
Á 22. Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu HÍ sem haldin var á Hilton hótelinu 14. og 15. október voru haldin 134 erindi um allt það nýjasta í líf- og heilbrigðisvísindum á Íslandi. Þá var boðið upp á fjölda veggspjalda kynninga sem voru vel sóttar. Fjallað var um spennandi rannsóknir af mörgum fræðasviðum, til dæmis meðgöngu og fæðingu, andlega heilsu, íþróttir, næringu, lyfjafræði, lífvirkni, heilbrigðisþjónustu, sameindalíffræði, ónæmisfræði, erfðafræði og endurhæfingu. Nokkur hundruð manns sóttu ráðstefnuna þessa tvo daga.
Falsupplýsingar og upplýsingaóreiða vaxandi vandamál
Það var Unnur Anna Valdimarsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, sem setti þessa 22. Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands með eftirfarandi orðum:
Ráðstefna í Líf- og heilbrigðisvísindum er fyrir löngu orðin fastur liður í starfi Heilbrigðisvísindasviðs en á næstu dögum munum við geta kynnt okkur nálgun og niðurstöður um 200 verkefna á sviðinu sem öll hafa skírskotun í mikilvæg viðfangsefni á sviði líf- og heilbrigðisvísinda. Hér má nefna dæmi um fjöllyfjanotkun, lestrarerfiðleika barna, mýtur í mataræði, bólusetningarhik, greiningu og meðferð krabbameins, og notkun gervigreindar í rannsóknum, en allt eru þetta málefni sem undanfarið hafa verið mikið rædd í okkar samfélagi.
Það krefst mikils tilkostnaðar, bæði í vinnuframlagi og fjármunum, að halda slíka ráðstefnu og við tökum frá tíma í okkar þéttu dagskrá til að taka þátt. Því má spyrja: Af hverju erum við eiginlega að þessu?
Svarið er að við þurfum þennan vettvang til að „besta“ vísindastarf okkar, þjálfa ungt vísindafólk í því að kynna sínar rannsóknir og taka við gagnrýni, efla tengsl og samstarf innan sviðsins, og síðast en ekki síst að miðla nýrri þekkingu til samfélagsins.
Falsupplýsingar og upplýsingaóreiða er vaxandi vandamál í okkar samfélagi, og náði nýjum hæðum í heimsfaraldri COVID-19. Slík óreiða hefur, eins og kunnugt er, afvegaleitt niðurstöður lýðræðislegra kosninga, en á heilbrigðissviði er hún beinlínís ógn við líf og lýðheilsu.
Börn og ungt fólk er sérstaklega berskjaldað fyrir falsupplýsingum á samfélagsmiðlum en þar setja ýmsir áhrifavaldar fram sterkar staðhæfingar um meinta gagnsemi ýmissa lífsstílsíhlutana og áróður gegn gagnreyndri heilbrigðisþjónustu. Hér má nefna áróður um hollustu kjötáts (skv. carnivore mataræði), áróður gegn bólusetningum og gagnreyndri meðgöngu- og fæðingaraðstoð, og ýmiss gylliboð um betri heilsu og líðan sem markaðsöfl streyma kerfisbundið til fólks í viðkvæmri stöðu.
Hér höfum við vísindasamfélagið mikilvægu hlutverki að gegna, og verðum að taka það hlutverk alvarlega. Þessi ráðstefna er mikilvægur liður í því, og við erum með fleiri viðburði og úrræði á prjónunum til að virkja þetta samtal við samfélagið og veita þessum falsfréttum viðnám.
Þetta samtal er einnig mikilvægt til að almenningur og yfirvöld skilji mikilvægi okkar – en eins og margoft hefur komið fram er íslenskt háskólakerfi stórlega vanfjármagnað og enn og aftur eru framlög ríkisins til grunnvísinda skert í tillögum til fjárlaga 2025. Við megum til að vinda ofan af þessari þróun – og það gerum við best með því að kynna vísindin okkar.