
Það vakti mikla athygli þegar þrjár konur röðuðu sér í efstu sætin í kjöri íþróttamanns ársins 2024 skömmu fyrir áramót en slíkt hefur aldrei gerst áður. Í hópi þessara brautryðjendakvenna var Eygló Fanndal Sturludóttir, sem keppir í ólympískum lyftingum en samhliða því stundar hún nám í læknisfræði við Háskóla Íslands. Eygló, sem er margfaldur Íslands- og Norðurlandameistari og Evrópumeistari ungmenna undir 23 ára í greininni, segir að merkilega vel gangi að samræma nám og afreksmennsku í íþróttum og stefnir ótrauð á Ólympíuleikana í Los Angeles 2028 og jafnvel líka í Brisbane í Ástralíu 2032.
Eygló varð í 3. sæti í kjöri íþróttamanns ársins 2024 á eftir þeim Sóleyju Margréti Jónsdóttur kraftlyftingakonu og Glódísi Perlu Viggósdóttur knattspyrnukonu sem sigraði í kjörinu. Eygló var jafnframt valin lyftingakona ársins af Lyftingasambandi Íslands og Íþróttakona Reykjavíkur.