Header Paragraph

Hátt í 300 konur upplifa áfallaeinkenni í kjölfar fæðingar ár hvert

Image
Valgerður Lísa Sigurðardóttir

„Áföll í tengslum við fæðingu barns geta haft gríðarleg áhrif á upplifun kvenna af barnsfæðingum og jafnvel spilað mikið inn í upplifun næstu fæðinga ef ekki fæst viðeigandi aðstoð og stuðningur,“ segir Valgerður Lísa Sigurðardóttir, ljósmóðir og lektor við Háskóla Íslands sem hefur lagt mikið kapp á rannsóknir á neikvæðri fæðingarupplifun. 

Doktorsverkefni Valgerðar fjallaði t.a.m. um fæðingarreynslu og þróun meðferðar fyrir pör sem hafa neikvæða fæðingarreynslu. Það vakti sérstaklega athygli hennar að konur sem voru í námi þegar þær tóku þátt í rannsókninni virtust vera í meiri áhættu á að upplifa áfall eða neikvæðar tilfinningar við eða eftir fæðingu. Valgerður telur að mögulega sé ástæðan mikið álag, margar séu jafnvel að vinna samhliða námi ásamt því að sinna heimilum og fjölskyldum. 

Stýrir alþjóðlegri rannsókn hérlendis 

Valgerði bauðst í kjölfar doktorsverkefni síns að vera partur af rannsóknarteymi í alþjóðlegri rannsókn ásamt kollega sínum, Emmu Swift. Sú rannsókn ber heitið International survey of childbirth-related trauma eða INTERSECT. Rannsóknin fer fram í yfir 40 löndum og verið er að rannsaka upplifun kvenna um 6-12 vikum eftir barnsfæðingu. Valgerður og Emma hafa stýrt rannsókninni hérlendis og þýðingu spurningalistans sem konum var sendur. Þær ákváðu að senda sambærilegan spurningalista til maka, líkt og gert var í nokkrum öðrum löndum, til þess að fá skýrari mynd á hvaða afleiðingar áfall við barnsfæðingu getur haft á maka. 

 „Enn á eftir að klára INTERSECT-rannsóknina og liggja lokaniðurstöður því ekki fyrir en gögnum var safnað í fyrra og bárust okkur um 800 svör. Bráðabirgðaniðurstöður gefa til kynna sambærilegar niðurstöður og úr doktorsverkefni mínu, að í kringum 5-6% þeirra sem fæða barn á ári hverju upplifa einhvers konar áfall eða hafa neikvæða upplifun af fæðingu. Það eru í kringum 250- 300 konur á ári hverju,“ bendir Valgerður á. 

Við rannsóknir sínar notar Valgerður ýmsar aðferðir og finnst henni mikilvægt að meta út frá hverri rannsókn fyrir sig hvaða rannsóknarsnið sé best að nota. Við gerð þessara rannsókna notaðist hún við eigindlegar og megindlegar aðferðir. 

Út frá gögnum úr INTERSECT-rannsókn Valgerðar og Emmu hafa verið unnin þrjú meistaraverkefni í ljósmóðurfræðum og í þeim verkefnum kom m.a. í ljós að áfallaeinkenni í kjölfar fæðingar geta tengst erfiðleikum við brjóstagjöf og tengslamyndun. 
 

Text

Valgerði bauðst í kjölfar doktorsverkefni síns að vera partur af rannsóknarteymi í alþjóðlegri rannsókn ásamt kollega sínum, Emmu Swift. Sú rannsókn ber heitið International survey of childbirth-related trauma eða INTERSECT. Rannsóknin fer fram í yfir 40 löndum og verið er að rannsaka upplifun kvenna um 6-12 vikum eftir barnsfæðingu.
 

Image
Image
Kornabarn

Áföll geta setið í konum í mörg ár eftir fæðingu 

Áhugi Valgerðar Lísu á áföllum og neikvæðum upplifunum kvenna í tengslum við barnsfæðingu kviknaði strax þegar hún var að læra ljósmóðurfræði og var á sama tíma að hitta barnshafandi konur í mæðravernd. Valgerður skynjaði sterkar tilfinningar og kvíða fyrir næstu fæðingu hjá þeim konum sem höfðu áður átt neikvæða fæðingarupplifun eða upplifað áfall í tengslum við fæðingu, jafnvel löngu eftir fæðinguna sjálfa. 

„Helstu áhættuþættir hvað varða áfallaeinkenni eru langdregnar fæðingar, en hvað flokkast sem langdregin fæðing er í raun upplifun þess sem er í fæðingu, óvæntar uppákomur í tengslum við fæðingu, líkt og bráðakeisaraskurður eða önnur óvænt inngrip, og ónógur stuðningur, annaðhvort frá maka, öðrum sem viðstaddir eru fæðinguna eða frá fagaðilum,“ segir Valgerður. 

Þjónustan þróast á síðustu árum

Eftir að Valgerður sótti sér starfsréttindi sem ljósmóðir hefur hún starfað sem ljósmóðir m.a.  á fæðingarvakt, sængurlegudeild og í meðgönguvernd.

Valgerður gekk til liðs við Ljáðu mér eyra árið 2008, sem er þjónusta fyrir mæður og pör sem hafa upplifað áfall af einhverju tagi í tengslum við fæðingu. Hún tók eftir að þrátt fyrir að í kringum 250- 300 einstaklingar upplifðu einhvers konar áfall í tengslum við barnsfæðingar voru lengst af 60-80 á ári hverju sem nýttu sér þjónustuna sem Ljáðu mér eyra býður upp á. Þó er mögulegt að einhverjir hafi sótt sér aðstoð annars staðar. 

Árið 2011 var farið í rannsókn á upplifun þeirra sem nýttu sér þjónustu Ljáðu mér eyra þar sem m.a. var kannað hvaða væntingar fólk hafði til þjónustunnar, hvort þjónustan hafi staðist þær væntingar og hvað betur mætti fara. Niðurstöðurnar voru nýttar til að þróa enn frekari þjónustu fyrir þau sem þörf hafa fyrir að fara yfir upplifun sína af fæðingu. Í ljós kom að meirihluti kvenna vildi fara yfir fæðingu sína með ljósmóður sem þær höfðu þegar kynnst í gegnum barneignarferlið. 

„Fyrir u.þ.b. tveimur árum var svo öllum ljósmæðrum sem vildu boðið upp á þjálfun til þess að veita þjónustu á heilsugæslustöðvum sem svipar til þjónustu Ljáðu mér eyra. Það er því mikil þróun í gangi og þjónustan er orðin aðgengilegri fyrir þau sem þurfa á henni að halda. Öllum er bent á þjónustuna en er það hlutverk þess sem vill nýta sér hana að bóka tíma hjá sinni ljósmóður úr mæðravernd. Það stendur einnig til boða að fá tíma hjá annarri ljósmóður sé þess óskað,“ segir Valgerður Lísa að lokum.
 

Image
Valgerður Lísa Sigurðardóttir

„Bráðabirgðaniðurstöður gefa til kynna sambærilegar niðurstöður og úr doktorsverkefni mínu, að í kringum 5-6% þeirra sem fæða barn á ári hverju upplifa einhverskonar áfall eða hafa neikvæða upplifun af fæðingu. Það eru í kringum 250- 300 konur á ári hverju,“ bendir Valgerður Lísa Sigurðardóttir á.