Tvíburarannsókn varpar nýju ljósi á áhrif áfalla í æsku á geðheilsu
Ný rannsókn vísindafólks í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og Karolinska Institutet í Stokkhólmi sýnir að áhrif áfalla í æsku á þróun geðraskana á fullorðinsárum er óháð fjölskyldutengdum þáttum, eins og erfðum og umhverfi í uppvexti. Sagt er frá niðurstöðum þeirra í nýjustu útgáfu vísindatímaritsins JAMA Psychiatry.
Fyrri rannsóknir hafa leitt í ljós að fólk sem hefur upplifað ýmiss konar áföll í æsku sé í aukinni hættu á að þróa með sér geðraskanir á fullorðinsárum. Til þess að varpa frekara ljósi á slíka áhættu ákvað hópurinn, sem stendur á bak við rannsóknina í JAMA Psychiatry, að nýta gögn úr svokallaðri Tvíburaskrá Svíþjóðar sem hefur að geyma svör yfir 25.000 tvíbura við ýmsum spurningum sem snerta áföll í æsku. Þar er m.a. átt við líkamlega og andlega vanrækslu, andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi, nauðgun og hatursglæpi. Upplýsingar um síðari greiningu á geðröskunum voru fengnar úr sænsku sjúkraskránni.
„Það er auðvitað mjög erfitt að svara þessum spurningum en þetta er besta gagnasafn sem við höfum aðgang að,“ segir Hilda Björk Daníelsdóttir, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og fyrsti höfundur greinarinnar, sem dvalið hefur sem gestadoktorsnemi við Institute of Environmental Medicine við Karolinska Institutet í Svíþjóð. Hilda starfar innan vísindahóps Unnar Valdimarsdóttur, prófessors í lýðheilsuvísindum, sem starfar bæði við Háskóla Íslands og Karolinska Institutet og hefur hlotið veglega styrki til rannsókna sinna, m.a. eftirsóttan styrk frá Evrópska rannsóknaráðinu (ERC).
Með því að nýta ofangreind gögn gafst færi á að finna þá tvíbura sem ólust upp saman en greindu frá ólíkri upplifun af ofbeldi í æsku og kanna hvernig þeim hefði reitt af á fullorðinsárum. Út frá þessum upplýsingum gátu vísindamennirnir greint hversu stóran hluta aukinnar hættu á geðröskunum á fullorðinsárum mætti skýra með áföllunum sjálfum og hversu stóran með erfðum og öðru umhverfi í æsku.
„Í fæstum fyrri rannsóknum á áhrifum áfalla í æsku á geðheilsu síðar á ævinni hefur verið hægt að horfa til þessara þátta. Okkar niðurstöður sýna hins vegar að sá tvíburi sem hafði orðið fyrir áfalli í æsku var líklegri til þess að þróa með sér geðröskun á fullorðinsárum miðað við þann tvíbura sem hafði ekki upplifað slíkt áfall – með þessu gátum við útilokað þátt erfða og annarra fjölskyldutengdra þátta,“ segir Hilda.
Niðurstöðurnar sýna enn fremur að því fleiri sem áföllin eru í æsku þeim mun meiri er hættan á að greinast með geðsjúkdóm síðar á ævinni. Þá sýna niðurstöður að þau sem orðið höfðu fyrir kynferðisofbeldi og nauðgun eða fyrir þremur eða fleiri tegundum áfalla í æsku væru líklegust til að glíma við geðraskanir á fullorðinsárum. Aðstandendur rannsóknarinnar segja þetta mikilvægar upplýsingar, ekki síst fyrir þau sem vinna með börnum í viðkvæmri stöðu og fjölskyldum þeirra.
„Ég vonast til að rannsóknin opni augu fólks fyrir því hvaða áhrif aðstæður í æsku geta mögulega haft á geðraskanir á fullorðinsárum og hvernig er best að takast á við þær,“ segir Hilda.
Greinina í JAMA Psychiatry má lesa hér.
„Ég vonast til að rannsóknin opni augu fólks fyrir því hvaða áhrif aðstæður í æsku geta mögulega haft á geðraskanir á fullorðinsárum og hvernig er best að takast á við þær,“ segir Hilda. MYND/Kristinn Ingvarsson