COVID-19

Image
""

COVID-19

Starfsfólk og nemendur við Heilbrigðisvísindasvið hafa lagt sitt af mörkum í COVID-19 heimsfaraldrinum. Hér má sjá dæmi um nokkur verkefnanna.

„Þegar COVID-19 faraldurinn hófst á Íslandi þá sáum við mikla hækkun í bólguboðefninu IL-6 hjá einstaklingum sem veiktust alvarlega af COVID-19. Boðefni, eða cytokine eins og það er kallað á ensku, eru lítil prótein sem frumur ónæmiskerfisins seyta sem hafa áhrif á aðrar frumur í nær- og fjærumhverfi.“

Þetta segir Siggeir Fannar Brynjólfsson, lektor við Læknadeild HÍ, en hann er einn fjölmargra vísindamanna við Háskólann sem vinnur nú að rannsóknum sem tengjast COVID-19. Markmið rannsóknar Siggeirs og vísindafélaga hans er að kanna hvort samband sé á milli magns bólguboðefna í blóði og sjúkdómsferils hjá einstaklingum sem veikst hafa af COVID-19. „Við viljum einnig kanna hvort að það séu einhver tengsl á milli langtíma COVID-19 einkenna og seytingu bólguboðefnanna.“

COVID-rannsókn Siggeirs og samstarfsfólks er lítið púsl í stærra heildarspili sem vísindamenn við Læknadeild HÍ vinna nú að ásamt samstarfsfólki sínu við ónæmisfræðideild, sýkla- og veirufræðideild og smitsjúkdómadeild á Landspítala auk þess sem vísindamenn við Blóðbankann eru í teyminu. Nánar má lesa um þessar rannsóknir hér, í frétt á vef Háskóla Íslands.

Rannsaka þarf betur áhrif COVID-19-sýkinga á hjarta- og æðakerfið hjá konum og körlum þar sem ýmislegt bendir til að finna megi þar kyntengdan mun á áhrifum sjúkdómsins. Þetta segir Georgios Kararigas, prófessor í lífeðlisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands, í ritstjórnargrein sem birtist í Physiological Reviews, virtu vísindatímariti á sviði lífeðlisfræði í október 2021.

Kararigas hefur í vísindastörfum sínum lagt áherslu á að kyntengdan mun í lífeðlisfræði og sjúkdómum tengdum hjarta- og æðakerfinu. Í greininni í Physiological Reviews dregur Kararigas saman ýmsar rannsóknir og athuganir á þeim áhrifum sem vitað er að kórónuveiran hefur á líkamann, með sérstaka áherslu á hjarta- og æðakerfi, en eins og kunnugt er hafa áhrif COVID-19 á sjúklinga reynst misalvarleg, allt frá vægum einkennum til dauða.

Ritstjórnargreinin er aðgengileg á vef Physiological Reviews.

Vísbendingar eru um að andleg líðan fólks í kórónuveirufaraldrinum sveiflist að einhverju leyti með nýgengi COVID-19-smita. Þetta sýna fyrstu niðurstöður COVIDMENT-rannóknarverkefnisins sem nær til nærri 400 þúsund manns í sex löndum og er unnið undir forystu vísindamanna við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Sagt er frá niðurstöðunum í grein í nýjustu útgáfu vísindatímaritsins International Journal of Epidemiology sem kom út í vikunni.

Rannsóknahópurinn vinnur núna að fleiri spennandi verkefnum, t.d. um möguleg langtímaáhrif COVID-19 á geðheilsu, hugræn áhrif vegna COVID-19, áhrif COVID-19 á geðheilsu heilbrigðisstarfsfólks, nánustu aðstandendur smitaðra og þeirra sem hafa upplifað tekjumissi vegna faraldursins, áhrif lögboðinna samkomutakmarkana, viðhorf gagnvart bólusetningu gegn COVID-19 o.fl. „Þessar niðurstöður eru mikilvægar því þær auka þekkingu á langtímaáhrifum COVID-19 á geðheilsu almennings en einnig geta þær nýst í viðbrögðum við mögulegum framtíðarfaröldrum,“ segir Anna Bára Unnarsdóttir, verkefnisstjóri og doktorsnemi við Miðstöð í lýðheilsuvísindum og fyrsti höfundur vísindagreinarinnar. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði, leiðir COVIDMENT-rannsóknarverkefnið.

Greinina má nálgast á vef International Journal of Epidemiology og nánari upplýsingar um rannsóknarverkefnið og aðstandendur þess má finna á vef þess. Fréttina má lesa í heild hér, á vef Háskóla Íslands.

Rannsóknir á þróun COVID-19 faraldursins hér á landi og í öðrum löndum gera vísindamönnum kleift að setja fram spá um frekari þróun hans á Íslandi. Sóttvarnarlæknir kallaði því saman vísindamenn frá Háskóla Íslands, Embætti Landlæknis og Landspítala til að gera spálíkan um líklega þróun sem gæti nýst við ákvarðanatöku um viðbrögð og skipulag heilbrigðisþjónustu.

