Innleiðing námskeiðs gegn meiri háttar geðlægð unglinga afar hagkvæm
Hægt er að fyrirbyggja eða seinka þróun meiri háttar lotu geðlægðar unglinga á höfuðborgarsvæðinu, sem eru með mörg einkenni geðlægðar um 14 ára aldur, með námskeiði sem byggist á hugmyndafræði hugrænnar atferlismeðferðar (HAM). Innleiðing slíks námskeiðs yrði afar hagkvæm fyrir íslenskt heilbrigðis- og velferðarkerfi. Þetta er meðal niðurstaðna kostnaðarvirknigreiningar á innleiðingu námskeiðsins á höfuðborgarsvæðinu sem greint verður frá á ráðstefnunni „Progressive Evolution of the Icelandic Prevention of Depression Program“ sem haldin verður í Auðarsal í Veröld – húsi Vigdísar þriðjudaginn 21. maí kl. 8-12.
Á ráðstefnunni koma saman sérfræðingar frá nokkrum löndum í geðlægð barna og unglinga. Þar verður greint frá árangri forvarnaverkefnisins Hugur og heilsa hér á landi, í Portúgal, Svíþjóð og Grikklandi auk áðurnefndra niðurstaðna heilsuhagfræðilegrar rannsóknar á virðisaukningu forvarnaverkefnisins hérlendis.
Hugur og heilsa er forvarnaverkefni sem Eiríkur Örn Arnarson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands og sérfræðingur í klínískri sálfræði, hefur þróað í samstarfi við W. Ed. Craighead, prófessor við Emory-háskólann í Atlanta, og miðar að því að koma í veg fyrir þunglyndi og að þunglyndi taki sig upp. Þunglyndi er algengt og þungbært og depurð og kvíði algengir fylgifiskar unglingsáranna. Hugræn atferlismeðferð (HAM) við þunglyndi fullorðinna hefur reynst árangursrík og stenst samanburð við lyfjameðferð við þunglyndi.
Hugur og heilsa byggist á hugmyndum HAM og er námskeið sett fram í handbók fyrir leiðbeinendur og þátttakendur. Þátttakendur hittast í hópum, fá heimaverkefni, kennslu og leiðbeiningar. Á námskeiðinu er áhersla lögð á að unglingarnir geti haft áhrif á eigin hegðun, breytt líðan og hugsunum. Niðurstöður rannsókna hafa leitt í ljós að forvarnanámskeiðið dragi úr einkennum þunglyndis og sporni við þróun þess. Nýnæmi er forvörn geðröskunar. Miðað við kostnaðarvirkniþröskuld Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar reiknast innleiðing og rekstur námskeiðsins Hugur og heilsa í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu mjög hagkvæm.
Á ráðstefnunni í Veröld verður einnig fjallað um ný gögn um breytingar á heilamyndgreiningu (e. neuroimaging changes) sem eiga sér stað samhliða hugrænni atferlismeðferð. Einnig verður fjallað um mögulega notkun gervigreindaraðferða til að greina nákvæmar líkur á þróun þunglyndis á aldrinum 15-18 ára. Að lokum verður erindi um erfðafræðilega rannsókn á þunglyndi.
Allt áhugafólk um forvarnir og geðheilbrigði barna og ungmenna er velkomið á ráðstefnuna.
Hugur og heilsa er forvarnaverkefni sem Eiríkur Örn Arnarson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands og sérfræðingur í klínískri sálfræði, hefur þróað í samstarfi við W. Ed. Craighead, prófessor við Emory-háskólann í Atlanta, og miðar að því að koma í veg fyrir þunglyndi og að þunglyndi taki sig upp. MYND/Kristinn Ingvarsson