Header Paragraph

Næringarviðmið uppfærð í fyrsta sinn í 10 ár

Image
Grænmeti

Embætti landlæknis birti nýlega ný viðmið fyrir orku og næringarefni en slík viðmið voru síðast gefin út fyrir tíu árum. Viðmiðin byggjast á nýjustu Norrænu næringarráðleggingunum þar sem ritrýndar vísindagreinar eru lagðar til grundvallar. Að auki er tekið tillit til hefða og venja í hverju landi fyrir sig. Ráðleggingum embættis landlæknis um mataræði er ætlað að leggja grunninn að æskilegu mataræði í heild frekar en einblína á einstök næringarefni.

Jóhanna E. Torfadóttir, verkefnastjóri næringar hjá embætti Landlæknis og lektor í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, ræddi þessi nýju næringarviðmið í samtali við Ríkisútvarpið. Jóhanna segir mikið um misvísandi upplýsingar um næringu í gangi í samfélaginu og töluvert um rangfærslur og því mikilvægt að það komi fram að það sem þau leggja fram sé byggt á rannsóknum.

Helstu breytingar

Helstu breytingarnar á þessum viðmiðum segir Jóhanna vera á ráðleggingum um næringarefni, aðallega vegna breyttrar aðferðafræði við útreikninga á ráðlögðum dagsskömmtum (RDS) fyrir vítamín og steinefni og nýrra viðmiða um orkuinntöku mismunandi hópa.

Þetta hefur leitt til þess að RDS fyrir eftirtalin næringarefni hafa hækkað umtalsvert: E-vítamín, B6-vítamín, fólat, B12-vítamín, C-vítamín, kalk, sínk og selen. Þrátt fyrir að RDS fyrir áðurnefnd næringarefni hafi hækkað, segir Jóhanna að ekki sé þörf á því að taka bætiefni. Öll RDS gildi séu það há til að tryggja að stærstur hluti þjóðarinnar nái að uppfylla þörfina fyrir hvert vítamín og steinefni.

Jóhanna nefnir einnig aðra mikilvæga breytingu sem gerð hefur verið. Hún er tengd sykri en hingað til hefur verið lögð mest áhersla á að takmarka neyslu á viðbættum sykri en núna er einnig mælt með því að takmarka neyslu á sykri sem er náttúrulega til staðar í hunangi, sírópi, ávaxtasafa og ávaxtaþykkni.

Með breytingunni er embætti landlæknis komið á sama stað í ráðleggingum sínum varðandi sykur og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin.

Ráðleggingarnar byggðar á hundruðum vísindalegra rannsókna

Spurð á hverju þessar ráðleggingar byggjast segir Jóhanna að síðan 1980 hafi Norðurlöndin verið í samstarfi um að vinna ráðleggingar um mataræði og næringarefni. Hvert land gefi síðan út eigin ráðleggingar sem taki tillit til aðstæðna hverrar þjóðar.

Að sögn Jóhönnu liggja hundruð rannsókna á bak við ráðleggingarnar sem hópur sérfræðinga fer yfir. Þeir hafi reynslu og þekkingu á því að setja rannsóknirnar í samhengi við þær takmarkanir sem fylgi öllum rannsóknum. Þetta þýði að aldrei séu gefnar út ráðleggingar frá opinberum stofnunum á borð við embætti landlæknis sem byggi á fáum rannsóknum. Þess í stað hafi Norðurlöndin unnið saman að því að fara kerfisbundið í gegnum allar samantektir vísindarannsókna á stórum hópum þátttakenda frá 2010 fyrir hvert viðfangsefni næringar og heildaráhrifin metin. Þessi vinna hafi tekið yfir 5 ár og yfir 400 sérfræðingar lögðu hönd á plóg. Afraksturinn hafi verið nýjar norrænar næringarráðleggingar sem gefnar voru út fyrir ári síðan.

Tegund fitunnar skiptir máli

„Mettuð fita er fita sem við fáum m.a. úr rauðu kjöti, smjörlíki, rjóma, smjöri, osti, pálmaolíu, kókosfitu, kökum og kexi. Þegar skoðuð eru áhrif þess að borða minna af fæðutegundum sem innihalda mikið af mettaðri fitu á heilsutengda þætti skiptir mestu máli hvað við borðum í staðinn.

Ef við borðum í staðinn meira af fæðutegundum sem innihalda ómettaða fitu (mjúka fitu) sem finna má í fæðutegundum eins og feitum fiski (laxi, silungi, síld og lýsi), hnetum, fræjum og fljótandi jurtaolíum eru minni líkur á ýmsum langvinnum sjúkdómum og ótímabærum dauðsföllum.“

Sem fyrr er mælt með að halda neyslu á unnum kjötvörum og rauðu kjöti í lágmarki.

Með því að fylgja ráðleggingunum um mataræði segir Jóhanna að bæði sé hægt að koma í veg fyrir skort á næringarefnum sem og minnka líkur á ýmsum langvinnum sjúkdómum seinna á lífsleiðinni. Það séu sterk vísindi á bak við þessar almennu ráðleggingar.

Hér má lesa má viðtal RÚV við Jóhönnu E. Torfadóttur lektor í lýðheilsvísindum við HÍ.

Image
Jóhanna E. Torfadóttir

Jóhanna E. Torfadóttir, verkefnastjóri næringar hjá embætti Landlæknis og lektor í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Ljósmynd Kristinn Ingvarsson