Fyrstu niðurstöður spálíkansins voru kynntar á fundi með Almannavörnum 18. mars. Þar var sett fram spá um fjölda greindra tilfella, hvenær flest tilfelli munu greinast og álag á heilbrigðiskerfið.

Á vefsíðu verkefnsins er sett fram spá um fjölda greindra tilfella, hvenær mest af tilfellum hafa verið greind og spá um álag á heilbrigðiskerfið.

Vefsíðan var unnin af Brynjólfi Gauta Jónssyni doktorsnema í líftölfræði og starfsmanni við Tölfræðiráðgjöf Heilbrigðisvísindastofnunar.

Aðrir vísindamenn sem unnið hafa með Brynjólfi eru Thor Aspelund prófessor og forstöðumaður Tölfræðiráðgjafarinnar, Unnur Anna Valdimarsdóttir prófessor Jóhanna Jakobsdóttir rannsóknasérfræðingur, öll við Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands, Birgir Hrafnkelsson  prófessor og Þórarinn Jónmundsson meistaranemi  í tölfræði, báðir við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, Sigríður Haraldsdóttir sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá Embætti landlæknis og Jón Magnús Jóhannesson deildarlæknir á LSH.

Þeir Brynjólfur og Thor eru einnig tengdir Rannsóknarstöð Hjartaverndar.

Meira um verkefnið á http://covid.hi.is 

Stór hópur fræðikvenna á sviði hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala komur að viðamiklu rannsóknaverkefni sem kannar afdrif þeirra sem smitast af COVID-19. Verkefninu er einnig ætlað að varpa ljósi á uppbyggingu heilbrigiðsþjónustu við þennan hóp á Landspítala.

Rannsókn sem þessi hefur gríðarmikla þýðingu fyrir íslenskt samfélag þar sem hún veitir í senn verðmæta vitneskju um hvernig best er að standa að viðbrögðum við heimsfaraldri um leið og hún varpar ljósi á stöðu þeirra sem fyrir veikindunum verða.

Verkefninu er stýrt af Helgu Jónsdóttur, prófessor við Hjúkrunarfræðideild og forstöðumaður hjúkrunar langveikra fullorðinna á Landspítalanum. Auk Helgu koma m.a. þær Brynja Ingadóttir, Sigríður Zoega, Elín J.G. Hafsteinsdóttir og Katrín Blöndal að rannsókninni.

Sjá frétt um rannsóknina á vef Háskólans.

Nemendur á Heilbrigðisvísindasviði aðstoðuðu smitrakningateymi Almannavarna og Sóttvarnalæknis við að hringja í fólk sem á að vera í sóttkví og veita því leiðbeiningar.

Almannavarnir höfðu samband við Heilbrigðisvísindasvið eftir að sviðsforseti hafði boðið landlækni aðstoð. Sviðið auglýsti í framhaldinu eftir nemendum til þessara starfa og fljótlega voru hátt í 130 nöfn nemenda komin á lista.

Nemendur höfðu það hlutverk að hringja í einstaklinga sem hafa komið með flugi í gegnum Keflavíkurflugvöll. Farþegarnir höfðu fengið tölvupóst frá sóttvarnalækni og sjálfvirk SMS-skilaboð en það þótti ástæða til þess að fylgja því eftir með hringingu. Í símtalinu var spurt um heilsu og líðan og ef óskað er eftir því eru veittar leiðbeiningar um hvernig skuli haga sér í sóttkví.

Lesa meira um verkefnið

Vísindamenn Háskóla Íslands hafa í samstarfi við Embætti landlæknis og sóttvarnarlæknis hrundið af stað vísindarannsókninni Líðan þjóðar á tímum COVID-19.

Markmiðið er að afla sem mestrar þekkingar á áhrifum faraldursins á líðan og lífsgæði landsmanna til þess m.a. að geta í framtíðinni brugðist enn betur við áhrifum samfélagslegra áfalla á borð við heimsfaraldur. Öllum einstaklingum eldri en 18 ára sem hafa rafræn skilríki eða Íslykil er boðið að taka þátt í rannsókninni á vefsíðunni lidanicovid.is.

Ætlunin er m.a. að skoða hvaða áhrif kórónuveirufaldurinn hefur á einkenni streitu, sálræna líðan og almennan lífsstíl landsmanna en jafnframt að kanna hvort saga um sjúkdóma og aðra áhættuþætti, hugsanleg eða staðfest COVID-19-smit tengist verri líðan og lífsgæðum. Mikilvægt er einnig að kortleggja hvaða þættir hafa stutt við góða líðan og heilsufar einstaklinga og fjölskyldna á þessum óvissutímum. Þá vonast vísindahópurinn til þess að varpa ljósi á það hvort sterk streituviðbrögð á tímum COVID-19 hafi víðtækari áhrif á heilsufar til lengri tíma. Öll þessi vitneskja er mikilvæg yfirvöldum og getur nýst við skipulag heilbrigðisþjónustu og almannavarna á tímum samfélagslegra áfalla á borð við heimsfaraldur COVID-19.

Arna Hauksdóttir og Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessorar í lýðheilsuvísindum, eru í forystusveit rannsóknarinnar.

Meira um rannsóknina á lidanicovid.is