
Lyfjafræðideild Háskóla Íslands var með í Nordforsk styrkumsókn sem hlaut 250 milljón króna styrk í nóvember. Að umsókninni stóðu 10 lyfjafræðiháskólar á Norðurlöndunum og skiptist styrkurinn á milli þeirra. Markmiðið með honum er að auka og þétta samstarf þessara 10 lyfjafræðiháskóla. Áherslan er á rannsóknir í lyfjagjöf (drug delivery), nýja framleiðsluhætti lyfja, klíníska þýðingu þeirra og þverfaglega nálgun innan lyfjafræðinnar.
Styrknum má skipta í þrennt:
- Aukin hreyfanleiki nema á milli skóla sem nýtist doktorsnemum og ungu vísindafólki í þessum 10 skólum þannig að þeir geta farið á námskeið og ráðstefnur sem eru innan þessa samstarfsnets og þeir geta einnig dvalið við skólana tímabundið til að nota rannsóknaraðstöðu.
- Samtarf um námskeið fyrir doktorsnema
- þjálfun ungra vísindamanna í samstarfi við nokkur stór lyfjafyrirtæki á Norðurlöndunum.
Þetta þýðir að doktorsnemar og ungir vísindamenn við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands geta farið til hinna lyfjafræðiskólanna og notað aðstöðu þar í sínum verkefnum. Doktorsnemar við deildina komast einnig á námskeið í þessu samstarfsneti án endurgjalds.