Header Paragraph

HÍ á fjölmörgum listum ShanghaiRanking og THE yfir bestu háskóla heims

Image
Aðalbygging Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er á 10 listum yfir fremstu skóla heims á afmörkuðum fræðasviðum á hinum virta lista Shanghai Global Ranking of Academic Subjects og á níu sambærilegum listum tímaritsins Times Higher Education (THE). Listarnir voru birtir í síðustu viku og Háskóli Íslands er sem fyrr eini íslenski skólinn á báðum listum.

Listarnir tveir teljast til virtustu og áhrifamestu matslistanna yfir bestu skóla heims. Þeir hafa verið birtir um árabil og byggjast á mati á ýmsum þáttum í starfsemi háskóla, þar á meðal birtingu vísindagreina í virtum fræðitímaritum, fjölda tilvitnana annarra vísindamanna í rannsóknir á vegum skólans, námsumhverfi, alþjóðlegu samstarfi, frammistöðu háskóla út frá starfsmannafjölda og fjölda starfsmanna sem hljóta vísindaverðlaun fyrir framlag sitt innan einstakra fræðagreina. Listarnir eru þó ólíkir að því leyti að hver listi Times Higher tekur til breiðari sviða vísinda en listar ShanghaiRanking ná til alls 55 greina á sviði náttúruvísinda, verkfræði, lífvísinda, læknavísinda og félagsvísinda.

Listar ShanghaiRanking Consultancy yfir fremstu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum fyrir árið 2023 taka til yfir 1.900 háskóla um allan heim. Á þeim er Háskóli Íslands í:

  • 22. sæti á sviði fjarkönnunar
  • 101.-150. sæti á sviði hjúkrunarfræði
  • 151.-200. sæti á sviði jarðvísinda
  • 151.-200. sæti á sviði lífvísinda
  • 201.-300. sæti á sviði lýðheilsuvísinda
  • 301.-400. sæti á sviði vistfræði
  • 301.-400. sæti á sviði stjórnmálafræði
  • 401.-500. sæti á sviði líffræði mannsins
  • 401.-500. sæti á sviði menntavísinda
  • 401.-500. sæti á sviði sálfræði

Nánari upplýsingar eru á vef ShanghaiRanking.

Sambærilegir listar Times Higher Education taka til allt frá nokkur hundruð til á annað þúsund háskóla innan einstakra fræðasviða. Samkvæmt þeim er Háskóli Íslands í:

  • 201.-250. sæti á sviði lífvísinda
  • 301.-400. sæti á sviði hugvísinda
  • 301.-400. sæti á sviði sálfræði
  • 301.-400. sæti á sviði verkfræði og tækni
  • 301.-400. sæti á sviði raunvísinda
  • 401.-500. sæti á sviði menntavísinda
  • 401.-500. sæti á sviði félagsvísinda
  • 401.-500. sæti á sviði klínískra heilbrigðisvísinda
  • 601.-800. sæti á sviði viðskiptafræði og hagfræði

Nánari upplýsingar á vef THE.

Fyrr á árinu birtu bæði Times Higher Education og ShanghaiRanking lista yfir fremstu háskóla heims sem byggist á heildarmati á starfi þeirra. Háskóli Íslands reyndist þar í 505. sæti á lista THE og í sæti 601-700 á Shanghai-listanum.

„Niðurstöðurnar undirstrika sterka stöðu Háskóla Íslands á alþjóðavísu. Þær skipta okkur máli því þær vekja athygli í alþjóðlegu háskólastarfi og skapa skólanum ýmis tækifæri. Um 25.000 háskólar starfa í heiminum og gefur mat Times Higher Education til kynna að öll fimm fræðasvið HÍ séu meðal þeirra 500 bestu í heimunum sem er frábær árangur. Að sama skapi sýna tölur ShanghaiRanking að einstakar greinar og deildir HÍ eru í allra fremstu röð í heiminum. Öllu þessu ber að fagna,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
 

Image
Aðalbygging Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er á 10 listum yfir fremstu skóla heims á afmörkuðum fræðasviðum á hinum virta lista Shanghai Global Ranking of Academic Subjects og á níu sambærilegum listum tímaritsins Times Higher Education (THE). Listarnir voru birtir í síðustu viku og Háskóli Íslands er sem fyrr eini íslenski skólinn á báðum listum. MYND/Kristinn Ingvarsson