Vilmundur sæmdur fálkaorðunni á nýársdag
Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á nýársdag. Vilmundur var í hópi fjórtán einstaklinga sem hlutu viðurkenninguna að þessu sinni.
Vilmundur hlýtur riddarakrossinn fyrir framlag til rannsókna og forvarna á sviði hjarta- og æðasjúkdóma.
Vilmundur lauk námi í læknisfræði við Háskóla Íslands 1985 og doktorsnámi í sameindaerfðafræði við University College London 1995. Hann hefur starfað sem forstöðulæknir Hjartaverndar í yfir tvo áratugi og jafnframt verið prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands með áherslu á erfðir hjarta- og æðasjúkdóma. Þá hefur hann verið gestavísindamaður við Centre for Cardiovascular Genetics hjá Royal Free og University College í London og hjá Institute of Public Health við Háskólann í Cambridge.
Eins og fram kemur á Vísindavefnum hafa rannsóknir Vilmundar fyrst og fremst verið á sviði faraldsfræði og erfðafaraldsfræði. Hann hefur m.a. stýrt tveimur umfangsmiklum rannsóknum hér á landi, annars vegar Öldrunarrannsókn Hjartaverndar (AGES Reykjavik study), sem er ein af ítarlegustu rannsóknum á öldrun og áhrifaþáttum sjúkdóma og heilbrigðis þegar aldur færist yfir, og hins vegar Áhættuþáttakönnun Hjartaverndar (REFINE Reykjavik study).
Þá hefur Vilmundur tekið virkan þátt í alþjóðlegu vísindasamstarfi og komið að mikilvægum uppgötvunum á tilurð og þróun hjarta- og æðasjúkdóma og annarra krónískra sjúkdóma. Auk þessa hefur Vilmundur leiðbeint fjölda nemenda í meistara- og doktorsnámi, bæði hér á landi og erlendis.
Vilmundur er höfundur að hundruðum vísindagreina sem birst hafa í virtum vísindatímaritum eins og Nature, Science, Cell, Nature genetics, JAMA, NEJM og Lancet svo nokkur séu nefnd. Þá hefur hann verið á lista Clarivate yfir þá vísindamenn heims sem oftast hefur verið vitnað í.
Vilmundur hefur fengið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín, þar á meðal heiðursverðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright og Nikkilä-minningarverðlaun Scandinavian Society for Atherosclerosis.
Vilmundur Guðnason ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, við afhendingu riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu. MYND/Forsetaembættið