
Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við næringarfræði í Háskóla Íslands og deildarstjóri næringarstofu Landspítala, tók við viðurkenningu sem heiðursvísindamaður Landspítala 2023 á uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala, Vísindum á vordögum, í gær. Við saman tilefni var Poorya Foroutan Pajoohian, doktorsnemi við Háskóla Íslands, útnefndur ungur vísindamaður Landspítala 2023 og þá hlaut Sædís Sævarsdóttir, prófessor og varadeildarforseti Læknadeildar Háskóla Íslands, einn hæsta styrk sem veittur er árlega fyrir vísindastörf hér á landi.
Landspítalinn, sem er ein helsta samstarfsstofnun Háskóla Íslands, hefur haldið uppskeruhátíðina Vísindi á vordögum um árabil. Markmið hennar er auka sýnileika umfangsmikils vísindastarfs á Landspítala, heiðra framúrskarandi vísindafólk og veita fjölda verðlauna og styrkja.
Ingibjörg Gunnarsdóttir, sem tekur í sumar við starfi aðstoðarrektors vísinda við HÍ, var að þessu sinni útnefnd heiðursvísindamaður Landspítala 2023 fyrir framúrskarandi framlag til vísinda á ferli sínum. Ingibjörg hefur verið deildarstjóri næringarstofu Landspítala frá árinu 2013 og veitt Rannsóknastofu í næringarfræði við Landspítala og Háskóla Íslands forstöðu samhliða störfum sem prófessor við HÍ. Hún hefur hefur komið að fjölbreyttum rannsóknum á sviði næringarfræði og hefur síðasta áratug helgað sig rannsóknum á næringarástandi viðkvæmra hópa með megináherslu á barnshafandi konur. Ingibjörg hefur hlotið bæði innlenda og erlenda rannsóknarstyrki, er virk í alþjóðlegu samstarfi og höfundur yfir 100 vísindagreina sem birtar hafa verið í alþjóðlegum vísindatímaritum sem gera strangar fræðilegar kröfur.