Fjórir starfsmenn Háskóla Íslands hlutu á dögunum viðurkenningu fyrir lofsvert framlag í starfi við skólann á sviði kennslu, rannsókna, jafnréttismála og annarra starfa. Viðurkenningarnar voru afhentar á upplýsingafundi rektors fyrir starfsfólk. 

Einn af þeim sem fengu viðurkenningu að þessu sinni er Pétur Henry Petersen, prófessor við Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, en hann hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu. Hann lauk doktorsprófi í sameindalíffræði og taugavísindum frá Yale-háskóla í Connecticut í Bandaríkjunum og var ráðinn lektor við Háskóla Íslands 2009, dósent 2012 og prófessor 2020. 

„Pétur Henry hefur verið mjög virkur í margvíslegri kennsluþróun á undanförnum árum. Hann hefur beitt sér í umræðu um kennslumál á vettvangi Læknadeildar og Heilbrigðisvísindasviðs, hefur unnið að innleiðingu kennsluforrita og setið í kennsluráði og kennslumálanefnd sviðsins. Hann hefur einnig lagt sig sérstaklega eftir fræðilegri hlið kennslunnar og hefur lagt stund á nám í kennslufræði fyrir háskólakennara sem hefur eflt hann til kennsluþróunar.  Pétur hefur haft frumkvæði að breytingum á námi læknanema og annarra heilbrigðisvísindanema og m.a. þróað nýjar leiðir til að virkja nemendur í námi sínu. Hann hefur tekið þátt í þróun lausnaleitarnáms (e. problem based learning) í Læknadeild í því skyni að tengja það betur við grunngreinar og almenna þætti í þjálfun læknanema. Slík kennsla er mjög nemendamiðuð og eflir færni nemenda í að samþætta nám sitt,“ segir m.a. í umsögn valnefndar um Pétur Henry.

Þá er bent á að Pétur Henry hafi lagt sig fram um að tengja kennsluna við framtíðarstarf nemenda enda hafi þeir jafnan mikinn áhuga á klínískum tengingum þótt oft reynist örðugt að koma til móts við það í grunnnámi. „Loks hefur Pétur Henry gert tilraunir með fjölbreyttara námsmat en almennt tíðkast með því að byggja á verkefnum fremur en lokaprófi og með því að nota einkunnina staðið/fallið í stað tölulegrar lokaeinkunnar sem beinir sjónum frekar að inntaki námsins og þýðingu þess. Slíkar og aðrar breytingar hvetja í sjálfu sér til umræðu um kennslumál og hvernig best megi tryggja gæði menntunar. Í stuttu máli hefur Pétur Henrý hvatt til umræðu um kennslu, tekið þátt í umræðu um kennslu, haft frumkvæði að bættri eða breyttri kennslu og þannig unnið á fjölbreyttan hátt að auknum gæðum náms.“

Sjálfur sagði Pétur Henry við þetta tilefni: „Áskoranir í kennslu í dag eru fjölmargar en kennarar hafa sem betur fer stuðninginn og tæknina til að bregðast við þeim. Oft kallar það á nýja eða breytta hugsun bæði hjá bæði nemendum og kennurum – en þar liggja tækifærin.“

Pétur Henry Petersen, prófessor við Læknadeild og rektor HÍ

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Pétur Henry Petersen, prófessor við Læknadeild, við afhendinguna en viðurkenningar fyrir lofsverðan árangur í starfi hafa verið veittar við Háskóla Íslands í rúma tvo áratugi.

Efnisorð
Deila