
„Byltur eru lýðheilsuvandi meðal eldri einstaklinga um allan heim þar sem hættan á alvarlegum afleiðingum eftir byltu er mest í þessum hópi og þörfin fyrir markvisst og gagnreynt byltuvarnarstarf er því aðkallandi. Markmið byltuvarna er að fækka þeim sem detta, draga úr tíðni bylta og alvarlegum afleiðingum þeirra,“ segir Sólveig Ása Árnadóttir, prófessor í sjúkraþjálfunarfræði, sem rýnir þessi misserin í reynslu eldra fólks af byltum með það fyrir augum að leggja til markvissari forvarnir og þjónustu í tengslum við byltur hjá þessum aldurshópi. Fyrstu niðurstöður hennar og rannsóknarhópsins sýna m.a. að karlar eru líklegir til að gera lítið úr byltunum og vilja síður ræða um þá reynslu.
Sólveig Ása hefur í starfi sínu lagt áherslu á að rannsaka líkamlega færni og fötlun, sjálfsbjargargetu og lífsgæði eldra fólks sem býr heima. „Byltur og hræðsla við að detta eru afar mikilvægir þættir sem tengjast þessum málum. Ég hef verulegan áhuga á rannsaka hvernig umhverfistengdar áskoranir hafa þarna áhrif, til að mynda það að búa í dreifðari byggðum lands þar sem huga þarf að áhrifaþáttum eins og náttúru, veðurfari og aðgengi að þjónustu,“ segir Sólveig.
Skortur á rannsóknum á byltum
Hún bendir enn fremur á að rannsóknir á tíðni og faraldsfræði bylta hér á landi séu takmarkaðar „og um allan heim er kallað eftir rannsóknum sem undirbyggja gagnreyndar byltuvarnir fyrir eldri einstaklinga. Á Íslandi og víðar vantar meiri þekkingu á heilsu og færni eldri einstaklinga. Meðal annars þarf meiri upplýsingar um þá sem búa við krefjandi umhverfisaðstæður, eins og í dreifðari byggðum þar sem þjónusta er takmörkuð.“
Segja má að rannsóknarverkefnið sem Sólveig vinnur að þessa dagana sé tvíþætt. Annars vegar rannsakaði hún, ásamt meistaranemunum Ingibjörgu V. Hafsteinsdóttur og Ingunni K. Jónsdóttur, byltur hjá einstaklingum sem eru með öryggishnapp. Gögnin komu úr skráningarkerfi Öryggismiðstöðvarinnar (ÖM) og frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) á tólf mánaða tímabili 2019-2020 og rýnt var í aðstæður, afleiðingar og viðbrögð við byltunum. Hins vegar er eigindleg rannsókn í gangi þar sem meistaranemarnir Bergrún Gestsdóttir og Lilja D. Erlingsdóttir hafa á síðustu mánuðum rætt við eldri borgara í sjálfstæðri búsetu í þéttbýli, um reynslu þeirra af byltum. Til þessa hefur rannsóknarverkefnið jafnframt byggt á mikilvægu samstarfi við starfsfólk hjá ÖM, SÍ og ýmsa tengiliði á höfuðborgarsvæðinu og innan heilbrigðisumdæmis Suðurlands.
Eldra fólk segir ekki frá byltum
Rannsóknir sem þessar geta að sögn Sólveigar reynst flóknar enda erfitt að afla gagna sem lýsa öllum byltum í lífi einstaklings. „Til dæmis er talsvert um að eldra fólk og umönnunaraðilar segi ekki frá byltum. Orsakirnar eru margvíslegar, allt frá því að gleyma byltunni, þar sem hún þótti ekkert tiltökumál, yfir í það að hylma viljandi yfir atburðinum vegna hræðslu við að glata sjálfstæði sínu, í tengslum við skömm yfir því að ná ekki að spjara sig eða að hafa ekki sinnt umönnunarhlutverki sem skyldi. Markmiðið með eigindlegum rannsóknum á þessu sviði er meðal annars það að skilja aðstæður þeirra sem lenda í því að detta og nýta þann skilning til að byggja undir markvissari forvarnir og þjónustu,“ bendir hún á.
Aðspurð segir Sólveig að kveikjan að verkefninu tengist alþjóðlegum rannsóknarniðurstöðum á þessu sviði og nýlegum heimsleiðbeiningum um byltur og byltuvarnir á meðal eldri einstaklinga. Sjálf hefur hún einnig unnið rannsóknir á þessu sviði sem náði til bylta eldra fólks á Norðurlandi á árunum 2004 og 2018. „Í fyrri rannsókninni var áhugavert að sjá hvernig byltutíðni meðal 65 ára og eldri Norðlendinga var afar keimlík því sem komið hefur fram í fjölmörgum erlendum rannsóknum á eldri einstaklingum sem bjuggu heima. 32% sögðu frá að minnsta kosti einni byltu, 11% höfðu dottið oftar en einu sinni á liðnu ári og tíðni bylta var hærri meðal kvenna en karla. Í seinni rannsókninni á sama landsvæði reyndust byltur hins vegar tíðari meðal eldri karla en kvenna. Sérstaka athygli vakti að hæsta tíðnin var meðal eldri karla sem bjuggu í dreifbýli en 47% þeirra höfðu dottið að minnsta kosti einu sinni og 31% oftar en einu sinni á liðnu ári,“ segir Sólveig um þessar fyrri niðurstöður sínar.