
Félag háskólakvenna hefur valið dr. Unni Þorsteinsdóttur, forseta Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og framkvæmdastjóra hjá Íslenskri erfðagreiningu, háskólakonu ársins 2022. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhenti Unni viðurkenningu af því tilefni við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands í gær. Þetta er í sjötta sinn sem Félag háskólakvenna stendur fyrir valinu.
Félag háskólamenntaðra kvenna og kvenstúdenta var stofnað árið 1928. Óhætt að fullyrða að margt hafi breyst í menntunarmálum landsmanna á þessum 95 árum og að staða háskólakvenna er í dag allt önnur en hún var við stofnun félagsins. Stofnfélagar voru aðeins fimm og segir það nokkuð til um hversu fáar konur höfðu þá lagt í langskólanám. Staðan er gjörbreytt og konur eru nú í meirihluta háskólanema og þeirra sem brautskrást frá háskólum hér á landi. Margar þeirra hafa náð afar langt á sínum fræðasviðum og unnið ótal áfangasigra. Ekki rata þó öll verk þeirra fyrir augu almennings en margar konur eru að sinna brautryðjendastarfi innan háskólanna.
Með því að velja háskólakonu ársins, líkt og gert hefur verið frá árinu 2017, vill stjórn Félags háskólakvenna vekja athygli á ólíkum störfum og afrekum félagskvenna sinna, en þær eru nú um 300 talsins, svo það megi verða öðrum konum hvatning og innblástur. Við val á háskólakonu ársins var leitað til fjölmargra aðila, m.a. rektora allra háskóla hérlendis, og þau beðin að tilnefna konur sem að þeirra mati eru í fararbroddi á sviði. Þá var einnig leitað til félagskvenna. Fjölmargar tilnefningar bárust um konur sem þykja hafa skarað hafa fram úr á sínu fagsviði og verið öðrum háskólakonum góðar fyrirmyndir.
Ásta Dís Óladóttir, formaður félagsins, sagði við afhendingu viðurkenningarinnar að það hefði að lokum verið samdóma álit stjórnar Félags háskólakvenna að velja Unni Þorsteinsdóttur háskólakonu ársins 2022.