
Þegar ógleði hefur herjað á þungaðar konur eru líkur á að þeim hafi verið bent á húsráðið að borða engifer við ógleðinni. En getur neysla engifers í of miklu mæli haft áhrif á meðgönguna? Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, vinnur nú að því að skoða þetta með rannsókn sinni „Notkun fæðubótarefna unnin úr engifer á meðgöngu: Ávinningur eða áhætta?“
Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvort engifer sem fæðubótarefni geti haft neikvæð áhrif á frjósemi kvenna. Rannsóknin felst í því að skoða fyrirliggjandi gögn um mataræði 100.000 þungaðra kvenna sem fæddu börn á árunum 1996-2004 og svöruðu spurningum um mataræði og notkun fæðubótarefna fyrir og á meðgöngu. Þarna er ekki bara verið að skoða engiferrótina eins og við getum keypt hana í grænmetisdeildum matvöruverslana. Þegar engifer er gert að fæðubótarefni eru virku efni engifersins dregin úr því og skilin frá trefjum og öðrum uppistöðuefnum rótarinnar. Það ferli getur leitt til þess að styrkur lífvirkra efna engifers í töfluformi er mun meiri en í rótinni sjálfri eða því magni sem fæst ef hún er t.d. soðin og það er ekki endilega alltaf gott.
„Almennt er rosalega mikill munur á því þegar fólk borðar kryddjurtir eða einhverja svona rætur eða matvöru. Þá eru efni yfirleitt ekki í þeim styrk að maður hafi jafnmiklar áhyggjur af því. En þegar þetta er komið í form fæðubótarefnis er styrkurinn miklu meiri. Og það er ekkert að því en þegar fólk er að taka of mikið af fæðubótarefnum þá erum við komin upp í skammta sem gætu haft eitrunaráhrif,“ segir Þórhallur.
Verið að fylgja eftir rannsóknum á nagdýrum
Ástæðan fyrir því að ráðist er í rannsóknina er m.a. sú að það liggja fyrir nokkrar rannsóknir um áhrif engifers á nagdýr sem benda til þess að of stórir skammtar af engiferfæðubótarefni valdi fósturláti í dýrunum. „Það er ekki þar með sagt að það hafi skaðleg áhrif á menn, rottur eru ekki menn,“ bendir Þórhallur á og undirstrikar að það sé óþarfi fyrir fólk að verða hrætt við að taka engifer út frá rannsóknarniðurstöðum sem tengjast nagdýrum. Hins vegar sé mikilvægt að fylgja slíkum niðurstöðum eftir og kanna hvort sambærileg áhætta sé til staðar fyrir konur.
Rannsóknin er gerð í samstarfi við danska sérfræðinga og er notast við gagnabanka sem hefur verið í mótun síðan árið 2000. Þar eru meðal annars gögn um 100 þúsund þungaðar konur, þar af 300 konur sem hafa tekið töluvert magn af engifer á meðgöngu. Skoðað er hversu langan tíma það tók konurnar að verða þungaðar og hvort sá tími hafi verið annar hjá konum sem notuðu engifer sem fæðubótarefni en þeim sem gerðu það ekki. Einnig er kannað hvort að munur sé á hópunum með tilliti til þess hversu langan tíma það tók fyrir konurnar að verða aftur þungaðar.