
„Innan læknisfræðinnar er kæling notuð sem taugaverndandi meðferð við alvarlegum sjúkdómum, t.d. eftir súrefnisskort í fæðingu og hjartastopp. Kæling virðist vernda taugafrumur fyrir skaða sem annars hefði orðið eftir skerðingu á blóðflæði til þeirra en ferlið þar að baki er lítt skilið,“ segir Salvör Rafnsdóttir, læknir og doktorsnemi. Hún vinnur nú að rannsókn sem miðar að því að hvaða frumuferlar og gen virkjast við kælingu frumna niður í 32°C. Salvör hefur einnig framkvæmt lyfjaskimun og þar fundið lofandi lyf sem virðist virkja þetta náttúrulega kæliviðbragð án kælingar. Þessi uppgötvun hennar og samstarfsfólks tryggði þeim sigur í samkeppninni um Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands 2023 á dögunum.
Salvör hefur þegar lokið læknisnámi við Háskóla Íslands en rannsóknareynsla sem hún öðlaðist í náminu og áhugi hennar á þróun sjúkdóma og erfðafræði leiddu hana inn á vettvang Lífvísindaseturs Háskóla Íslands þar sem stundaðar eru svokallaðar grunnrannsóknir á bæði fjölbreyttum sjúkdómum og ýmsum ferlum í líkamanum. Þar stundar hún doktorsnám á rannsóknarstofu Hans Tómasar Björnssonar, prófessors við Læknadeild.
„Ég hef mikinn áhuga á að tengja saman grunnrannsóknir, þar á meðal rannsóknir á tilraunadýrum og frumum, og nýjungar í læknisfræði. Þetta fræðasvið kallast á ensku translational medicine og útleggst á íslensku sem færsluvísindi. Markmið færsluvísinda er að koma niðurstöðum grunnrannsókna til sjúklinga eins fljótt og auðið er. Með færsluvísindum er leitast við að rannsaka sjúkdóma eða sjúkdómsástönd í frumum eða tilraunadýrum og vonast er til þess að finna nýja frumuferla, sem hægt er að beina spjótum að eða lyf sem geta virkjað þekkta frumuferla eða gen. Þannig geta þessar nýju uppgötvanir verið ný meðferðarmörk eða leitt af sér nýja lyfjameðferð fyrir sjúklinga sem aftur leiðir af sér bætta meðferð fyrir sjúklinga,“ útskýrir Salvör sem komst í kynni við grunnrannsóknir snemma í læknanáminu.