunar í henni en kölkunin veldur ósæðarlokuþrengslum og hjartabilun. Oftast er notast við lífræna gerviloku úr svíni eða gollurshúsi kálfs en í u.þ.b. 10% tilvika gerviloku úr hertu kolefni. Einn af alvarlegustu fylgikvillum ósæðarlokuskipta er heilablóðfall sem getur aukið tíðni annarra fylgikvilla, skert lífsgæði og jafnvel dregið sjúklinga til dauða. Í þessari rannsókn, sem náði til 740 sjúklinga á Landspítala, var árangur ósæðarlokuskipta á Íslandi á 18 ára tímabili (2002-2019) kannaður með áherslu á tíðni og afdrif sjúklinga sem fengu snemmkomið heilablóðfall eftir aðgerðina.
Þrettán sjúklingar (1,8%) greindust með heilablóðfall þar sem helftarlömun og málstol reyndust algengustu einkennin. Ánægjulegt var að í rúmum helmingi tilvika hurfu einkenni á tveimur fyrstu sólarhringum frá aðgerð og hjá 70% sjúklinga á fyrsta mánuði frá aðgerð. Aðeins einn þessara 13 sjúklinga lést innan 30 daga frá aðgerð. Sjúklingarnir sem fengu heilablóðfall voru með lægri líkamsþyngdarstuðul en samanburðarhópur en tíðni annarra áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma og annarra alvarlegra fylgikvilla en heilablóðfalls auk aðgerðartengdra þátta reyndist svipuð hjá báðum hópum. Legutími sjúklinga með heilablóðfall var 4 dögum lengri en hinna, þar af þurftu þeir tvo sólarhringa á gjörgæslu í stað eins.