
Viljayfirlýsing um samstarf Lífvísindaseturs Háskóla Íslands (BMC) og Hafrannsóknarstofnunar (Hafró) var undirrituð af Þorsteini Sigurðssyni forstjóra Hafrannsóknarstofnunar og Unni Þorsteinsdóttur forseta Heilbrigðisvísindasviðs HÍ þann 26. október 2023.
Markmið viljayfirlýsingarinnar er að efla rannsóknasamstarf milli BMC-HÍ og Hafró við uppbyggingu erfða- og erfðamengjarannsókna í þágu beggja aðila. Lágmarks aðstöðugjald til BMC-HÍ gerir Hafró kleift að vakta ástand sjávar og ferskvatns í vísindalegum tilgangi í samvinnu við sérfræðinga BMC-HÍ. Í þessu felst bestun tilrauna til að spara kostnað við raðgreiningar og greiningu raðgreiningargagna. Er með þessari viljayfirlýsingu lagður grunnur að virkri samvinnu milli BMC-HÍ og Hafró sem m.a. getur falið í sér birtingu niðurstaðna á opinberum vettvangi, eins og í alþjóðlegum vísindaritum og þróun frekara rannsóknarsamstarfs.
Sameiginlegt markmið beggja aðila er að efla erfða- og erfðamengjafræðirannsóknir í tengslum við vöktun á náttúruauðlindum sjávar og ferskvatns á Íslandi og stuðla þannig að aukinni þekkingu, verðmætasköpun og atvinnuuppbyggingu í kringum þessar auðlindir.
Viljayfirlýsingin í heild sinni