Ráðavefurinn, sem hefur verið í undirbúningi frá árinu 2008, er nú loksins aðgengilegur. Á Ráðavefnum geta þeir sem vinna náið með börnum fundið ráð við ýmsum áskorunum eins og til dæmis vanvirkni, mótþróa, andfélagslega hegðun o.s.frv. Vefurinn inniheldur sem stendur 120 ráð og eru þau öll auðlesin og fylgja oft dæmi um notkun þeirra. Einnig er fræðsluefni á vefnum sem má lesa sér til gagns og gamans.
Tilgangurinn með Ráðavefnum er að draga úr aðlögunarvanda í skólaumhverfi og bæta þannig líðan nemenda og starfsfólks. Betra skólaumhverfi stuðlar að bættum námsárangri og félagsfærni nemenda. Ráðavefurinn er góður staður til að byrja leit að lausnum áður en hjálp frá fagfólki berst. Ráðavefurinn kemur ekki í staðinn fyrir aðstoð fagmanna en oft er bið eftir aðstoð eða aðstoðin of fjarlæg. Að fylgja ráðum sem þar finnast getur leyst margan vanda. Vefurinn hefur þegar verið prófaður í rannsóknum með þátttöku bæði leikskóla- og grunnskólastarfsfólks. Niðurstöður bentu til árangurs og ánægju þátttakenda. Notendum fannst auðvelt að finna viðeigandi ráð, nota ráðin og breyta hegðuninni sem þeir voru að kljást við. Vefurinn verður prófaður áfram. Skólar greiða fyrir aðgang að Ráðavefnum og gefa upplýsingar um hversu margir starfsmenn munu nota hann og borga eftir því fyrir ársáskrift sem hægt er að endurnýja að ári liðnu. Ársgjöldin eru nýtt til að bæta vefinn og þjónusta notendur.
Ábyrgðarmaður vefsins er Zuilma Gabriela Sigurðardóttir, prófessor í sálfræði og atferlisgreiningu og Júlía Hafþórsdóttir, MS í sálfræði hefur umsjón með vefnum. Þeir sem hafa áhuga á að athuga málið betur geta nú ýtt hér og skoðað vefinn nánar, séð hvaða ráð og fræðsluefni er á vefnum og athugað gjaldflokka o.fl.