
Um þessar mundir eru 50 ár síðan kennsla hófst við námsbraut í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og verður því fagnað með glæsilegri hátíð föstudaginn 29. september í Aðalbyggingu skólans. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan námið var sett á laggirnar og í dag menntar Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild nemendur til fjölbreyttra starfa innan heilbrigðiskerfisins eins og þær Sóley S. Bender, prófessor emerita og nemandi í fyrsta árgangi hjúkrunarfræðinámsins, og Lovísa Snorradóttir, nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur frá HÍ, ræða nánar hér að neðan.
Nám í hjúkrunarfræði hófst við Háskóla Íslands haustið 1973 en áður hafði hjúkrunarfræði verið kennd við Hjúkrunarskóla Íslands og gerði það reyndar fram til ársins 1986 þegar sá skóli var lagður niður. Fram kemur í aldarsögu Háskóla Íslands að námsbrautin hafi fyrst um sinn lotið bráðabirgðastjórn og heyrt undir Læknadeild. Engir fastráðnir kennarar voru fyrstu árin og var námsbrautin í raun rekin af hugsjónafólki sem var jafnframt í fullu starfi utan skólans.
Árið 1976 tók Ingibjörg R. Magnúsdóttir við stöðu námsbrautarstjóra og ári síðar varð Marga Thome fyrsti fastráðni kennarinn þegar hún var ráðin lektor í hjúkrunarfræði. Við þróun námsbrautarinnar, gerð námskrár og kennslu þessi fyrstu ár var jafnframt leitað stuðnings frá sérfræðingum frá Bandaríkjunum og Kanada auk þess sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin veitti mikilvægan stuðning.
Framan af átti greinin sér ekki samastað nærri háskólasvæðinu en frá árinu 1986 hefur Eirberg, sem áður hýsti Hjúkrunarskóla Íslands, verið aðsetur hjúkrunarfræðinnar á Landspítalalóðinni þar sem finna má skrifstofur, aðstöðu nemenda og kennsluaðstöðu með ört stækkandi færni- og hermisetri.
Afar góður grunnur lagður í upphafi
Tuttugu og fimm konur voru í fyrsta hópnum sem hóf nám í hjúkrunarfræði við HÍ haustið 1973 og í þeirra hópi var Sóley S. Bender sem er meðal þeirra sem taka til máls á afmælishátíðinni. Hún átti síðar eftir að starfa um áratugaskeið við Háskólann sem kennari og vísindamaður en upphaflega stefndi hugur hennar annað. „Við vorum nokkrar úr mínum bekk í Menntaskólanum í Reykjavík sem höfðum áhrif hvor á aðra. Ég var reyndar búin að ætla mér að fara í sjúkraþjálfun í Noregi og til að undirbúa mig undir það vann ég á Grensásdeild Borgarspítalans allt sumarið 1973. Þar kynntist ég erfiðum aðstæðum fólks eftir veikindi eða slys sem þurfti á endurhæfingu að halda,“ segir Sóley um ástæður þess að hún valdi hjúkrunarfræði á sínum tíma.