Samkomulag um sókn í heilbrigðisvísindum, félagsráðgjöf og STEM-greinum
Háskóli Íslands fær yfir 500 milljónir króna til að fjölga nemendum í heilbrigðisvísindum, félagsráðgjöf og STEM-greinum, þ.e. vísinda- og tæknigreinum, verkfræði og stærðfræði. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu samkomulag þessa efnis í Hátíðasal Háskóla Íslands í gær.
„Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum sem mikilvægt er að háskólarnir taki þátt í að mæta. Til þess að stuðla að lausnum við fjölbreyttum samfélagslegum áskorunum höfum við forgangsraðað fjármunum þannig að hægt sé að fylgja eftir þeim markmiðum sem við höfum sett og eru samfélaginu mikilvæg,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Fjölgun lækna- og hjúkrunarfræðinema og félagsráðgjafarnema
Mikilvægt er að bæta heilbrigðisþjónustu og aðgengi að henni. Ljóst er að til að það geti gerst er nauðsynlegt að útskrifa mun fleiri nemendur í heilbrigðisvísindum. Í því skyni gera háskólaráðuneytið og HÍ samkomulag um að fjölga bæði nemendum og námsleiðum á Heilbrigðisvísindasviði og við Félagsráðgjafardeild.
Áætlað er að fjölga nemendum í læknisfræði úr 60 í 75 árið 2024 og svo upp í 90 nemendur í áföngum til ársins 2028. Jafnframt er stefnt að fjölgun nemenda í hjúkrunarfræði úr 120 í 150 frá og með haustinu 2025. Þar að auki verði boðið upp á nýtt diplómanám í vímuefnaráðgjöf frá og með næsta skólaári.
Alls verður 250 m.kr. ráðstafað í eflingu Heilbrigðisvísindasviðs í þessu skyni og 54 m.kr. í fjölgun nemenda til starfsréttinda í félagsráðgjöf úr 40 í 60 haustið 2024.
Sérstakt átak á sviði STEM-greina
Til að mæta skorti á fjölda sérfræðinga í tækni- og verkfræðigreinum, m.a. í hugverkaiðnaði, gera háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðneytið og HÍ enn fremur með sér samkomulag um aðgerðir sem eiga að leiða til fjölgunar nemenda á Verkfræði- og náttúruvísindasviði skólans.
Ráðist verður í aðgerðir til að minnka brottfall á sviðinu og í því skyni verður sérstök áhersla lögð á bætta móttöku nemenda á fyrsta ári. Þá verður dæmatímakennurum fjölgað og yfirferð náms á fyrsta ári endurskoðuð. Jafnframt verður ráðist í sérstakt átak sem hefur það að markmiði að fjölga nemendum á sviðinu. Byggð verður brú á milli Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og Menntavísindasviðs í þeim tilgangi að fjölga verulega kennurum í STEM-greinum með áherslu á raungreinakennara á grunnskólastigi. Samtals verður 250 m.kr. varið til þessa verkefnis.
Samkomulagið er þegar fjármagnað af safnlið háskóla og því er ekki um viðbótarútgjöld að ræða.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Jón Atli Benediktsson handsala samningana í Hátíðasal. MYND/Kristinn Ingvarsson